1.7 C
Selfoss

Slæm staða talmeinafræðinga – Biðtími eftir talþjálfun lengist

Vinsælast

Þessa stundina standa yfir viðræður á milli Félags talmeinafræðinga á Ísland (FTÍ) og Sjúkratygginga Íslands (SÍ) vegna rammasamnings um þjónustu talmeinafræðinga. Í nóvember 2017 var sett inn ákvæði um skilyrði fyrir tveggja ára starfsreynslu fullgildra talmeinafræðinga til að komast á samning hjá SÍ. Framkvæmdin hefur verið á þann veg að nýútskrifuðum talmeinafræðingum er meinað að vinna sjálfstætt með öðrum reyndum talmeinafræðingum á einkareknum stofum. Fyrst þurfa þeir að vinna í tvö ár sem launþegar ef slíkar stöður standa til boða. Stöðurnar er stundum hægt að finna hjá sveitarfélögum, spítölum og endurhæfingarstöðvum en þær eru af skornum skammti, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Nýliðun talmeinafræðinga á landsbyggðinni hefur verið takmörkuð undanfarin ár og með þessari framkvæmd er verið að gera nýútskrifuðum talmeinafræðingum enn erfiðara fyrir að starfa úti á landi. Það er sorgleg staðreynd að með þessu nýja ákvæði, sem SÍ neita að taka út, er verið að skerða þjónustu við mjög viðkvæman hóp þar sem skjólstæðingar sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga eru að mestu leyti börn og unglingar með alvarlegar málþroskaraskanir, framburðarfrávik, þroskaskerðingu, stam o.fl. Talmeinafræðingar á einkareknum stofum þjónusta einnig fullorðna einstaklinga eftir heilablóðfall eða heilaskaða, einstaklinga með kyngingartregðu og raddvandamál svo fátt eitt sé nefnt.

Talþjálfun Suðurlands

Á Selfossi er starfrækt ein talmeinafræðistofa þar sem þrír sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar vinna í hlutastarfi. Stofan sinnir börnum og fullorðnum einstaklingum af öllu Suðurlandi. Í dag er um 18-36 mánaða bið fyrir leik- og grunnskólabörn hjá Talþjálfun Suðurlands og nú bíða um 250 börn af Suðurlandi eftir talþjálfun. Nýútskrifaður talmeinafræðingur sem búsettur er á Selfossi og vill starfa í sínum heimabæ fær ekki samning við SÍ. Takmörk rammasamnings SÍ gera hinum nýútskrifaða því ekki kleift að vinna sjálfstætt við hlið og undir leiðsögn starfandi talmeinafræðinga með reynslu af þjálfun barna með alvarleg frávik. Mun hann því þurfa að leita annað með sína sérfræðiþekkingu. Þegar þetta er skrifað eru þrír af 18 nemum í talmeinafræðum frá Selfossi og munu þeir ekki geta sótt um vinnu hjá Talþjálfun Suðurlands vegna þessa ákvæðis. Hér skal tekið fram að nýtalmeinafræðingur hefur lokið fimm ára háskólanámi ásamt sex mánaða handleiðslu og hefur fengið starfsleyfi hjá Landlækni.

Það er því fyrirséð að biðlistinn eftir talþjálfun á Suðurlandi muni lengjast enn meira og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Þetta nýja ákvæði hefur slæm áhrif á Suðurland

Þau áhrif sem þetta ákvæði hefur á Suðurland, sem og aðra landsbyggðarhluta, eru mjög slæm.

Það má gera ráð fyrir að 1 af hverjum 14 börnum eigi við málþroskröskun (DLD) að stríða. Barn sem greinist við 3 ára aldur með málþroskaröskun þarf því að bíða þar til það verður 4-6 ára eftir þjónustunni. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og eru því fyrstu árin í æviskeiði barnsins krítísk þegar kemur að talþjálfun. Svona langur biðtími er því skaðlegur og getur haft mjög slæm áhrif á nám barnsins síðar meir.

Til lengri tíma litið er allra hagur að hægt sé að anna eftirspurn og afgreiða hvert mál á styttri og markvissari tíma en nú er gert. Þetta tveggja ára ákvæði í rammasamingum er algerlega á skjön við þá þörf sem er á þjónustu á landinu öllu. Þessi langa bið eftir þjónustu talmeinafræðinga er einfaldlega ekki boðleg. Hér er breytinga þörf.

 

Höfundar eru Anna Stefanía Vignisdóttir, Berglind Jónsdóttir og Halla Marinósdóttir, talmeinafræðingar hjá Talþjálfun Suðurlands.

Random Image

Nýjar fréttir