10.6 C
Selfoss

Nýr og betri vegur um Mýrdal

Vinsælast

Það voru mikil gleðitíðindi þegar sitjandi ríkisstjórn með Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra og formann Framsóknarflokksins í broddi fylkingar rauf áralanga kyrrstöðu í samgöngumálum. Mikil áform eru uppi um vegabætur á Suðurlandinu enda fara hér að jafnaði margir um. Það voru okkur Mýrdælingum sérstök gleðitíðindi þegar Alþingi samþykkti nýja samgönguáætlun sem gerði ráð fyrir nýjum láglendisveg um Mýrdal. Í kjölfarið hefur Vegagerðin hafið umhverfismat framkvæmda fyrir veginn sem er mikilvægur og stefnumarkandi áfangi.

Ég ber fulla virðingu fyrir því að andstæðingar nýs láglendisvegar um Mýrdal skuli standa fastir á sínum skoðunum og að landeigendur standi vörð um sína hagsmuni. Það er sjálfsagður réttur hvers manns. Að því sögðu þá þykir mér ekki mikill bragur á því þegar dylgjað er um meintan hrottaskap þeirra sem berjast fyrir samgöngubótum eins og gert hefur verið í fjölmiðlum eða að kasta fram órökstuddum fullyrðingum um eineltistilburði. Í stað þess að feta þær ógöngur ætla ég hér að gera grein fyrir sjónarmiðum okkar sem eru fylgjandi framkvæmdinni á málefnalegan hátt.

Fjórar meginástæður eru fyrir því að ég tel nýjan láglendisveg með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall vera framtíðarlausn á erfiðum kafla hringvegarins:

1.       Þjóðvegur 1 klýfur ekki lengur byggðina í Vík
Þegar fjöldi bíla sem keyra í gegnum Víkina eru orðnir á bilinu 4 – 5 þúsund á sólarhring þá er ekki að furða að margir foreldrar í efri byggð bæjarins kjósi að keyra börn sín í og úr skóla. Það er óásættanlegt að gangandi vegfarendur séu oft á tíðum í lífshættu þegar þeir þurfa að þvera þjóðveginn. Núverandi vegstæði býður ekki upp á neinar varanlegar lausnir við þessu vandamáli. Fyrir ekki svo löngu síðan gáfu hemlar í flutningabíl sig með þeim afleiðingum að hann þaut stjórnlaust niður brekkuna inn í bæinn og endaði á hliðinni við vegamót Víkurbrautar. Mikil mildi er að ekki voru fyrir aðrir bílar eða gangandi vegfarendur.

2.       Sneitt er framhjá veðravíti og bröttum brekkum
Núverandi vegstæði fer um Skarphól sem er varasöm brekka með 10% halla og um Gatnabrún sem er með 12% halla og er á lista Vegagerðarinnar yfir hættulegustu beygjur á hringveginum og vel þekktur farartálmi. Þegar komið er upp Gatnabrúnina tekur við vegurinn norðan Reynisfjalls og á milli þess og Höttu þar sem oft myndast miklir sviptivindar og algengt er að veginum þar sé lokað að vetri til vegna óveðurs. Ný veglína fer suðurfyrir þessa staði og í stað mun vegurinn liggja allur á láglendi með göngum í gegnum Reynisfjall. Þetta stóreykur öryggi vegfarenda sem þurfa daglega að aka þessa leið, þ.m.t. skólabíll.

3.       Samsetning umferðar
Hér á suðurströndinni höfum við horft upp á gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna og samfélagið hefur verið duglegt að byggja upp í kringum ferðaþjónustuna. Það gefur augaleið að flestir þeir ferðamenn sem leggja leið sína hingað eru ekki vanir þeim akstursskilyrðum sem íslensk veðrátta getur boðið upp á. Hér í Mýrdal hafa hótel og gistiheimili verið fullbókuð um vetrarmánuði þegar verstu veðrin ganga yfir. Við höfum margoft þurft að loka veginum um Reynisfjall á meðan aðrir kaflar þjóðvegarins hafa haldist opnir.

4.       Umhverfismál
Nýr láglendisvegur um Mýrdal styttir hringveginn um 3,5 km. Sú tala er hins vegar langt frá því að lýsa raunverulegri styttingu í akstri fyrir stóran hluta þeirra sem aka um Mýrdalinn. Stór hluti þeirra sem sækja okkur heim fara niður að Dyrhólaey og í Reynisfjöru. Fyrir þann sem fer á báða staði myndi ný leið spara um 12,5 km til viðbótar í akstri. Við sem huga viljum að umhverfismálum hljótum að líta til alls þess sem sparast þannig í mengandi útblæstri.
Nýja leiðin er um leið hliðholl umhverfinu á þann hátt að hún fer ekki nema að litlu leyti um óraskað land heldur er hún áætluð meðfram Dyrhólaós en eins og allir vita sem farið hafa um svæðið þá er landið norðan við væntanlegan veg framræst mýrlendi. Þá mun vegurinn liggja ofan við Víkurfjöru og það verður gaman að sjá hvaða útfærslur verða lagðar til þar en allir vita jú líka að Víkurfjaran er fjarri því að vera ósnortin. Þar hafa verið reistir stórir sandfangarar út í sjó til að sporna við landrofi og ófá handtök mannsins sem hafa verið unnin við landgræðslu til að sporna við sandblæstri.

Sú áhersla sem ríkisstjórnin hefur lagt á samgöngumál hefur glatt mörg landsbyggðarhjörtu og á það svo sannarlega við hér í Mýrdalnum. Hafin er smíði nýrrar tvíbreiðrar brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi og við bíðum spennt eftir því að geta vel undirbúin tekið á móti enn fleiri ferðamönnum en áður og haldið áfram uppbyggingu samfélagsins.

 

Einar Freyr Elínarson,

Oddviti Mýrdalshrepps

Nýjar fréttir