4.3 C
Selfoss
Home Fréttir Gullkista Suðurlands

Gullkista Suðurlands

0
Gullkista Suðurlands

Auðlindir, náttúran, hrein og fersk matvæli, mannauður og áfram mætti telja, allt eru þetta helstu kostir Íslands. Við erum svo heppin að hafa þetta allt í okkar umhverfi hér á Suðurlandi og okkur hefur einnig lánast að nýta þessi gæði. Þessi sóknarfæri hafa skilað okkur öflugasta landbúnaðarhéraði landsins, mestu orkuöfluninni, vinsælustu ferðamannastöðunum og öflugum matvælafyrirtækjum, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Undanfarin ár hafa komið upp áskoranir og blikur verið á lofti. Ferðaþjónustan er í tímabundinni lægð, þrengt hefur að landbúnaðinum og regluverk þvælst fyrir orkuöflun, orku­dreifingu og orkuaðgengi. Full ástæða er samt til bjartsýni vegna þess árangurs sem við höfum náð. Við höfum ráðist í innviðauppbyggingu sem styður við nýtingu okkar gæða ásamt því að gera það fýsilegra fyrir fólk að flytja aftur heim í sveitina. Stærsta verkefnið núna er uppbygging hafnarinnar í Þorlákshöfn sem mun reynast lyftistöng um allt Suðurland og auka möguleika flestra þeirra atvinnutækifæra sem við höfum. Það hefur verið einstakt að fá að taka þátt í slíkum uppbyggingarverkefnum með ykkur, kæru Sunn­lendingar. Einnig má nefna ljós­leiðara­væðinguna, aukinn kraft í uppbyggingu vega, jöfnun dreifikostnaðar raforku ásamt auknum framlögum í niðurgreiðslu á flutnings­kostnaði rafmagns til garðyrkju­bænda.
Nýta verður gullið þar sem það gerir ekki mikið gagn í harðlæstri kistunni. Verkefnin framundan eru því að treysta á frelsi fólks til athafna, ryðja opinberum hindrunum úr vegi og gefa einkaframtakinu tækifæri til að vaxa og dafna. Virða eignaréttinn yfir hálendinu sem og annarsstaðar ásamt ferðafrelsi fólks. Mikilvægt er að innviðauppbyggingin haldi áfram samhliða grunnþjónustu innviðum eins og hjúkrunarheimilum, sjúkraþyrlu og öflugu öryggisviðbragði í öllum skilningi. Þannig leysum við kraft fólks úr læðingi sem skapar árangur fyrir alla.
Takist okkur að tryggja sjálf­stæði og frelsi Garð­yrkju­skólans í Ölfusi og fleiri slíkra nýsköpunarklasa, byggja upp okkar flottu ferða­manna­staði, nýta þekkingu okkar í matvæla­framleiðslu, finna orkunni okkar hlutverk og ryðja hindrunum úr vegi mun atvinnu­lífið á Suðurlandi eflast og byggjast hratt upp. Þannig verður til öflugt skapandi velferðarsamfélag sem við getum verið stolt af. Það er ekki eftir neinu að bíða með að opna kistuna og nýta gullið okkur öllum til gagns og gæfu.