11.1 C
Selfoss

Í alvöru, hvað eigum við að gera við börnin?

Vinsælast

Opið bréf til bæjaryfirvalda í Árborg

Á dögunum var leikskólaplássum fyrir haustið 2021 úthlutað í Sveitarfélaginu Árborg. Það olli okkur gríðarlegum vonbrigðum að frétta af þeirri ákvörðun að engum börnum yngri en 18 mánaða yrði úthlutað plássi, jafnvel þó að það væru laus pláss á einhverjum leikskólum sveitarfélagsins og þrjár deildir á nýja leikskólanum hafi enn ekki verið opnaðar.

Þau okkar sem ekki voru nægilega skipulögð með tímasetningu á barneignum sitja því uppi með þá súru staðreynd að okkar börn komast sennilega ekki inn á leikskóla fyrr en haustið 2022, þá mörg hver orðin rúmlega tveggja ára.

Okkur þykir það skjóta skökku við að sveitarfélag sem réðst í heljarinnar kynningarátak á hversu frábært það væri fyrir barnafjölskyldur að búa á Selfossi, sjái sér ekki fært að veita börnum okkar skólavist fyrr en eftir tveggja ára aldur. Það er staðreynd að margar barnafjölskyldur íhuga nú alvarlega brottflutning úr sveitarfélaginu vegna daggæslumála.

Vegna þessa ástands er þétt setið um öll laus pláss hjá dagforeldrum sem starfa í sveitarfélaginu og biðlistarnir lengjast og lengjast. Dagvistun hjá dagforeldrum er einnig mun stærri fjárhagslegur biti fyrir foreldra heldur en leikskólavist og því ekki ákjósanlegur kostur til lengri tíma.

Fyrir mörg okkar er ljóst að við þurfum að hverfa af vinnumarkaði til þess að sinna börnum okkar í haust með tilheyrandi kostnaði eða tekjutapi fyrir sveitarfélagið, eftir því hvernig á málið er litið.

Það er nokkuð augljóst að málið snýst um forgangsröðun fjárveitinga. Það ætti að vera frekar einfalt reikningsdæmi að fá það út að arðbærara er fyrir sveitarfélagið að gera foreldrum kleift að snúa aftur til vinnu eftir fæðingarorlof heldur en að skilja okkur eftir tekjulaus í fleiri mánuði.

Sorglegast í þessu öllu saman er þó að börnin okkar fá ekki að njóta þess góða starfs sem unnið er á leikskólum Árborgar undir öruggri leiðsögn fagfólks. Þau fara þar af leiðandi á mis við tækifæri til að efla þroska og vera í félagslegum samskiptum við önnur börn á mikilvægum tíma á þeirra þroskaskeiði.

Fæðingarorlofinu er að ljúka og við ættum að vera að snúa aftur út á vinnumarkaðinn, þjóna samfélaginu sem við búum í og skapa sveitarfélaginu okkar skatttekjur en hvað eigum við að gera við börnin? Í alvöru!

Við skorum á fræðslunefnd og bæjaryfirvöld að endurskoða þessa ákvörðun, veita frekara fjármagni í leikskólamálin og fjölga leikskólaplássum hið snarasta.

Fyrir hönd hóps foreldra í Árborg,
Kristín Gestsdóttir

Nýjar fréttir