0 C
Selfoss

Sturlunga er uppáhaldsbókin mín

Vinsælast

Sturlunga er uppáhaldsbókin mín segir lestrarhesturinn Guðmundur Stefánsson

Guðmundur Stefánsson er Flóamaður, fæddur í Túni, lengi bóndi í Hraungerði en býr nú á Selfossi. Búfræðimenntaður frá Hvanneyri. Starfaði um tíma hjá Búnaðarsambandi Suðurlands og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum.

Hvaða bækur ertu að lesa núna og hvernig velur þú þær?

Bækur vel ég mér á bókasafninu með því að fletta upp á nokkrum stöðum og grípa ofan í þær og vita hvernig mér falla þær. Þessar bækur hafa komið við á náttborðinu hjá mér að undanförnu: Innansveitarkronika sem ég er að lesa öðru sinni. Þar segir HKL frá ýmsum atburðum í Mosfellssveit og færir í spaugilegan búning eins og þegar undirskriftarlistar gengu um sveitina, annar með en hinn á móti því að rífa Mosfellskirkju. Allir skrifuðu á báða listana. Líka segir þar af hinum móðurlausa Stefáni Þorlákssyni sem á stroki norður í land fékk að gista á Hrísbrú og gisti þar í átján ár. Ævisögu Björns Eysteinssonar var ég líka að lesa öðru sinni. Hún segir frá harðri lífsbaráttu á síðari hluta 19. aldar, þegar fjöldi fólks fór af landi brott. Þegar Björn komst í þrot flutti hann hins vegar með fjölskyldu sína inn á heiðar og lifði mest á veiðum, komst af og efnaðist síðar. Kerskni Björns og skráveifur og glettur hans við mótstöðumenn, gerir frásögnina skemmtilega. Svo er það Sapiens, mannkynssaga í stuttu máli, eftir Yuval Noah Harari, þýdd af Magneu J. Matthíasdóttur sem er mikil bók, um 470 blaðsíður. Þar er rakinn ferill mannsins frá örófi, kafað í eðli hans, athafnir og lifnaðarhætti. Bókin er ólík öðrum mannkynssögum að því leyti að hún fjallar almennt ekki um ríkjamyndanir og einstaka valdamenn. Áhugaverð bók með áhugaverðu sjónarhorni á hegðun og hneigðir mannsins.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Helst höfða til mín bækur um þjóðleg efni, fornsögur, ævisögur og bækur um þróun mannsins og heimsins. Að undanförnu hef ég gert nokkuð af því að endurlesa bækur sem mér hefur fundist varið í. Sögulegar skáldsögur og frjálslegar frásagnir þykja mér bestar. Þar er raunveruleikinn skammt undan, en höfundur hefur leyfi til að færa efnið í búning, svolítið til hliðar við veruleikann. Ekki sakar þegar spaugsemin kraumar undir. Í því sambandi vil ég nefna Sögur úr Síðunni eftir Böðvar Guðmundsson, Bréf til Brands eftir Harald Bessason og Innansveitarkróniku eftir Halldór Laxness. Sturlunga er uppáhaldsbók hjá mér. Hún er fyrst og fremst atburðasaga þar sem ekki er alltaf ljóst hvað býr að baki atburða og átaka. Það gefur tilefni til ígrundunar og gerir söguna áhugaverðari. Af Íslendingasögum hef ég lesið flestar, ef ekki allar. Eins og fleirum finnst mér Njála bera af. Hún er svo margslungin, frásagnarstíllinn sérstakur og svo eru þar ekki bara átök milli óskyldra, heldur líka innan fjölskyldna. Athyglisverður þykir mér líka Ívars þáttur Ingimundarsonar sem sýnir að samtalsmeðferð hefur verið þekkt aðferð í sálfræði fyrir þúsund árum. Ólíkar eru líka bardagalýsingarnar í Íslendingasögunum og Sturlungu. Í Sturlungu eru bardagarnir hjakk. Engin er klofinn í herðar niður og Snorri Sturluson segir sín lokaorð með höfuðið áfast. Áhugaverðar þykja mér líka bækur þar sem rýnt er í þessar fornu bækur með greiningum, ályktunum og oft getgátum um ýmislegt í þeim. Má þar nefna Goðamenningu eftir Gunnar Karlsson sem er vísindalega unnin og svo Höfund Njálu eftir Barða Guðmundsson og Sköpun Njálssögu eftir Sigurð í Hvíárholti sem eru frjálslegri í umfjöllun. Þá vil ég nefna ritröðina Íslenska örlagaþættieftir Sverri Kristjánsson og Tómas Guðmundsson og Vér Íslandsbörn og Íslenskt mannlíf eftir Jón Helgason Tímaritstjóra sem einnig má kalla örlagaþætti. Þessar bækur allar fjalla bæði um örlög fyrirfólks og hinna lægra settu, andstreymi þess og meðbyr. Ritröð Einars Pálssonar um Rætur íslenskrar menningar eru áhugaverðar. Þar kafar hann í djúp fortíðarinnar og fer þar vítt um veröld. Umdeildar eru þó kenningar hans um að helstu landnámsmenn hafi mælt út bústæði sín út frá ákveðnum formúlum, fremur en að líta til landkosta.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Ég varð snemma læs og ég held að ég hafi verið bókaormur sem krakki og las allar þessar helstu barnabækur sem þá voru vinsælastar. Bækurnar um Hjalta litla, Nonnabækurnar, bækurnar eftir Ármann Kr. Einarsson og ævintýri H.C. Andersen, svo dæmi sé tekið. Snemma las ég allar helstu Íslendingasögurnar og þjóðsögur. Teiknimyndasögur fengu líka að fljóta með eins og Prins Valiant.

En hvenig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Eftir að ég komst á fullorðinsaldur les ég samfelldan texta nær eingöngu á kvöldin. Ef ég er eitthvað að höndla með bækur á daginn, þá er það meira til uppsláttar í leit að upplýsingum eða að ég glugga í áðurlesna texta.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Fáir eru í svo miklu uppáhaldi að ég hafi lesið öll þeirra verk upp til agna. Það væri þó helst að nefna áðurnefnda höfunda eins og Tómas Guðmundsson, Sverri Kristjánsson og Jón Tímaritstjóra.

En að lokum frændi, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég skrifaði 100 ára afmælisrit Nautgriparæktarfélags Hraungerðishrepps 1911 – 2011 sem er tuttugu síðna gormahefti og svo á ég í handriti Síðari tíma sögu Flóaáveitunnar sem eru fjórtán vélritaðar síður sem gæti auðveldlega orðið annað gormahefti. Þorrablótsskemmtiefni hef ég skrifað, bæði í bundnu og óbundnu máli. Ætli það yrði ekki eitthvað í svipuðum dúr sem ég myndi skrifa ef ég færi út á þá braut. Hreina skáldsögu myndi ég varla reyna að skrifa.

______________________________________

LESTRARHESTURINN er samstarfsverkefni Bókabæjanna austanfjalls og Dagskrárinnar. Ritstjórn í höndum Jóns Özurar Snorrasonar og mega áhugasamir senda honum línu á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir