7.8 C
Selfoss

74 verkefni hlutu brautargengi hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands

Vinsælast

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitar­félaga samþykkti á fundi sínum 24. mars úthlutun styrk­veitinga úr Upp­byggingar­sjóði Suður­lands, að undan­gengnu mati fagráða atvinnu og nýsköpunar og fagráðs menn­ingar. Um var að ræða fyrri úthlutun Uppbygg­ingar­sjóðs á árinu 2021. Umsóknir voru sam­tals 166. Í flokki atvinnu­þróunar- og nýsköpunar­verk­efna bárust 67 umsóknir og 99 umsóknir í flokki menningar­verk­efna.
Að þessu sinni voru tæpum 37 m.kr. úthlutað til 74 verkefna. Úthlutað var 16 m.kr. til 21 verk­efnis í flokki atvinnu­þróunar- og nýsköpunar­verk­efna og tæpri 21 m.kr. til 53 menn­ingar­verkefna.
Raföld hlaut að þessu sinni hæsta styrkinn 1,5 m.kr. í flokki atvinnu og nýsköpunar fyrir verkefnið ,,Fjölnýting jarð­varma til orkuvinnslu í dreif­býli“. Markmið verkefnisins er að fjölnýta jarðhitavatn frá bor­holunni að Grásteini í Ölfusi fyrir orkuvinnslu, upphitun og iðnað, auk þess sem affallsvatn frá hitaveitunni er nýtt fyrir útiböð og fiskeldi. Gert er ráð fyrir að reynsla af fjölnýtingu að Grá­steini verði nýtt fyrir önnur jarðhita­svæði á Suðurlandi.
Í flokki menningarverkefna hlutu tvö verkefni styrk að upp­hæð kr. 900 þúsund. Um er að ræða verkefnin ,,Sumartónleikar í Skál­holtskirkju“ og ,,Undir­liggjandi minni“.
Markmið Sumartónleika í Skál­holti er að stuðla að upp­bygg­ingu sígildrar tónlistar á Íslandi, með áherslu á nýsköpun, á flutning tónlistar fyrri alda og á sögulega upplýstan flutning.

Skál­holtskirkja er rómuð fyrir hljóm­burð sinn og myndlist

Í ár verður einnig lögð sérstök áhersla á að kynna börn og ung­menni fyrir nýrri tónlist og verða því sérstakir tónleikar og viðburðir sniðnir fyrir fjöl­skyldur.
Ólafur Sveinn Gíslason hlaut styrk fyrir verkið ,,Undirliggjandi minni“ en verkefnið fjallar um uppruna og hugarheim einstak­linga sem búsettir eru í Flóa­hreppi. Það eru staðbundnir og persónu­bundnir þræðir sem verður fylgt eftir í rannsóknum Ólafs og skoðað hvernig þeir endurspeglast í menningararfi svæðisins. Andrúmsloft og hugarfar staðarins mun birtast í samvinnu íbúa í Flóahreppi og atvinnuleikara sem verða virkjaðir í flutningi verksins. Um er að ræða þekkingarsköpun sem tekin verður til úrvinnslu í gegnum kvikmyndamiðilinn.

Nýjar fréttir