10 C
Selfoss
Home Fréttir Frelsi og fjötrar

Frelsi og fjötrar

0
Frelsi og fjötrar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Víðtæk sátt þarf að nást um hálendisþjóðgarð allra Íslendinga eigi hann að verða að veruleika. Málið er umdeilt og sjónarmið eru margvísleg og því brýnt að vanda til undirbúnings með hliðsjón af því markmiði sem sátt verður um. Óheft aðgengi að miðhálendinu eru verðmæti í hugum almennings sem hefur kynnst náttúru og menningu og haft frelsi til athafna og upplifunar. Hefðbundin landnýting og nytjar hafa verið stundaðar á hálendi Íslands í hundruði ára og hafa margar hverjar menningarlegt gildi. Þannig er svæðið mikilvægt fyrir það fólk sem hefur um áraraðir haft umsjón með hálendinu, sinnt því af trúmennsku og á faglegan hátt. Þá sé um að ræða eitt mikilvægasta útivistarsvæði almennings til ýmissa nytja og afþreyingar.

Vernd og nýting

Almennt má segja að mikilvægt er að vernda viðkvæma hluta landsins, nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt og um leið að auðvelda fólki að upplifa og njóta frelsis í náttúrunni. Samvinna þarf að vera um vernd og nýtingu miðhálendisins eins og annars lands í sameign þjóðarinnar.

Í stjórnarsáttmálanum var fjallað um að stofnaður yrði þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Í stjórnarsáttmálanum var ekki tilgreint um stærð þjóðgarðs né stjórnfyrirkomulagið. Því fór það svo að þingflokkur Framsóknar lagðist gegn óbreyttu frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um hálendisþjóðgarð. Fyrirvararnir lúta að stærðartakmörkunum, valdi sveitarfélaga, frjálsri för, orkunýtingu ofl.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar

Ein nálgun gæti verið að byrja smátt í stað þess að teygja sig yfir stórt svæði en fyrirhuguð stærð hálendisþjóðgarðs nær yfir 30% af Íslandi með snertiflöt við mörg sveitarfélög sem liggja að þjóðgarðsmörkum. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að þau sé höfð með í ráðum og að samþykki þurfi frá viðeigandi sveitarstjórnum um nákvæma afmörkun og skiptingu svæða í verndarflokka. Já, áskoranir eru margar. Til að mynda er töluverð áskorun að koma á stjórnunarfyrirkomulagi Hálendisþjóðgarðs sem nær á fullnægjandi hátt til allra sjónarmiða sem eiga erindi í stefnumótun og ákvarðanatöku sem og valdsvið umdæmisráða. Þá er óvíst hvernig farið verður með valdheimildir einstakra sveitafélaga yfir eigin mannvirkjum og öðrum eignum innan þjóðgarðsins.

Frjáls för

Enn er mörgum spurningum ósvarað um reglugerðir sem á eftir að semja, til dæmis um umferð og dvöl á hálendinu. Þingflokkur Framsóknar leggur því áherslur á að tryggja þurfi frjálsa för almannaréttar þannig að gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi geti ferðast eins og nú um þjóðgarðinn án takmarkana. Margvísleg sjónarmiðið eru um útfærslur á stjórnun og vernd hálendisins en flest eiga þau það sameiginlegt að bera hag hálendisins og þar með landsins alls fyrir brjósti. Fólk sem býr við jaðar hálendisins ber sterkar taugar til þess líkt og þeir sem búa fjarri hálendinu. Skilningur á náttúrunni gerist best með umgengni við landið og skynsamlegri nýtingu þeirra er það byggja. Mikilvægt er að hlusta vel á þessar raddir og virða tilfinningar þeirra sem láta sig málið varða áður en ákvörðun er tekin um svæði sem spannar um þriðjung af Íslandi.

Kjalvegur

Til að tryggja aðgengi að miðhálendinu er nauðsynlegt að viðurkenna og setja inn í lagatexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Jafnframt þarf að liggja fyrir að skipuleggja eigi aðra vegi með beinni tilvísun til skipulags og valdheimilda einstakra sveitarfélaga á sínu svæði. Einnig er óljóst með núverandi starfsemi einkaaðila og sveitarfélaga við hugmyndir um starfsemi og fjármögnun þjóðgarðs. Þá gerir þingflokkur Framsóknar fyrirvara um að afmarka þurfi orkuvinnslusvæði, svæði í biðflokki í rammaáætlun 3 og flutningsleiðir raforku á miðhálendinu, hvort sem þau verða innan eða utan þjóðgarðs.

Samtalið

Að þessu sögðu er umtalsverð vinna eftir sem verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum. Samtalið sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur átt um allt land þarf að halda áfram því enn er langt í land ef áformin eiga ná að verða að veruleika. Alls bárust 149 umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar sem hefur nú málið til umfjöllunar. Umsagnirnar koma víða að úr þjóðfélaginu sem ber þess merki að almenningi er virkilega annt um að ekki verði gerðar stórar breytingar eða byltingar sem skerða frelsi og lífsgæði fólks. Lífsgæði Íslendinga byggjast á því að skapa tækifæri af þeim verðmætum sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt. Landnýting þjóðgarðs er stór ákvörðun sem þarfnast víðtækrar sáttar.

Hálendið er ekki í hættu. Á síðustu árum hefur ríkt víðtæk sátt um að hálendið sé mikilvægur hluti af landinu, af okkur sjálfum. Þeir fyrirvarar sem við í Framsókn setjum fyrir framhaldinu snúast um að varðveita þá sátt, þann frið, sem ríkir um hálendið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar