9.5 C
Selfoss

Gulli í bókabúðinni ánægður með sumarið

Vinsælast

Það er engin lognmolla í kringum Gunnlaug Ingimarsson, íbúa á Sólheimum. Gunnlaugur eða Gulli eins og hann er kallaður rekur þar Pósthús og Bókaverslun, stýrir nytjamarkaði og sinnir kirkjuvörslu. Gulli hefur einnig verið í samstarfi við Bókabæina Austanfjalls. Við fengum heimboð til Gulla og tókum spjall, en Gulli hefur búið á Sólheimum undanfarin þrjú ár og sett sitt mark á mannlífið. Heilmikið hefur verið að gera og Gulli ánægður með sumarið og viðskiptavinina.

Búðin stækkuð og rými til skrafs og lesturs

Það er ljóst að Gulli er framkvæmdamaður því frá því að verslunin opnaði, Bókabúð Gulla, hefur hann stækkað hana og gert þannig úr garði að hægt er að setjast niður og ná sér í bók að lesa eða eiga gott spjall. „Það hefur verið mikið að gera í sumar og fólk ánægt með breytingarnar. Þetta er eina bókaverslunin í sveitinni og það koma margir hingað til að versla,“ segir Gulli. Þá vill hann koma á framfæri þökkum til Bókabæjanna Austanfjalls fyrir að styðja við sig með ráðum og dáð.

Vill rafskutluvæða pósthúsið

Gulli sinnir útburði á pósti samhliða því að reka pósthúsið á Sólheimum. „Ég er með tillögu í gangi núna, að fá rafskutlu til þess að auðvelda mér útburðinn.“ Gulli segir að það mál sé í skoðun og hann vonist eftir því að fá niðurstöður í það sem fyrst.

Tekur á móti bókum og varningi

Fólk í sveitinni þekkir Gulla orðið vel og heimsækja hann í Bókabúðina. Þangað kemur fólk með bækur sem Gulli tekur við og kemur áfram. Þá er hægt að skilja eftir ýmsan varning sem fer á Nytjamarkaðinn. Þá hefur verið vinsælt að skrifa póstkort til ættingja og fá Gulla til að koma því áleiðis í póst. „Ég er afskaplega ánægður með að fá fólk til mín. Mér hefur verið vel tekið bæði af öllum hér á Sólheimum og á Suðurlandi. Það er mjög gott að vera hér,“ segir Gulli. Við bendum fólki á að renna við hjá Gulla, fá spjall og kannski kippa eins og einni bók með í leiðinni.

Nýjar fréttir