-2.2 C
Selfoss
Home Umræðan Fæðingarþjónusta í heimabyggð

Fæðingarþjónusta í heimabyggð

0
Fæðingarþjónusta í heimabyggð
Guðrún Hafsteinsdóttir.

Aðstæður á sængurdeild HSu eru ekki boðlegar og snúa verður við af þeirri hættubraut sem hefur myndast strax. Við höfum séð stanslausa skerðingu á þjónustu fyrir fæðandi konur á Suðurlandi sl. áratug og það er fyrir löngu komið nóg. Dregið hefur verulega úr fæðingum á svæðinu og konur þurfa að fæða í Reykjavík. Þar hefur aðstaðan hins vegar ekki verið stækkuð eða bætt og því óútskýrt hvað fæst með tilfærslunni, nema verri aðstæður fyrir mæður og börn þeirra.

Stutt er síðan aðstaðan á fæðingadeildinni á Selfossi var minnkuð til muna. Í fyrrahaust fór hluti sængurrýma undir líknarrými. Nær hefði verið að létta á Landspítalanum með því að efla og færa þjónustu til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, ekki síst í kragahúsunum svokölluðu, þ.e. í Reykjanesbæ, Selfossi og Akranesi. Þetta eru einmitt þau svæði sem hvað mesta fólksfjölgunin hefur verið á síðustu árum. Einkum hefur fjölgað þar í hópi ungs fólks á barneignaaldri og fólks sem horfið er af vinnumarkaði. Því er ljóst að leysa verður vanda Landspítalans með öðrum hætti en að vega að grunnheilbrigðisþjónustu barnshafandi kvenna á Suðurlandi.

Til að bæta gráu ofan á svart stefnir í skort á ljósmæðrum vegna lítillar endurnýjunar í hópi þeirra. Ekki síst er það mikið álag sem veldur því að ljósmæður brenna upp í starfi. Við þessu mætti bregðast með því að færa þjónustuna aftur út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar sem fólk getur búið sér framtíðarheimili og mögulegt er að bjóða upp á mannsæmandi aðstæður, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega.

Ég átta mig á að rekstur heilbrigðisstofnana er enginn hægðarleikur, en ég trúi því ekki að farsælasta lausnin sé að færa þjónustuna sífellt til Reykjavíkur. Við Sunnlendingar búum flest í ört stækkandi samfélagi og þörfin fyrir þjónustu eykst um leið. Það er ekki sæmandi að nýjustu íbúarnir okkar, nýfædd börn og fjölskyldur þeirra, fái ekki þá þjónustu sem þau þurfa í heimabyggð.