3 C
Selfoss
Home Fréttir Styrkjum framtíðarleikmenn okkar út í lífið.

Styrkjum framtíðarleikmenn okkar út í lífið.

0
Styrkjum framtíðarleikmenn okkar út í lífið.
Díana Gestsdóttir, lýðheilsufulltrúi í Sveitarfélaginu Árborg.

Líkt og flestir vita gera slys og veikindi ekki boð á undan sér og geta átt sér stað hvar og hvenær sem er, hvort sem um er að ræða hjá fullorðnum ein­staklingum eða börnum. Þegar upp koma skyndileg veik­indi eða slys getur það skipt sköp­um á vettvangi að geta veitt skyndihjálp. Skyndihjálp er skil­greind á eftirfarandi hátt:

,,Sú fyrsta hjálp sem veitt er einstaklingi sem hefur orðið fyrir slysi eða veikist skyndilega þangað til sjúkrabíll, læknir eða önnur hjálp berst kallast skyndihjálp.“ Með skyndihjálp viljum við varðveita líf, stuðla að bata og síðast en ekki síst láta ástand hins slasaða ekki versna. Æskilegt er að sem flestir læri skyndihjálp því oftast líða nokkrar dýrmætar mínútur þar til fagfólk heilbrigðisstéttarinnar kemur til hjálpar og því er mikilvægt að bregðast rétt við. Útbreiðsla á þekkingu í skyndi­hjálp stuðlar að betra og öruggara samfélagi.“
Líkt og fram kemur í skil­greiningunni er æskilegt að sem flestir læri skyndihjálp og á það ekki síst við börnin okkar. Með því að mennta börn í skyndihjálp strax í grunnskóla erum við að gefa þeim tækifæri til þess að hafa trú á eigin getu, hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs og að auki efla sjálfsmynd þeirra sem veganesti út í lífið. Þess má geta að barn hefur í fjögur skipti verið valið skyndihjálparmaður ársins. Sem sýnir okkur hvers megnug þau eru.
Í menntastefnu Árborgar er kveðið á um að lögð sé áhersla á fram­sæknar og fjölbreyttar kennslu­aðferðir og fellur skyndi­hjálp vel að þeim kennslu­aðferðum. Með því að hefja mark­visst kennslu í skyndi­hjálp í grunn­skólum Ár­borgar myndi sveitar­félagið ekki ein­ungis marka sér gæðastimpil í þess­um málaflokki heldur einnig sýna gott fordæmi fyrir önnur sveitarfélög og um leið vera brautryðjandi og leiðandi þegar kemur að því að innleiða skyndi­hjálp í grunnskóla landsins.
Að auki værum við að inn­leiða snemmtæka íhlutun þegar kemur að skyndihjálp. Rann­sóknir sýna að markvissar að­ferðir í skólastarfi sem byggja á aðferðum snemmtækrar íhlut­unar skili árangri.
Að fá skyndihjálp inn í skóla­kerfið og skilning fyrir því að allir geti veitt fyrstu hjálp þegar á reynir yrði dýrmæt framþróun. Fræðsla til almennings er ekki eins aðila verk eða stofnunar heldur samstarf fjölda aðila. Samstarf um eitthvað sem skiptir alla máli, samstarf um að kenna skyndihjálp.
Einhverjum gæti þótt hugmyndin um að kenna börnum skyndihjálp framúrstefnuleg, en slíkar hugmyndir gefa gjarnan besta árangurinn. Líkt og þegar öryggisbelti voru gerð að skyldu í bifreiðum eða þegar reykingar voru bannaðar í flugvélum. Sumum myndi þykja þetta forræðishyggja en við getum líka kallað þetta umhyggju eða nútímalega hugsun.
Það er margsannað að rétt viðbrögð á slysstað geta skipt sköpum í lífi þeirra sem slasast. Slys gera ekki boð á undan sér og því er nauðsynlegt að geta brugðist rétt við þegar skyndileg óhöpp eða slys bera að.
Góð samskipti og fræðsla er góð undirstaða út í lífið, það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofaní.

Díana Gestsdóttir,
íþrótta- og heilsufræðingur og foreldri.