8.9 C
Selfoss

Ég samdi ljóð á yngri árum sem voru órímuð og kölluðust atómljóð

Vinsælast

Gúndi Sig eða Guðmundur Sigurðsson er fæddur á Selfossi árið 1950. Foreldrar hans eru Sigurður Guðmundsson og Ágústa Sigurðardóttir. Gúndi var lengst af framkvædastjóri hjá SG – Húsum á Selfossi. Hann hefur brallað ýmislegt um ævina sem of langt mál yrði að telja upp.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er nánast alæta á bækur. Núna eru á náttborðinu mínu nokkrar bækur sem ég keypti í Nytjamarkaðnum hér á Selfossi. Ég kaupi sirka tíu stykki í einu. Svo skila ég þeim aftur eftir lestur og kaupi nýjar. Þetta er ég búin að gera í nokkur ár. Ég fékk of margar sektir hjá bókasafninu. Síðast keypti ég Símon og Eikurnar eftir Marianne Fredrikssen, Steinsmiðinn eftir Camillu Lagerbaak. Það sem ég sá og hvernig ég laug efir Judy Blundell. Dávaldinn eftir Kepler og Tvíburana eftir Tessu de Loo. Allt fínar bækur sem héldu mér við efnið. Fékk um daginn lánaða bók frá Grími Arnarsyni vini mínum sem heitir Dýrlegt sjálfsmorð eftir Arto Paasilinna. Hann er að sjálfsögðu finnskur og lesturinn var frábær skemmtun. Núna var ég að ljúka við bók eftir Selfosskonuna Helgu R. Einarsdóttir sem hún nefnir Með björtum augum. Hún fannst mér bara góð.

Höfða einhverjar bækur meira til þín en aðrar?

Ef bækur ná tökum á mér er ekkert sem stoppar lesturinn. Ég sofna ekki og þegar það loks gerist vakna ég fyrir allar aldir og byrja aftur. Síðast var ég til dæmis að lesa ævisögu Ellerts Schram sem ég fékk í jólagjöf. Honum kynntist ég lítilega en þá var hann ekki orðinn krati. Hann var formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna en ég formaður ungra Sjálfstæðismanna í Árnessýslu. Þá voru Bretar að djöflast í landhelginni og keyra á varðskipin. Ég lét stjórnina hjá Ungum hér heima samþykkja að ef Bretar hættu þessu ekki skyldum við ganga úr NATO. Þetta líkaði Ellerti ekki og hringdi í mig og fór fram á afturköllun samþykktarinnar sem ég neitaði. Ingólfur Jónsson ráðherra blandaðist í málið og kom í heimsókn í Gamla bankann þar sem við Þóra bjuggum og fór fram á það sama og Ellert. Ég hélt áfram að neita. Guðmundur Daníelsson sem þá var ritstjóri blaðsins Suðurlands var sama sinnis og við Ungir og skrifaði grein á sem birtist á forsíðu blaðsins með fyrirsögnina Guðinn NATO. Það blað gerði Ingólfur upptækt og lét brenna. Hebbi heitinn Granz átti eintak sem ég fékk að sjá en á því miður ekki. Það er miklu lengri saga til um þetta allt saman en hún bíður betri tíma. En svo ég haldi áfram að svara spurningunn hef ég líka gaman af ljóðalestri. Mest les ég ljóð eftir gömlu höfundana ef svo mætti segja Davíð Stefánsson, Einar Benediktsson, Stein Steinar, Jón Helgason og Ólaf Jóhann Sigurðsson svo ég nefni nokkra. Ég lá á Landspítalanum eitt sumar, unglingur á fimmtánda ári og með mér á stofu var Valdimar frá Kílhrauni sem var pabbi Árna Valdimarssonar og þá um leið afi Önnu Árnadóttur sem seinna varð eiginkona mín. Þetta sumar lét Valdmar mig læra mörg ljóð utan að. Ég man sérstaklega eftir að hafa lært öll erindi kvæðisins Áfanga eftir Jón Helgason og reyndar miklu fleiri ljóð.

Byrjaðir þú snemma að lesa?

Ég las mikið sem barn. Aðallega voru það Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton og Fimm bækurnar. Gulleyjan var mín uppáhaldsbók. Ég fékk hana í jólagjöf en Ingva bróður langaði mjög í hana en fékk ekki og til að hefna sín skeit hann á blaðsíðu 13 og lokaði svo bókinni. Á sama tíma var ég niðri að borða ístertuna sem mamma bjó alltaf til um jólin úr eggjarauðum. Engar hvítur notaðar hjá henni. Þegar ég uppgötvaði hvað Ingvi hafði gert brjálaðist ég gjörsamlega þegar ég byrjaði að lesa og fann lyktina, grenjaði af öllum kröftum þangað til mamma kom og þreif blaðsíðurnar og hellti ilmvatni yfir. Ég man ennþá lyktina sem Ingvi bróðir bjó til.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég sofna ekki öðruvísi en að lesa og vakna ekki heldur. Les reyndar ekki nema svona þrjátíu eða fjörutíu mínútur í einu nema eitthvað verulega spennandi sé á boðstónum.

Hefur bók rænt þig svefni?

Margar, mjög margar bækur hafa rænt mig svefni. Ég á þó nokkrar sem ég hef alltaf á náttborðinu sem ég þekki vel og gríp til ef á þarf að halda. Góði dátinn Sveijk eftir Jaroslav Hajek og Gerpla eftir Halldór Laxness eru þar í uppáhaldi og ég les reglulega. Ég get gripið í Dátann hvar sem er og hvenær sem er en Gerplu þarf ég að lesa árlega frá upphafi til enda. Svo eru alltaf nálægar tvær bækur eftir son minn Sigga Fannar, Trúður og Borg óttans. Þær minna mig á hvernig ekki eigi að ala upp börn. Móðurinni tókst betur upp en mér. Hún reyndi að minnsta kosti.

En að lokum Gúndi, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ég er á því að ég væri mjög gott skáld og jafnvel frábær ævisöguritari. Hef það frá syni mínum. Ég myndi hins vegar líklega semja ljóðabækur ef það dytti í mig að verða skáld. Ég samdi nefnilega nokkur ljóð á mínum yngri árum sem flest voru órímuð og kölluðust atómljóð.

________________________________________________

Lestrarhesturinn er samstarfsverkefni Bókabæjanna austanfjalls og Dagskrárinnar. Markmiðið er að búa til áhugavert lesefni fyrir almenning og vettvang um bóklestur og bókmenningu. Ritstjóri er Jón Özur Snorrason og þætti honum vænt um að fá tölvupóst frá þeim sem hafa áhuga á að vera lestrarhestar í gegnum netfangið jonozur@gmail.com.

Nýjar fréttir