0.6 C
Selfoss

Páll Halldórsson flugstjóri sæmdur fálkaorðunni

Vinsælast

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson sæmdi 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn 17. júní sl. Meðal þeirra var Páll Halldórsson, flugstjóri frá Selfossi. Páll var sæmdur riddarakrossi fyrir framlag sitt til björgunar mannslífa og brautryðjendastörf á vegum landgræðslu. Páll vann sem flugstjóri á þyrlum Landhelgisgæslunnar í rúm 30 ár en einnig flaug Páll í mörg ár fyrir Landgræðsluna og á sinn þátt í uppgræðslu á örfoka landi.

Tækniframfarirnar það sem stendur upp úr

Páll Halldórsson býður mér til stofu á heimili sínu og við fáum okkur kaffisopa. Það liggur beinast við að spyrja hvort honum hefði grunað það að fá riddarakrossinn. „Nei, ég get nú ekki sagt að mig hafi grunað það,“ segir Páll hæglega. Við vindum okkur í að spyrja betur út í tíma hans hjá Gæslunni, en hann hóf störf þar 1968 eftir þyrlunám í Noregi. „Fyrsta þyrlan kom til gæslunnar 1965, TF-EIR sem var af gerðinni Bell 47j. Þetta var nú kallað björgunarþyrla, en það var nú kannski dálítið ýkt, þó það væri vissulega hægt að gera ýmislegt á henni,“ segir Páll og hlær.

Þegar ég spyr Pál um hvað standi upp úr á löngum ferli dæsir hann og blaðamanni ljóst að það sé æði margt. „Það má segja að tækniframfarirnar séu það sem stendur upp úr. Í gamla daga var það búnaðurinn sem klikkaði. Í dag er það ekki svo. Öryggiskröfurnar eru orðnar allt aðrar. Við flugum kannski út á rúmsjó í gæsluflugi í skyrtu og með bindi. Í dag eru menn gallaðir upp samkvæmt því sem gerist best. Nætursjónaukar, tæknibúnaður um borð og fleira.“ Ég spyr hver sé munurinn á fyrri tíma vélum og þeim nýrri. „Hann er svo mikill að það er ógjörningur að bera þetta tvennt saman,“ segir Páll og skýrir fyrir mér að nútíma þyrlum fylgi aukin sjálfvirkni sem færi getu þyrlnanna á allt annan stað. „Bara sem dæmi er hægt að stilla inn aðflug að björgunarbáti á hafi úti og svo sér þyrlan sjálf um að fara í rétta hæð og á réttan stað og halda sér þar. Svo getur spilmaðurinn jafnvel stillt þyrluna betur af með litlum hnapp aftur í þannig að sá sem verið er að hífa komi beint upp.“

Sjómenn treysta á þyrluna sem líflínu

Við ræðum um stund um þyrlurnar og brösuglega sögu þeirra í upphafi. Páll segir að það hafi næstum farið svo að menn hafi misst trúna á þyrlurnar vegna ýmissa óhappa. Það hafi þó breyst eftir því sem búnaðurinn varð betri. „Ég man þegar Barðinn strandaði á sínum tíma á Snæfellsnesi. Eftir það var eins og farið væri að taka mun meira mark á getu þyrlusveitarinnar. Eftir að áhöfnin var komin í land og það var tekið viðtal við þá, þá var einn stýrimaðurinn spurður að því hvort þeir hefðu verið hræddir á meðan á þessu stóð. Stýrimaðurinn svaraði því neitandi og sagði; „Við vissum að þyrlan myndi koma.“ „Það var þarna sem ég sá og fann hvað menn voru farnir að trúa á og treysta á þessa starfsemi,“ segir Páll. Blaðamaður tekur undir þessi orð um að sjómenn og landsmenn allir beri mikið traust til starfseminnar og þeirrar björgunargetu sem þyrlusveitin hefur. Páll heldur áfram og segir þátt Slysavarnaskóla sjómanna seint vanmetinn í þessu samhengi því slysum og alvarlegum atvikum á sjó hafi fækkað gríðarlega á liðnum árum með tilkomu skólans.

Stekkur enn út þegar hann heyrir í þyrlunni

Ég spyr Pál hvort hann kippist ekki við þegar hann heyrir í þyrlu gæslunnar á flugi. „Jú, það er ekki laust við að maður fari stundum hér út til að kanna hvert sé verið að fara og þessháttar. Þetta togar alltaf í mann og maður losnar seint við þetta. Þetta kitlar alltaf,“ segir Páll að lokum.

 

Nýjar fréttir