10.6 C
Selfoss

Rjómabúið á Baugsstöðum

Vinsælast

Fjóra kílómetra austan Stokkseyrar, skammt frá Knarrarósvita,  stendur látlaus bygging úr timbri klædd bárujárni. Á austurhlið þess er vatnshjól sem mjór skurður rennur um. Þetta er Rjómabúið á Baugsstöðum sem fyrir öld síðan var stór hluti af hagkerfi  bænda þar um slóðir. Rjómabú eða smjörbú skiptu mörgum tugum í upphafi 20. aldar á Íslandi en fyrirmyndin var starfsemi slíkra rjómabúa í Danmörku. Af öllum þessum fjölda rjómabúa sem starfrækt voru á sínum tíma er einungis Rjómabúið á Baugsstöðum varðveitt í dag með skálahúsi, tækjum og tólum.

Rjómabúið á Baugsstöðum var stofnað  8. október 1904 og tók til starfa 21. júní 1905. Stofnfélagar voru 48 bændur úr Stokkseyrarhreppi og Gaulverjabæjarhreppi en síðar gengu bændur úr Villingaholtshreppi í rjómabúið. Þetta var samvinnufélag. Það var starfrækt til 1952 en blómaskeið þess var frá upphafi og til 1920. Bændur komu með rjóma í brúsum á klyfjahestum og fyrst og fremst var framleitt smjör en einnig ostar. Í upphafi var grafinn aðveituskurður úr Hólavatni að Baugsstaðaá  og vatnshjól  knúði  vélar búsins.  Megnið af framleiðslunni var til útflutnings en einnig á sístækkandi markað í Reykjavík. Ýmis önnur þjónusta var í boði, hægt að láta hlaða rafgeyma fyrir útvarp og einnig var þarna kornmylla um skeið. Starfsfólk rjómabúsins voru konur sem voru sérmenntaðar í Mjólkurskólanum á Hvítárvöllum í Borgarfirði. Frá 1928 til 1952 störfuðu í Rjómabúinu á Baugsstöðum þær Guðrún Andrésdóttir aðstoðarkona og Margrét Júníusdóttir rjómabússtýra. Eftir það ráku þær verslun í húsinu til láts Margrétar 1969. Tæki rjómabúsins og áhöld voru varðveitt áfram eftir að starfsemi þess var hætt og átti það eftir að koma sér vel síðar.

Árið 1971 var stofnað til varðveislufélags um rjómabúið. Voru það Baldur Teitsson símstöðvarstjóri, Jóhann Briem listmálari og Þór Magnússon þjóðminjavörður sem hvöttu til þess að rjómabúið yrði varðveitt um aldur og ævi sem minjar um merkt skeið í búnaðarsögu Íslands. Heimamenn tóku síðan frumkvæðið.  Rjómabúið var opnað sem safn sumarið 1975 að viðstöddum Kristjáni Eldjárn forseta Íslands og hefur það verið opið á sumrin síðan þar sem tæki þess og tól hafa talað sínu máli. Rjómabúið var friðlýst af menntamálaráðherra árið 2005 á 100 ára afmæli þess. Á 100 ára afmælinu var jafnframt gefin út lítil og snotur bók um Rjómabúið á Baugsstöðum eftir Helga Ívarsson og Pál Lýðsson.

Rjómabúið á Baugsstöðum er opið laugardaga og sunnudaga í júlí og ágúst kl. 13-18. Hópar og skólar geta skoðað rjómabúið á öðrum tímum. Rjómabúið er upprunalegt að öllu leyti og eru vélar þess gangsettar fyrir gesti. Sjón er sögu ríkari. Vert er að geta þess að Knarrarósviti sem er þar skammt frá er einnig opinn gestum á sama tíma og gott betur því hann er einnig opinn virka daga.

Nýjar fréttir