-0.6 C
Selfoss

Arctic Rafting snýr aftur

Vinsælast

Leiðsögukonan og fjárfestirinn Tinna Sigurðardóttir hefur keypt flúðasiglingafélagið Arctic Rafting af Arctic Adventures. Tinna hefur tekið við rekstrinum og fór með sinn fyrsta hóp í flúðasiglingu 1. maí síðastliðinn. Arctic Rafting mun bjóða innlendum og erlendum ferðamönnum upp á kanó- og flúðasiglingar í Hvítá í allt sumar.

Arctic Rafting á sér langa sögu en félagið hóf flúðasiglingar árið 1983 undir vörumerkinu „Bátafólkið“. Fyrirtækin Bátafólkið (Hvítá) og Arctic Rafting (Þjórsá, Markarfljót og Hólmsá) runnu síðan saman árið 2005 þegar Arctic Rafting er keypt af Torfa G Yngvasyni og Jóni Heiðari Andréssyni (af Dadda sem stofnaði Arctic Rafting 1997 fyrir austan í Eyvindará og Grímsá), en þeir færðu það síðar undir vörumerkið Arctic Adventures þegar þjónustuframboð þeirra stækkaði. Tinna Sigurðardóttir var þriðji starfsmaður þess félags árið 2006 og starfaði lengi sem sölustjóri og ævintýraleiðsögukona.

Spennt fyrir verkefninu og ætlar í uppbyggingu

Tinna Sigurðardóttir, leiðsögukona og fjárfestir.

Tinna elskar ævintýri og nýja heima en hún fór alla leið til Ástralíu til að sækja sér viðskiptafræðigráðu í Griffith university á Gold Coast. Indland og Nepal eiga sérstakan stað í hjarta hennar og þangað hefur hún árlega lagt leið sína í kajak- og flúðasiglingaferðir. Síðastliðin sumur hefur Tinna starfað við leiðsögn í flúðasiglingum í Noregi og á veturnar í göngum á Vatnajökli. Tinna er spennt að taka við Arctic Rafting og ætlar í mikla uppbyggingu þrátt fyrir að reikna ekki með stríðum straum erlendra ferðamanna þetta sumarið. Kajak- og flúðasiglingar eiga hug hennar allan og Tinna er alveg viss um að það sé áhugi fyrir kajak-skóla á Drumbó. “Það er mikilvægt að það sé til góð aðstaða fyrir þann samheldna hóp sem myndar grasrótina í vatnssportinu. Ég vonast til að geta dreift þekkingu og jafnvel haldið straumvatnsmót í framtíðinni.” segir Tinna.  Tinna er bjartsýn á gott sumar, þrátt fyrir mikla óvissutíma og tekur á móti fólki upp á Drumbó með bros á vör og hlýðir þríeykinu í einu og öllu.

Drumboddsstaðir í Bláskógabyggð eru bækistöðvar Arctic Rafting

Bækistöðvar Arctic Rafting eru að Drumboddsstöðum í Bláskógabyggð og eru oftast kallaðar Drumbó. Gerðar voru flottar endurbætur á Drumbó í apríl og er búið að taka veitingastaðinn og barinn alveg í gegn. Í haust stefnir Tinna stórhuga á frekari uppfærslu á Drumbó og þá verða heitir pottar og gufan tekin upp á næsta stig.

Random Image

Nýjar fréttir