4.5 C
Selfoss

Tölum um staðreyndir og förum rétt með

Vinsælast

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa farið mikinn í fjölmiðlum að undanförnu í tilraun til að sýna fram á aðhaldsleysi í rekstri Svf. Árborgar. Í liðinni viku birtust slíkar greinar þeirra í Morgunblaðinu og í Dagskránni. Einnig birtist í Fréttablaðinu frétt á sama veg, þar sem fréttamaður hafði verið mataður á röngum upplýsingum. Blaðamaðurinn birti afsökunarbeiðni í Fréttablaðinu daginn eftir og baðst velvirðingar á því sem hann hafði eftir D-listamönnum í Árborg.

Það er eitt að rita grein með röngum upplýsingum og setja nafn sitt undir en allt annað að mata fréttamenn með ósannindum. Fréttamenn verða að fara með réttar upplýsingar en í greinum sínum geta greinarhöfundar farið rangt með á eigin ábyrgð. Hér verður reynt að rétta af staðreyndahalla D-listans og greiða úr óreiðu í málflutningi þeirra.

Listin að gjaldfella sinn eigin málflutning

Meðvitað eða ómeðvitað hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beitt þeirri list ítrekað á þessu kjörtímabili að gjaldfella sinn eigin málflutning. D-listafólk fer hamförum í fjölmiðlum og segir óásættanlegt að auka skuldirnar, vegna fjárfestinga sem eru tilkomnar vegna aukinnar þjónustu við þann fjölda fólks sem flutt hefur í sveitarfélagið undanfarin ár, fjárfestingar í íþróttahúsi, leikskóla og veitukerfum. Á sama tíma eru þau tilbúin til að skuldsetja sveitarfélagið upp á nærri hálfan milljarð, fyrir bílastæðahús í einkaframkvæmd.

Höldum okkur við staðreyndir

Hag- og upplýsingasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur ár hvert saman helstu þætti ársreikninga sveitarfélaga landsins. Þar kemur fram að 21 sveitarfélag er skuldsettara en Svf. Árborg ef litið er til skulda á hvern íbúa. Dæmi um sveitarfélög sem eru ofar á listanum eru Reykjavíkurborg, Hafnarfjörður, Akureyri, Fjarðabyggð og Hveragerðisbær. Þrátt fyrir fordæmalausar fjárfestingar í innviðum eru skuldir Árborgar í dag svipaðar og árið 2015.

Skuldir sveitarfélaga landsins hafa almennt hækkað töluvert á milli áranna 2019 og 2020 vegna áhrifa kórónuveirunnar. Hjá Svf. Árborg er skuldaaukningin hinsvegar að mestu tilkomin vegna nauðsynlegra fjárfestinga og er aukning skuldanna nánast á pari við aukningu eigna í íþróttahúsi, leikskóla og veitukerfum.

Það er beinlínis villandi framsetning hjá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að setja fram tölur og halaklippt súlurit sem sýna aukningu í tekjum, skuldum og stöðugildum án þess að taka tillit til íbúafjölda. Fæstum dettur í huga að bera 8.000 manna sveitarfélag saman við 10.000 manna sveitarfélag án tillits til íbúafjölda.

Hag- og upplýsingadeild Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nýverið lýst miklum áhyggjum af því hve mikið fjárfestingar sveitarfélaga drógust saman á síðasta ári. Það er þeirra mat að miðað við stöðuna í þjóðarbúskapnum hefði verið nauðsynlegt að bæta verulega í fjárfestingar. Ef öll sveitarfélög hefðu árið 2020 verið rekin á þann hátt sem minnihlutinn í Árborg hefur viljað gera þá væri enn þyngra hljóðið í Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðherra landsins sem talaði fyrir hinu gagnstæða allt síðastliðið ár.

Með virðingu og vinsemd

Það væri óskandi að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hættu að þyrla upp svo miklu ryki að byrgir þeim sjálfum sýn. Við, bæjarfulltrúar meirihlutans í Svf. Árborg, setjum hér fram þá ósk að þeir hætti að bera fram rangar og villandi upplýsingar um málefni sveitarfélagsins, á landsvísu og innan sveitarfélags. Slíkt er ekki sveitarfélaginu eða íbúum þess til gagns og tæplega D-listanum heldur, þegar upp er staðið.

 

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista

Helgi S. Haraldsson, B-lista

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista

Tómas Ellert Tómasson, M-lista

Nýjar fréttir