5.6 C
Selfoss

Sandspyrna sem varð andspyrna

Vinsælast

Óhætt er að segja að sandspyrnan sem fram fór í landi Hjörleifshöfða hafi mætt andspyrnu, en fór samt fram. Umhverfisstofnun sendi bæði lögreglu og fulltrúa sinn á svæðið. Enginn var þó handtekinn eða hirtur opinberlega. Svo virðist sem einhvers misskilnings með leyfamál hafi verið að ræða, en landeigandi hafði gefið leyfi fyrir sitt leyti á upptöku á sandspyrnu fyrir breska bílaþáttinn Top Gear. Umhverfisstofnun mótmælti þessu og taldi að það væri skýrt að veiting heimilda fyrir utanvegaakstri væri alfarið í höndum stofnunarinnar; því hefði landeigandi ekkert með það að gera að veita leyfi þótt aksturinn færi fram á eignarlandi hans.

Hefðu getað stöðvað tökurnar

Það fór þó svo að „keppnin“ fór fram, en ekki var um eiginlega keppni að ræða með sigurvegurum eða fullvirkum tímatökubúnaði heldur framleiðsla á sjónvarpsefni. Samkvæmt Umhverfisstofnun kom til álita að stöðva upptökurnar en það var hætt við það. Fyrirtækið True North sagði að gengið yrði frá landinu þannig að ekki sæjust merki um að þar hefði nokkuð gerst. Umhverfisstofnun ætlar að fylgja málinu eftir og kanna hvort staðið verði við þær fullyrðingar. Ekki hefur heyrst annað en að það hafi gengið eftir.

Sandurinn spýttist tugi metra í loft upp

Sjónarvottar sögðu að líklega, burt séð frá því að verið væri að taka upp frægan bílaþátt, væri það merkilegasta sem gerst hafði þennan dag að þrír öflugir, íslenskir sandspyrnubílar hefðu brennt niður spyrnubrautina í einu. Það hefur aldrei gerst áður hér á landi og því sögulegt í íslensku mótorsporti.
Stillt var upp á ráslínu og mótorinn þaninn á „stallinu“, bremsum sleppt og blýfóturinn lagður í gólfið. Svartur sandurinn spýttist tugi metra í loft upp undan skófludekkjunum sex, meðan þrír átta gata mótorar þrýstu bensínblönduðu, eldfimu loftinu út um flækjurnar til þess eins að lemja á hljóðhimnum viðstaddra. Race-bensínlykt fyllti loftið. Hið mesta sjónarspil og fögur sinfónía í eyrum þeirra sem kunna að meta. Heimildarmaður blaðsins sór að um leið og ökutækin hefðu verið komin nægilega langt í burtu og sandausturinn fallið til jarðar aftur hefði mannskapur lagað ummerkin með aðstoð vegefils. Aðspurður hvort hann væri spenntur fyrir þættinum svaraði hann að bragði; „Njá! Ætli maður horfi ekki á hann með öðru. Ég væri nú spenntari fyrir því að hafa þetta alvöru keppni en ekki eitthvað svona sjónvarpsfúsk, en ætli við leyfum ekki sandinum að setjast og Umhverfisstofnun að róast og breytast áður en við förum út í frekari pælingar um það.“

Ekki sér íslenskt fyrirbæri

Margir hafa velt því fyrir sér hvort að sandspyrna sé sér íslenskt fyrirbæri og sé fyrir þær sakir einstakt íþróttafyrirbæri á heimsvísu. Það er þó ekki svo, en keppt er í sandspyrnu víða um heim. Svíar þykja framarlega í sportinu sem og Bandaríkjamenn, en báðu megin Atlantsálanna spretta ökuþórar úr spori á söndum sem bikuðum brautum. Því var kannski tilvalið var að hittast hér á miðri leið milli austurs og vesturs og spretta úr spori í íðilfagurri náttúrunni, án þess að hún verði fyrir varanlegu tjóni.

Utanvega akstur er bannaður og langflestir sammála um það

Því skal vissulega haldið til haga að utanvega akstur er með öllu bannaður á Íslandi. Um það málefni eru flestir ef ekki allir sammála um ef marka má viðbrögð almennings við slíku. Því þarf að vanda valið á stöðum sem nýttir eru í svona sprell og fá þau leyfi sem nauðsynleg eru frá þar til bærum aðilum. Hugsum vel um landið okkar. Göngum frá eftir okkur þar sem við fáum að koma og njóta svo aðrir fái notið eins og við.

Ekki mátti birta myndir frá atburðinum fyrr en að þættinum sýndum og við virðum það!

Nýjar fréttir