-0.5 C
Selfoss

Laxabakki – kjarni málsins og deilur

Vinsælast

Í nýlegri grein Hannesar Lárussonar sem birtist í Dagskránni á Suðurlandi 5. janúar sl, eru bornar þungar sakir á samtökin Landvernd, Héraðsnefnd Árnesinga og lifandi sem látna nafngreinda Íslendinga. Það hefur ekki talist stórmannlegt að bera opinberlega sakir á og sverta minningu genginna Íslendinga. Það fólk sem látið er og nefnt er á nafn getur ekki tekið til varna. Rétt er þá að hafa í huga að niðurstaða Hæstaréttar árið 1982 um eignarhalda á landi Alviðru og Öndverðarnes II undir Ingólfsfjalli við Sogið, féll á þann veg að núverandi eigendur eru óumdeilanlega Héraðsnefnd Árnesinga og Landvernd, landgræðslu og umhverfisverndarsamtök Íslands.

Jarðirnar sem um ræðir eru opnar almenningi, gönguleiðir merktar og viðhaldið og eru jarðirnar mikið notaðar til útvistar. Um langt ára bil hefur verið rekið þar fræðslusetur um umhverfi- og náttúru og á tímabili sóttu yfir 2.000 gestir staðinn heim árlega í nafni þeirrar starfsemi. Í fjármálakreppunni veiktist fjárhagur starfseminnar svo um nokkuð skeið hefur hún legið niðri. Eins og Hannes bendir réttilega, varð þetta ástand til þess að ýmis útrbótaverkefni söfnuðust upp. Að þeim er nú unnið með skipulögðum hætti. Um 5.mkr. var varið til úrbóta á síðasta ári. Á liðnu ári var fræðslustarfið endurvakið, en að takmörkuð leyti, m.a. vegna sóttvarnaraðgerða. Væntingar standa til þess að starfsemin verði öflugri á þessu ári sem nú er að hefjast, frekari úrbætur verði gerðar á húskosti og landi, skógrækt efld, votlendi endurheimt svo staðurinn nái hægt og bítandi aftur fyrri reisn, og verði eigendum sínum til sóma. Gerðir hafa verið samningar bæði við Kolvið um skógrækt og Landgræðsluna um endurheimt votlendis og nýir öflugir aðilar koma að því að nýta veiðiheimildir í Soginu.

Undanfarin misseri hafa staðið deilur um lóð sem á stendur gamall sumarbústaður við Sogið sem er kominn er að hruni. Bústaðurinn hefur bæði menningarsögulegt og fagurfræðilegt gildi. Því var það ánægjulegt að hann var friðlýstur á sl. ári. Bústaðurinn hefur verið í einkaeign, en landið er eign almennings, íbúa Árnessýslu og félaga í Landvernd. Félagið Íslenski bærinn ehf. telst eigandi bústaðsins sjálfs, þ.e. húsakostsins eins. Íslenski bærinn hefur einnig talið sig eiganda landsins undir og umhverfis bústaðinn. Fyrir því liggja þó engar framkomnar heimildir eða yfirlýsingar. Það er mjög miður fyrir alla aðila og hefur sett góð áform Íslenska bæjarins ehf. um endurbyggingu Laxabakka í uppnám.

Hvorki gjafabréfið sem fylgdi þegar Landvernd og Árnesingar tóku á móti þeirri miklu gjöf sem Alviðra og Öndverðarnes II er, né almenn lög og reglur heimila Landvernd og Héraðsnefnd Árnesinga að gefa út afsal til Íslenska bæjarins ehf. fyrir umrædda landspildu. Hins vegar hefur Íslenska bænum ehf. verið boðin leigusamningur til 50 ára, með hóflegri landleigu með möguleika á framlengingu, en jafnframt með því skilyrði að ákvæðum gjafabréf landsins yrði fylgt. Því tilboði hefur Íslenski bærinn hafnað. Að svo komnu máli telja þeir sem fara með umboð landeigenda því miður heppilegast fyrir alla aðila að ljúka málinu  fyrir dómsstólum. Í kjölfar dómsúrskurðar verður vonandi hægt að ganga til samninga svo óumdeildum menningarverðmætum verði bjargað. Þangað til er affarasælast að málsaðilar sýni hófstillingu og dreifi ekki rógi, hálfsannleika og illmælum um Íslendinga sem hafa kvatt eða aðra þá sem að málinu koma. Sjálfur óska ég Íslenska bænum heilla í sínu mikilvæga starfi og vona að þetta fari allt vel að lokum.

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar og stjórnar Alviðrustofnunar.

Nýjar fréttir