0 C
Selfoss

Samkaup kaupa verslun Kjarval á Hellu

Vinsælast

Samkaup hafa keypt verslun Kjarval á Hellu og áforma að opna þar verslun undir merkjum Kjörbúðarinnar.

„Það eru spennandi tímar framundan og það leggst vel í okkur að opna nýja Kjörbúð á Hellu. Við munum kappkosta við að bjóða íbúum á svæðinu upp á gott úrval, lágt verð og ferskar vörur. Kjörbúðin gerir viðskiptavinum kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði og öflug vikuleg tilboð.“ segir Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þau eru liður í að uppfylla sátt sem Samkeppniseftirlitið gerði við Festi vegna kaupa á Krónunni og fleiri félögum.

„Við erum afskaplega ánægð með að niðurstaða sé loks að fást í þetta mál. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir íbúa og ferðamenn að á Hellu sé starfrækt góð matvöruverslun sem býður upp á samkeppnishæf verð. Það er auk þess fagnaðarefni að hér eru að koma inn öflugir aðilar með skýr áform um að sækja fram hér í okkar vaxandi samfélagi,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitastjóri Rangársþings ytra.

Kjörbúðin á Hellu bætist þar með í hóp fimmtán annarra Kjörbúða sem reknar eru um allt land. „Rangárþing ytra og svæðið í kring er vaxandi markaður sem gefur okkur vonandi tækifæri til að auka enn frekar við þjónustuna eftir því sem líður á,“ segir Ómar.

Samkaup reka um 60 verslanir víðsvegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.

Nýjar fréttir