6.7 C
Selfoss

Nýbúinn á Selfossi    

Vinsælast

Eftir 70 ára búsetu á höfuðborgarsvæðinu og þar af 46 ár í Kópavogi ákváðum  við hjónin að kanna hvort ekki væri meira aðlaðandi búsvæði utan borgarinnar þar sem okkur fannst margt vera að færast til verri vegar í höfuðborginni svo sem aukin mengun og óþolandi umferðarþungi, en þó ekki allt of langt frá borginni. Sem skilyrði settum við að: húshitun væri með jarðhita, heilbrigðisþjónusta væri góð, lágvöruverðsverslun væri á svæðinu og sem fjölbreyttust þjónusta og afþreying stæði til boða. Við skoðuðum ýmis nágrannabyggðarlög á Suðurlandi, Reykjanesi og Vesturlandi og þar á meðal Selfoss og eftir að hafa velt fyrir okkur og metið kosti og hugsanlega galla þessara bæjarfélaga sem eru í innan við fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Reykjavík komumst við að þeirri niðurstöðu að Selfoss væri ekki bara besti kosturinn heldur langbesti kosturinn sem í boði var og hófum við þá að skoða fasteignir til sölu, bæði nýjar og eldri á Selfossi þar sem feiknamikil uppbygging á sér stað um þessar mundir. Um leið og við ókum í austur yfir Ölfusárbrú sem byggð var árið 1945 og löngu er tímabært að létta umferð á með nýrri brú áður en slys hlýst af blasti við okkur beint framundan autt svæði, tún, gat í byggðina. Heldur þótti okkur þetta nöturleg aðkoma að þessum fallega bæ með sína lágreistu vinalegu byggð með mörgum fallegum húsum og húsagörðum og vonandi fær hann að halda þessu útliti sínu um langa framtíð laus við háa byggð fjölbýlishúsa, en ennþá eru engar byggingar á Selfossi hærri en fjórar hæðir (e.t.v. hótelið). Selfoss hefur og mun áfram hafa um langa framtíð góðan aðgang að nægu byggingalandi og því ástæðulaust að teigja nýbyggingar til himins og með því skemma vinalega ásýnd bæjarins. Fljótlega fregnuðum við að til stæði að hefja byggingar á þessum auða reit í hjarta bæjarins sem breyta mundi gjörsamlega upplifun þeirra sem yfir brúna aka þar sem í stað túnbleðlisins mun blasa við þyrping nýbyggðra fallegra húsa af fjölbreyttri gerð, bygginga þar sem horft er til eldri húsa við hönnun, húsanna sem áður höfðu prýtt ýmsa bæi vítt og breitt um landið meðal annars á Selfossi, sem orðið hafa þurft víkja, hús sem af yrði mikil prýði og munu efalaust draga að sér fjölda ferðamanna til bæjarins til að skoða og njóta. Benda má á gömlu Mjólkurstöðina sem dæmi. Byggingar hófust síðan á svæðinu að undangengnum íbúakosningum þar sem meiri hluti bæjarbúa lýsti sig hlynntan uppbyggingunni. Síðan framkvæmdir hófust hef ég gert mér ítrekaðar ferðir gangandi og hjólandi á byggingasvæðið til þess að forvitnast um gang mála og dást að nýbyggingunum sem verða munu bæjarprýði um langa framtíð og ég hlakka til að geta sest niður á fallegum degi með kaffibolla í hönd í nýja miðbæ Selfoss og virða fyrir mér mannlífið. Það má þó ekki gleymast að eldri hús á staðnum og meðfram Eyrarveginum þurfa nauðsynlega að fá lagfæringar og upplyftingu. Að fenginni reynslu nú eftir þriggja ára búsetu höfum við reynt að allt það sem við þurfum og viljum hafa í einu bæjarfélagi er til staðar á Selfossi og rúmlega það. Sem dæmi um þá þjónustu og afþreyingu sem í boði er á Selfossi má nefna að tvær öflugustu byggingavöruverslanir landsins eru báðar með starfsstöðvar á Selfossi hér er: Kvikmyndahús, bókasafn, bakarí, fjölbreytt