7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Báturinn reyndist uppblásin sundlaug

Báturinn reyndist uppblásin sundlaug

0
Báturinn reyndist uppblásin sundlaug
Arnarfell við Þingvallavatn

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi kemur fram að ungmennin sem fóru sér að voða við Þingvallavatn í síðustu viku hafi róið út á vatnið á uppblásinni sundlaug. Í tlikynningunni kemur jafnframt fram að þau hafi verið með væga ofkælingu, þegar þau komust að landi að nýju og björgunarfólk hlúði að þeim.

Dagskráin tók viðtal sem birtist í nýjasta tölublaðinu við Jón Ingvar Arnarsson, sem gjör þekkir vatnið enda alinn upp í kringum það. Jón segir hættuna við vatnið vera þá að það leyni á sér þrátt fyrir sakleysislegt yfirbragð.

Þingvallavatnið varhugarvert

Ungmenni komust í hann krappann á uppblásnum báti á Þingvallavatni þann 18. júní sl. Mikill viðbúnaður varð vegna málsins og allt tiltækt björgunarlið ræst út. Stúlkurnar náðu að komast að landi þrátt fyrir að báturinn hafi verið farinn að fyllast af vatni. Þjóðgarðsvörður lét hafa eftir sér að það hafi verið heppni að ekki hafi verið meiri vindur á vatninu, t.d. stíf norðanátt, því þá hefði mögulega getað farið enn verr.

Hættan við vatnið sú að það leynir á sér

Bændur við Þingvallavatn, sem aldir hafa verið upp í kringum og við vatnið, þekkja vel þær hættur sem geta myndast á vatninu. Helst sé það saklaust yfirbragð þess sem blekki. Blási af landi í norðanátt og þú norðanmegin við vatnið eru engar öldur sem heitið getur uppi við landið. Þegar út á vatnið sé komið gæti öldugangurinn verið orðinn margfaldur. Það sama eigi við hinu megin við vatnið. Þá geti öldur á vatninu bæði orðið stórar og krappar og minni bátar eigi í vök að verjast í svoleiðis ágangi. „Maður hefur kannski verið rétt kominn af stað og ætlað að vitja netja en snýr við fljótlega því það er haugabrim og gefur yfir. Það er ekkert endilega á vísan að róa með góð skilyrði og sérstaklega ef maður þekkir ekki hvernig vatnið hagar sér, segir Jón Ingvar Arnarsson, sem þekkir vatnið vel, enda alinn upp við það.

Þeir sem fari í vatnið kólna fljótt

Við spyrjum Jón um slys á vatninu og hvort hann muni eitthvað eftir slíku. Jú, þetta hefur verið brýnt fyrir manni í gegn um tíðina og maður man eftir nokkrum. Fyrir um tveimur árum fórst maður á kajak sem ekki hefur fundist. Þá hefur mér fundist að í þessum slysum sé það kuldinn sem sé aðal vandinn. Vatnið er alltaf kalt, líka á sumrin. Vatnið er vissulega djúpt en það er kannski ekkert endilega aðal hættan. Ef maður fer, án flotgalla í vatnið, þá gefst maður fljótlega upp og króknar bara einfaldlega. Vestin geta þá í mesta lagi haldið manni á floti og maður finnst,“ segir Jón.

Siglingar bannaðar á vatninu nema með leyfi

Við spyrjum um siglingar við vatnið og það kemur fram í veiðireglum vatnsins að það megi ekki setja báta á flot á vatninu nema með leyfi hvers landeiganda. Þá sé eftirlit með þessu innan Þjóðgarðsins að auki. „Það ætti ekkert hver sem er að setja bát á flot þarna. Það er að minnsta kosti skynsamlegra að fá til þess leyfi og fólk viti af því að þú sért að fara út. Það er langt í hjálp,“ segir Jón að lokum.