0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Á hverju ætlum við að lifa?

Á hverju ætlum við að lifa?

0
Á hverju ætlum við að lifa?
Guðrún Hafsteinsdóttir í Kjörís.

Á næstu 30 árum þurfum við að skapa um 60.000 ný störf. Það jafngildir 2.000 störfum á ári eða um 40 nýjum störfum í hverri einustu viku næstu 30 árin! Því liggur beinast við að spyrja sig: Á hverju ætlum við að byggja verðmætasköpun í samfélaginu í framtíðinni?

Höfum samt hugfast að þrátt fyrir að verkefnið virðist risavaxið við fyrstu sýn, og nánast illmögulegt í framkvæmd, þá höfum við gert nákvæmlega þetta áður og það tókst! Störfin eru nefnilega nánast jafn mörg og urðu hér til á síðustu 30 árum í ýmsum greinum iðnaðar, ferðaþjónustu og víðar.

Við höfum alla tíð byggt verðmætasköpunina á gjöfulum auðlindum sem Íslendingar búa yfir en það er að mínu mati alger nauðsyn að byggja næstu stoð í atvinnulífi þjóðarinnar á þeirri auðlind sem aldrei þrýtur, hugvitinu.

Grunnurinn að lífsgæðum okkar er lagður í atvinnulífinu og við verðum að leita leiða til að auka útflutningstekjur þjóðarinnar. Við höfum alla burði til að geta tekið þátt í því að leysa mörg af þeim viðfangsefnum sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Við Íslendingar búum að reynslu af orkuskiptum er við beisluðum jarðhita til húshitunar fyrir um hundrað árum. Þá þekkingu höfum við flutt út til annarra landa með góðum árangri. Við búum yfir gríðarlegri þekkingu í sjávarútvegi sem hefur orðið til við nýsköpun og þróun þannig að nú eigum við tæknivæddan og skilvirkan sjávarútveg og mörg hátæknifyrirtæki í sjávarútvegi sem selja þekkingu sína til annarra landa.

Þá eigum við eigum gríðarlega spennandi fyrirtæki í líftækni sem munu án efa skila miklum útflutningstekjum. til dæmis Kerecis, Algalíf, GeoSilica, Genís og fleiri. Þetta eru dæmi um fyrirtæki sem munu taka þátt í skapa þessi 60.000 störf sem þörf krefur til framtíðar.

Við höfum alla burði hér í Suðurkjördæmi til að skapa þúsundir starfa á næstu árum og áratugum í ýmsum atvinnugreinum. Má í því sambandi nefna ýmis spennandi verkefni í matvælaframleiðslu eins og til dæmis landeldi í Ölfusi sem mun kalla á hundruð starfa í framtíðinni ef áætlanir ganga eftir.

Missum aldrei sjónar á því að framtíð okkar hér í Suðurkjördæmi er björt í öllu efnahagslegu tilliti. Það er okkar að grípa tækifærin og skapa okkar framtíð!