8.9 C
Selfoss

Frændsystkinin taka höndum saman í nýrri bók

Vinsælast

Hvernig er sumarið í sveit­inni? Við því eru svör sem finna má í samnefndri bók um daglegt líf í sveitum landsins. Bókin er eftir frændsystkinin Hörpu Rún Kristjánsdóttur, búanda­kerlingu og skáld og Guðjón Ragnar Jónasson, bú­fræðing og kennara. Við heyrð­um í þeim upp undir Heklu­rótum, þaðan sem bæði eru runnin, og feng­um fregn­ir af bók­inni sem, eins og lömb­in, er að kom­ast á legg.

Ég veit ekki nærri nóg um svín

Hver er inn­blástur að bók­inni? „Þetta er nú eins og með margar hugmyndir sem Gaui fær, þær vinda upp á sig með ógnarhraða, segir Harpa Rún og brosir. Guðjón tekur skensinu með ró og bætir við, „okkur langaði til að færa sveitina nær fólki er henni kannski fjær. Í fyrra var mikið ferðasumar og margt fólk að kynnast landinu sínu svolítið uppá nýtt. Úr þeim farvegi sprettur löngunin til þess að þekkja betur landsbyggðina og lífið sem þar fer fram.“
Fyrir hverja er bókin? „Vonandi sem flesta. Við reyndum að hafa spurningarnar á mismunandi erfiðleikastigum, við höfum prófað þær á jafnt rótgrónum bændum og borgar­börnum, sem öll hafa tekið þeim vel. „Ég veit ekki einu sinni allt í þessari bók,“ segir Harpa Rún, sem segir að spurningar um landafræði og svín vefjist fyrir henni. „Ég veit ekki nærri nóg um svín.“
Er bókin gluggi inn í líf bóndans eða almennur fróðleikur? Við völdum að hafa fróðleikinn eins almennan og við gátum. Í bland við spurningar og svör eru fróðleiksmolar, t.d. um lífið í sveitinni, dýr sem hafa unnið ýmis afrek og svo þjóð­sagna­persónurnar. Eins langaði okkur að vekja athygli á dýr­unum í kringum okkur sem við tökum ekki endilega eftir. Guðjón leit­aði til dæmis til sér­fræðinga um dýr í barna­efni og úr urðu spurn­ingar bæði um póst­inn Pál og Hvolpa­sveit.
Í rauninni er þetta fyrst og fremst gluggi inn í líf dýranna, þar sem þau og þeirra umhverfi er skoðað. Er lífið í sveitinni framandi í dag? Já, það kemur í raun á óvart. Ein af þeim sem við ræddum við í ferlinu var Pálína Axels­dóttir Njarðvík, sem heldur úti instagramreikningnum @farm­lifeiceland og sýnir þar frá hefð­bundnu sauðfjárbúi. Hún benti okkur á hvað margt í sveit­inni virkar oft framandi fyrir fólk sem ekki lifir og hrærist í þessu umhverfi. Spurningar eins og á hvaða árstíma eru réttir geta alveg átt rétt á sér. Þess vegna er þetta bók fyrir alla fjölskylduna, það er spennandi fyrir bæði börn og fullorðna að spreyta sig og sjá hvað þau vita.

Þræðir bókarinnar liggja í allar áttir

Nú tengið þið ýmsa þræði í bókinni. Hér er fróðleikur um dýr, fróðleikur úr daglegu lífi, málnotkun og svo jafnvel fornar og nýjar þjóðsagnapersónur í formi dýra og manna. Hvers vegna völduð þið að fara svo breitt í efnisvalið? Það kom í raun af sjálfu sér. Sveitin og bændamenningin er mjög samofin okkar þjóðlega fróðleik og þegar við fórum af stað í skrifin bættist fljótt utaná snjóboltann. Þræðirnir liggja í allar áttir og það er svo margt sem okkur langaði að gera skil.
Þetta er myndskreytt bók. Hvernig er að gera þannig bók og sjá hana gædda lífi með hönd teiknarans? Það er afskaplega gefandi og skemmtilegt. Jón Ágúst Pálmason teiknari hefur svo frjálslegan og skemmtilegan stíl sem við heilluðumst strax af. Sumar myndirnar í bókinni myndu sóma sér vel uppá vegg – t.d. Þorgeirsboli, sem birtist þarna eins ljóslifandi og draugur getur gert og er afar ógnvænlegur. Eins eru í bókinni einfaldari myndir sem lesendur geta litað sjálfir og eru þá hvattir til að kynna sér búfjárlitina, t.d. goslóttar kindur og jarpa hesta.
Bókin er unnin af þremur Íslendingum. Það hlýtur að vera athyglinnar vert? Já það þýðir eiginlega ekkert að biðja um myndir af leggjum og skelj­um, nú eða nykrum og draug­um, ef teiknarinn er ekki dálítið kunnugur stað­háttum ef svo má segja. Svo var þetta bara afskap­lega farsælt og skemmtilegt samstarf. Hvernig nýtist bókin í ferðalag fjölskyldunnar? Ýmsar spurningarnar tengjast ferðalögum um landið, t.d. bæjarfélögum og áningar­stöð­um. Svo er tilvalið að virða fyrir sér dýrin meðfram veginum og læra meira um þau í leiðinni. Við þökkum Hörpu og Guðjóni fyrir spjallið og hlökkum til að ferðast um sveitina í sumar.

Nýjar fréttir