1.7 C
Selfoss

Konur með kennitölu

Vinsælast

Þegar ég var lítil þá voru það karlarnir í sveitinni sem fóru á afrétt á haustin, ásamt strákum yfir fermingu og stelpum frá fermingu og þangað til þær urðu „fullorðnar“ konur. Þegar þær voru orðnar fullorðnar konur þá voru þær heima, pössuðu börnin, mjólkuðu kýrnar og/eða tóku upp kartöflurnar á meðan fullorðnu karlarnir héldu á vit öræfanna í glöðum hópi. Á þessu var þó ein undantekning í næstu sveit, kona sem alltaf fór á afrétt ásamt manni sínum. Ég er alveg viss um að það voru þá bæði konur og menn sem dáðust að henni fyrir það að gera það sem hana langaði. Fara til fjalls á góðum hesti og smala kindum, eins og henni þótti skemmtilegt og leysti vel af hendi, en þær raddir heyrði ég aldrei þá, bara núna síðari ár. Ég man hins vegar vel eftir pabba mínum og fleiri körlum í Skaftártungu hneykslast á þessu framferði hennar ár eftir ár, að þvælast með karlinum í afréttinn í staðinn fyrir að vera heima og hugsa þar um sitt. Þess má geta að börn þessara hjóna komust afar vel til manns þrátt fyrir fjallferðir beggja bændanna á bænum, móður og föður. Þetta hefur sem betur fer breyst og ég og fleiri miðaldra búandi konur förum á afrétt á hverju hausti án þess að karlarnir í nærliggjandi sveitum hafi þar um sérstök orð eða áhyggjur, mér vitanlega að minnsta kosti. Eins er á fleiri sviðum orðið viðurkennt að hjón eða sambúðarfólk í búskap deili verkum og ábyrgð og yfir­ráðum. Konum hefur líka fjölgað í embættum og félögum tengdum landbúnaði. Samt er helmingaskiptingu enn ekki náð og konur í landbúnaði því oft „ósýnilegar“ út á við þrátt fyrir svipað vinnuframlag til bús og oftast meira til heimilis. Eftir nýafstaðna vinnutörn við að telja fóstur í sauðfé fyrir bændur sendi ég út stóran bunka af reikningum fyrir þessa þjónustu. Af þeim eru 10% stílaðir á einkahlutafélög, 17% af þeim eru stílaðir á konur og en langstærsti hlutinn 73% er stílaður á karla. Svipaður hluti karla og kvenna innan þessa hóps búa ein, af sambúðarfólki er allur gangur á því hvort annað eða bæði stunda vinnu utan bús. Upp úr stendur að stór meirihluti þessara búa eru, samkvæmt gamalli og ráðandi hefð, rekin á kennitölu karlmannsins, hann er sýnilegi aðilinn. Þegar konan á bænum fer að versla inn rekstrarvörur fyrir búið þeirra beggja gefur hún upp kennitölu mannsins síns, af hverju? Jú af því að á Íslandi, sem er hvað fremst í heimi þegar kemur að jafnrétti, eru þessar hefðir enn svona sterkar. Mér ógleymanlega fór ég fyrir nokkrum árum í landbúnaðarvöruverslun á Selfossi. Þar var nýr starfsmaður sem ekki þekkti mig og hann skráði inn í tölvuna það sem ég ætlaði að kaupa. Ég sagði eins og vaninn er „mig vantar“ og „ég ætla að fá“ en þegar hann hafði lokið við að skrá inn hinar ýmsu rekstrarvörur fyrir sauðfjárbú og ég hafði tjáð honum að þetta færi í reikning spurði hann: „Ertu þá með kennitöluna hjá þeim sem er með reikninginn?“ Ég sagði honum svona passlega ákveðið að já vissulega kynni ég kennitöluna mína alveg ágætlega. Miðað við fátið sem kom á hann þá hefur hann væntanlega ekki afskrifað næstu konu sem kom inn í búðina sem kennitölulausa konu í karlaheimi, nema allavega spyrja fyrst.
En þetta er svo sem ekki einstök staða. Ef við lítum til annarra fyrirtækja en sveitabæja þá er svipað ástand þar. Karlar og konur vinna hörðum hönd­um, en karlar stjórna í meiri­hluta tilvika. Samkvæmt tölum hagstofunnar frá 2020 eru konur um fjórðungur stjórnenda í fyrirtækjum með undir 50 starfs­menn, um fjórðungur fram­kvæmdastjóra í fyrirtækjum og um þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn. Vissulega hefur þetta þokast í rétta átt frá síðustu aldamótum, en jöfnuði er hvergi nærri náð. Það er meðal annars vegna þessa sem ég fylgi Vinstri grænum að málum. Innan Vg er það skýr regla að hvergi halli á konur, þess er gætt í forvalsreglum og uppstillingum, vali og kosningum í öll embætti. Það er nefnilega ekki tilviljun heldur bein þörf að ýmiskonar kynjakvótar og kynjareglur hafa verið settar á víða í samfélaginu. Jafnrétti fylgir full nýting á vinnuframlagi og hugviti beggja kynja. Einnig fást breiðari sjónarmið og víðari nálgun með þeirri aðkomu, en jafnrétti næst hins vegar seint nema því sé handstýrt að einhverju leyti, til þess er vaninn of sterkur og þægindin við að falla bara í gamla farið of mikil.

Höfundur er Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi, sveitarstjórnarkona og varaþingmaður Vg í Suðurkjördæmi og gefur kost á sér að leiða listann í kjördæminu í komandi alþingiskosningum.

Nýjar fréttir