13.4 C
Selfoss

Simbi Racing kemur með Íslandsmeistaratitilinn yfir brúna

Vinsælast

Ökuþórinn Skúli Kristjánsson, sitjandi heimsmeistari, hefur landað íslandsmeistaratitlinum í torfæru, þrátt fyrir að enn sé ein keppni eftir. Við hittum Skúla og náðum stuttu spjalli eftir keppnina, en Skúli þykir einstaklega lipur ökumaður sem gjör þekkir keppnistækið. Aðspurður um hvað það væri sem hefði stuðlað að því að landa titlinum segir Skúli: „Það er fyrst og fremst að vera stabíll ökumaður. Svo þarf bíllinn að hanga í lagi. Þá er ég heppin með að hafa úrvalsfólk í kringum mig, 15 manna aðstoðarmannahóp og auðvitað góða styrktaraðila.“

Sannkallaður Ljónsstaðabíll

Bíllinn er hugarsmíð Skúla frá grunni og þegar hann er spurður út í hvernig það væri að búa til svona bíl svarar hann hæglátur: „Ég byrjaði á að kaupa mótor og bunka af rörum og smátt og smátt varð til bíll. Það eru svona 2000 klst. sem fóru í smíðina.“  Skúli á ekki langt að sækja þessa hæfileika enda alinn upp á Ljónsstöðum, og búinn að vera í kringum bíla alla ævi, en innan Ljónsstaða er gríðarleg þekking og reynsla á bílasmíði og véltækni sem skilar sér í öflugum og góðum keppnisbíl. Spurður nánar um vélina segir Skúli: „Þetta er Ford vél sem skilar um 800 hestöflum. Ég nota ekki nítró né túrbínur heldur hef ég keflablásara til þess að auka aflið úr um 400 hestöflum upp í 800.“ En þess ber að geta að slíkur búnaður er ekki algengur í torfærubílum.

Ökutæknin í sérflokki

Við ræddum við Baldur Róbertsson, liðsfélaga Skúla um titilinn og ökuþórinn, en Baldur segir fullum fetum að Skúli sé með sérgáfu í akstri. „Ég fer ekkert ofan af því að það séu fáir ökumenn jafn góðir og Skúli. Það þarf ekkert annað en að fylgjast með honum í stutta stund til að sjá hann gjör þekkir bílinn, þeir eru eins og samvaxnir. Menn spá honum veltum hvað eftir annað, en alltaf eru hjólin sem límd við jörðina. Það má svo ekki gleyma því að hann er sitjandi heimsmeistari en það hefur ekki verið keppt aftur um titilinn síðan hann vann hann 2019 vegna Covid-19.“

Spenntur fyrir Akureyri

Þeir félagar Baldur og Skúli eru spenntir fyrir Akureyri. Það er á Skúla að heyra að hann sé ekkert búinn að leggja niður keppnisskapið þrátt fyrir að titillinn sé kominn í hús. „Ég hef hugsað mér að fara norður og taka fyrsta sætið með heim,“ segir hann og brosir.

Nýjar fréttir