2.3 C
Selfoss
Home Umræðan Áfram garðyrkjuskóli á Reykjum

Áfram garðyrkjuskóli á Reykjum

0
Áfram garðyrkjuskóli á Reykjum
Guðrún Hafsteinsdóttir.

Maður er sífellt minntur á það þegar maður horfir á reykinn úr hverunum stíga til lofts hversu mikla orku er að finna í okkar ágæta landi. Þegar orka fólksins er svo nýtt á réttan hátt er fátt sem stöðvar framgang og framfarir í samfélaginu. Það var þessi orka sem fleytti garðyrkjunámi á Reykjum í Ölfusi af stað fyrir rúmum 80 árum og þar hefur garðyrkjuskóli átt lögheimili allar götur síðan. Þar þarf hann líka að vera áfram, helst sem sjálfstæð stofnun líkt og hér áður fyrr, með áherslu á jafnan aðgang allra sem vilja finna sinn farveg í hverskonar garðyrkju-, ræktunar- og umhverfismálum.

Framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi er best tryggð með áframhaldandi starfsemi á Reykjum. Þar er húsakostur sem þarf að stækka og bæta með auknum verkefnum, þar er mannkostur, þekking og reynsla starfsfólks og kennara og þar er hefðin og sagan sem eru lykilþættir í að leiða garðyrkjuna inn í framtíðina. Stjórnvöld hér á landi hyggjast beita sér fyrir því að hér verði fjórðungi meira framleitt af grænmeti innan tveggja ára og minnka á hlutfall erlendrar framleiðslu til lengri tíma litið. Þetta verður ekki gert án bæði þekkingar og nýliðunar í greininni, og fyrstu skrefin er hægt að taka með námsframboði sem hentar greininni, en ekki fræðingunum.

Á Reykjum þurfum við í senn nútímavætt og einstaklingsmiðað nám, og við allra hæfi. Hættan er sú að unga fólkið sem er á leið í framhaldsskóla sé ekki með hugann við garðyrkju eða ræktun, og því passi ekki að tengja það nám annars ágætu starfi Fjölbrautaskóla Suðurlands. Að sama skapi er ekki víst að námið falli vel að menntastofnunum sem fyrir eru á háskólastigi.

Horfum á staðreyndir. Oftar en ekki vaknar áhugi fólks á garðrækt, garðyrkju og skógrækt þegar það er kannski búið að finna sér annan starfs- eða námsvettvang. Samt sem áður kviknar viljinn til að snúa sér að garðyrkjunámi og því þarf það að vera sveigjanlegt og aðgengilegt öllum. Í slíkum garðyrkjuskóla þarf að vera sérhæft iðn- og starfsmenntanám í garðyrkju, skógrækt og matjurtaræktun og tengdum greinum á framhaldsskólastigi. Þar þarf að bjóða upp á endurmenntun á fagsviðum skólans, og þar má stunda rannsóknir og tilraunir í garðyrkju í samstarfi við háskóla eða stofnanir. Síðast en ekki síst gæti öflugur garðyrkjuskóli tengst aðgerðum í loftlagsmálum, raunar gegnt þar lykilhlutverki.

Fagfólk innan garðyrkju þarf að koma að ákvörðun um framtíð skólans á Reykjum. Við þurfum að bregðast hratt við, áður en við missum tækifærið að snúa við blaðinu. Kannski sjáum við Sunnlendingar skólann fyrir okkur í gegnum rósrauð gleraugu fortíðarþrár, en hví ekki? Hvað er að því að vilja sjá svona merka stofnun vaxa og dafna á ný? Eflum garðyrkjuskólann á Reykjum, til framtíðar í landi tækifæranna.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.