0.4 C
Selfoss

Samofin saga landgræðslunnar og flugsins

Vinsælast

Út er komin bókin Landgræðsluflugið frá Sæmundi Bókaútgáfu. Bókin fjallar um hið merka starf Landgræðslunnar og flugmanna hennar við endurheimt landgæða með eins hreyfils flugvélum á árunum 1958 – 1992. Bókina rita þeir Sveinn Runólfsson, þáverandi starfsmaður Landgræðslunnar og síðar Landgræðslustjóri og Páll Halldórsson flugmaður í landgræðslufluginu. Höfundarnir voru sjálfir þátttakendur í landgræðslufluginu, nær alveg frá upphafi. Því skal þó haldið til haga að í bókinni er ekki farið inn á sögu landgræðsluflugs með „þristinum“ DC-3 Páli Sveinssyni. Sú saga hefur að nokkru verið rakin í ritinu Á grænum vængjum.

Sagan týnst ef við hefðum ekki komið henni frá okkur

Ég tók á móti þeim Sveini og Páli til þess að ræða nýútkomna bók þeirra Landgræðsluflugið. Ég sá strax að við færum ekki langt án þess að fá okkur kaffisopa. Meðan ég lét renna í bollana segja þeir félagar mér frá því að öll spjót hafi staðið að þeim að halda sögunni til haga. „Við vorum ekki vissir með það í upphafi að þetta yrði að bók endilega. Við bara byrjuðum,“ sagði Páll. Sveinn tekur undir það og sagði að þeir hefðu verið í mörg ár að viða að sér myndum og gögnum og hægt og bítandi hafi verkið farið að taka á sig mynd. Það hafi svo verið ánægjulegt þegar Bjarni Harðarson hjá Sæmundi vildi gefa út. „Við erum handvissir um það að sagan hefði gloprast niður ef við hefðum ekki sagt hana og haldið þessu til haga. Þetta er saga sem spannar 35 ár og er mjög mikilvægur hluti landgræðslunnar í landinu segir,“ Sveinn.

Yfir 300 myndir prýða bókina frá ýmsum tímabilum

Bókin er afar vönduð og uppfull af ljósmyndum frá ýmsum tímabilum landgræðsluflugsins. Þá eru stuttir textar í bland við lengri. Um miðbik bókarinnar er að finna skemmtilegar sögur af fluginu, fólkinu og ýmsu skemmtilegu sem henti í landgræðslufluginu. Það er því eftir miklu að slægjast, bæði fyrir þá sem hafa áhuga á flugsögunni og auðvitað landgræðslunni. En í bókinni má einnig finna frásagnir af skemmtilegu fólki og viðskiptum þeirra félaga við það. Það er augljóst af lestri bókarinnar að þeir félagar hafa lagt sig fram um að tína til allt það sem fyrir fannst um efnið. Meðal annars má sjá afrit úr flugbók Karls Eiríkssonar, en hann flaug fyrsta áburðarflugið í Gunnarsholti 14. júní 1958. Bókin er jafnframt vel upp sett og aðgengileg.

Sagan spannar erfiðleikana í upphafi og árangurinn í dag

Aðspurðir að því hvernig var að koma svona verkefni, landgræðslufluginu, af stað segja þeir að það megi segja að Agnar Kofoed-Hansen hafi verið sá sem fyrst fór að hafa orð á þessu með grein í Morgunblaðið. Svo var vandamál að kaupa vélar, til þess þurfti fjármagn og innflutningsleyfi. Þetta var örðugt í byrjun. Þetta rekjum við í bókinni vel og vandlega, segja Sveinn og Páll. Við ræðum um það hvers vegna þetta þótti svona mikilvægt, að fá flugvélar í verkefnið. „Unga kynslóðin í dag gerir sér illa grein fyrir því hvernig ástandið var á þessum tíma. Hún trúir því ekki þegar sáðmenn sandanna gengu um myrkranna á milli, bryðjandi sand alla daga og rötuðum ekki á milli bæja fyrir moldrokinu. Flugvélarnar gáfu þau afköst sem þurfti til að ráða við ástandið, sem var vægast sagt svakalegt.“ segja Sveinn og Páll.

Ekki bara fermetrarnir sem græddir voru upp sem skiptu máli

„Með fluginu tókst okkur að græða upp mikið meira land í einu, torfær svæði og annað. Vélbúnaður eins og traktorar og áburðardreifarar voru ekki jafn öflug þá og nú. Það gerði erfitt fyrir að koma áburði og fræjum þangað sem þeirra var þörf. Það er svona einn hlutinn. Landgræðsluflugvélarnar dreifðu áburði á heimalönd bænda þar sem þau voru illa farin, þeir greiddu áburðinn og Landgræðslan dreifinguna. Bændur sáu árangurinn og með þessu fór af stað umræða um landgræðslu meðal þeirra og landsmanna og ég segi það fullum fetum að þetta var upphafið af verkefninu Bændur græða landið. Við byrjuðum þarna í fluginu og fljótlega tóku bændur við sér og sáu hag sinn í því að græða upp í kringum sig. Það varð ákveðin vitundarvakning þó að einhverjir hafi hreyft við mótmælum og talið þetta mestu vitleysu.“ Við ræðum drykklanga stund um flugið og ég spyr Pál, þó svarið sé augljóst, um árangurinn. „Það er alveg nóg að keyra upp að Gunnarsholti til þess að sjá hver áhrifin hafa verið. Það er hreint lygilegt. Haukadalsheiðin og raunar fjöldi staða um allt land, eins og sjá má í bókinni.

Það er gaman að spjalla við þá félaga um sögu landgræðsluflugs á Íslandi og við gætum haldið lengi áfram. Í bókinni tvinnast saman saga landgræðslu, flugsins og fólksins. Hverfist um baráttuna gegn örfoka landi og einmitt það að skila því í betra ástandi en við tókum við því. Sjálfbær þróun er ekki ný af nálinni. Þeir félagar hafa sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar í þeim efnum. Við óskum þeim til hamingju með bókina.

 

Nýjar fréttir