7.3 C
Selfoss

Einstakt sjónarhorn í líf tveggja fjölskyldna í Listagjánni

Vinsælast

Sýningin Lífssögur sem nú má finna í Listagjá Bókasafns Árborgar er um margt ansi merkileg. Þar eru ofnir þræðir tveggja fjölskyldna sem eiga fastan punkt á Selfossi þó að þræðirnir liggi svo víða, allt austur til Tékkóslóvakíu og Vínar, upp á Flúðir og sameinast í hnykil á Selfossi. Annarsvegar er um að ræða bók Helgu R. Einarsdóttur, Með björtum augum, þar sem Helga safnar saman frásögnum og minningarbrotum af ævi sinni. Einnig er þar að finna sannkallaða fjölskyldubók sem er sett saman af þeim Gísla Sigurðssyni og dóttur hans Christine Gísladóttur. Ég hitti þau fyrir skömmu í Listagjánni og spurði þau út í tilurð sýningarinnar. Vert er að benda á að sýningunni lýkur 31. júlí næstkomandi og því um að gera að drífa sig í að kynna sér sýninguna

Tókst að rekja talsvert langt aftur og fá myndir

Bókin sem feðginin Gísli og Christine eru að sýna er fjölskyldubók að mestu byggð á ljósmyndum og er bókin einungis ætluð fjölskyldunni. „Þær á bókasafninu hafa reyndar farið þess á leit við okkur að eignast eintak,“ segja þau sposk. Christine segir að útgangspunkturinn í bókinni sé mamma hennar og pabbi. „Við fórum eins langt aftur og við gátum í báðum ættum,“ segir Christine og Gísli bætir við að tekist hafi að rekja ættir konu sinnar, Georginu Stefánsdóttur Sedlacek, aftur til Tékkóslóvakíu. „Hún var austurrísk, frá Vínarborg og faðir hennar var Tékki. Okkur tókst með aðstoð Internetsins að finna nöfn á mörgum ættmönnum. Þá er einnig ýmislegt í texta bókarinnar um fólkið,“ segir Gísli. En bókin inniheldur mikið af myndum af fólkinu í fjölskyldunni.

Bréf til Hitlers

Það eru margar merkilegar sögur í bókinni og Gísli rifjar eina upp. „Það var ein formóðir sem skrifar Hitler bréf. Bréfið var ritað vegna þess að Gestapó setti dóttur hennar í fangelsi og sakaði um föðurlandssvik. Hún var í fangabúðum allt stríðið.“ Christine flettir upp á myndum af fólkinu. Þar á meðal er ein af afasystur Christine sem tekin er í Ravensburg útrýmingarbúðunum. „Þau voru semsagt í andspyrnuhreyfingunni í Vín. Hann var sendur í á fremstu víglínuna og hún í þessar útrýmingarbúðir,“ segir Christine. Aðspurð um það hvernig hafi verið að fara svona ofan í fjölskyldurætur sínar segir Christine: Þetta er bara búið að vera mjög skemmtilegt nema þegar ég fann mynd af afasystur minni á netinu, í búningnum frá útrýmingarbúðunum, með bauga undir augunum og mér fannst ég sjá svip með mér og henni. Það fannst mér erfitt.

Mæla með að setjast niður og gera fjölskyldubók

„Við vorum um tvö og hálft ár að gera bókina. Og ég get mælt með því fyrir alla að búa til svona bók um fjölskylduna. Ég og pabbi vöknuðum upp við það einn daginn að það væru eiginlega bara ég, hann og systur mínar sem kunnum þessa sögu. Hún myndi hverfa með okkur. Það varð svo kveikjan að bókinni. Bókin stækkar svo með hverjum nýjum einstakling,“ segir Christine. Aðspurð um það hvernig það hafi verið að vinna svona bók segja þau: „Þetta er afar gefandi og við höfum átt frábært samstarf. Gísli bætir svo við : svo er hún Christine svo lagin við að setja þetta upp í fallegt form sem gaman er að skoða.“ Feðginin mæla eindregið með að fólk setjist niður og setji saman minningarnar, myndirnar og annað og fjalli um fólkið sitt. Taki saman sögurnar sem nú eru óðum að gleymast og haldi til haga fyrir komandi kynslóðir.

 

Nýjar fréttir