úrval veitingahúsa og fjölbreytt úrval verslana, öflugt íþróttastarf, afgreiðslustaðir allra þriggja bankanna, þróttugt og fjölbreytt starf eldri borgara, öflug íþróttastarfsemi með góða aðstöðu til að iðka flestar greinar íþrótta og á íþróttavallasvæðinu rís nú glæsilegt fjönota íþróttahús sem við Selfossbúar fylgjumst með af eftirvæntingu og stolti á rísa , sjúkrahús og heilsugæsla og ekki síst frábær sundlaug sem tekur flestum öðrum sundlaugum á landinu fram. Í sundlaugunum má alltaf ganga að skemmtilegum innfæddum Selfossbúum vísum þar sem fá má frásagnir af margsskonar atburðum frá fyrri tíð og ekki síður því sem framundan er í Árborg. Ítarlegri fréttir má síðan fá hjá rakara bæjarins þar sem notalegt er að setjast í stólinn og þiggja kaffibolla og taka spjall, en hann er jafnframt bæjarfulltrúi Árborgar og er margfróður og fús til að upplýsa nýbúa um hvað er á döfinni í sveitafélaginu Árborg. Eitt er það sem ég hef veitt athygli hér á Selfossi, en það er kurteisi og tillitssemi ökumanna þegar gangandi vegfarandi þarf að komast yfir götu á gangbraut, undantekningalaust stöðva ökumenn bílana í tíma til þess að veita þeim gangandi forgang. Ekki má heldur í þessi upptalningu gleyma hinum frábæra Hellisskógi þar sem unnið hefur verið stórkostlegt starf að gróðursetningu og lagningu fjölmargra göngustíga um skóginn þar sem skemmtilegt er að ganga um og njóta útiveru. Ég leyfi mér þó að benda á að til valið væri að útbúa sérstakan reit þar sem komið yrði fyrir eintaki af öllum þeim trjátegundum sem finna má í skóginum ásamt upplýsingaskilti þar sem upplýsingar væru um hverja tegund fyrir sig. Það gæti verið fróðlegt og upplýsandi t.d. fyrir grunnskólabörn að skoða ásamt kennara sínum. Þá verð ég að minnast á hinn bráðskemmtilega golfvöll Golfklúbbs Selfoss í fallegu umhverfi sem að hluta til liggur meðfram Ölfusá og býður uppá frábæra skemmtun, útsýni og útiveru. Það var aðeins eitt sem ég í fyrstu saknaði frá höfuðborginni, en það var að Fréttablaðið  er ekki borið út til lesenda, það þýðir að áhugasamir lesendur þurfa að ganga mislangan spöl og sækja blaðið í þar til gerða kassa sem finna má festa á ljósastaura víðsvegar um bæinn. Fljótlega varð þessi daglegi stutti göngutúr þó að ágætri lengri ferð og breyttist í heilsubótar og útiverugöngutúr og allir glaðir. Þetta er svona í aðalatriðum upplifun mín sem nýbúi á Selfossi, en mig langar þó til að lokum að koma með tvær ábendingar til þeirra sem málið varðar. Með Suðurhólum öllum liggur göngu og hjólastígur frá vestri til austurs sem frábært er að ganga á góðum degi og flesta daga er hann mikið gengin, en þó vantar tilfinnanlega fleiri sætisbekki þar sem hægt væri að setjast niður á móti suðri og njóta þess að horfa yfir sveitina sem blasir við sunnan við byggðina. Ég saknaði þess einnig að ekki sé til ábendinga og upplýsingablað með götukorti af Selfossi þar sem merktar væru inná helstu þjónustustaðir sem bæjarbúar nýjir og eldri þurfa að sækja þjónustu til svo sem: Skrifstofu bæjarins, byggingafulltrúa, sjúkrahús og heilsugæsla, Gámastöð, bókasafn, pósthús, íþróttavöllur og félagsstaða eldri borgara svo eitthvað sé nefnt. Ég hef séð slík upplýsingablöð í öðrum bæjarfélögum liggja frammi á viðeigandi stöðum. Áfram Selfoss.

 

Með kveðju

Ómar V. Franklínsson (Selfossbúi)

Nýjar fréttir