0.6 C
Selfoss

Skákiðkun leiðir saman krakka með ólíkan bakgrunn

Vinsælast

Fyrir nokkru mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um skákkennslu í grunnskólum. Tillagan er studd 14 þingmönnum úr fimm flokkum, en þar er lagt til að menntamálaráðherra verði falið að kanna hvort tilefni sé til þess að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskólanna.

Sterkar menningarlegar rætur
„Tafl em eg örr at efla, íþróttir kann eg níu“, þetta eru fleyg upphafsorð vísu sem Rögnvaldur jarl kali í Orkneyjum kvað. Skáklistin á sér sterkar rætur í íslensku þjóðlífi og bera Íslendingasögurnar þess glögglega merki. Talið er að skákin, eins og hún þekkist í dag, hafi borist hingað til lands síðla á 12. öld, en fram að þeim tíma hafi menn stundað hið forna hnefatafl, stundum ritað hneftafl.

Þjóðaríþrótt
Íslendingar hafa löngum átt snjalla skákmenn, en um miðja 20. öld eignuðust við skákmenn á heimsmælikvarða, fyrstan Friðrik Ólafsson stórmeistara sem var einn af þjóðhetjum hins unga lýðveldis. Skákiðkun hérlendis tók mikinn kipp þegar heimsmeistaraeinvígið var haldið hér á landi sumarið 1972 og þeir Bobby Fischer og Boris Spassky tókust á. Mikill áhugi er enn á þessum atburði nær hálfri öld síðar og fjöldi gesta leggur leið sína að grafreit heimsmeistarans Bobby Fischers í Laugardælum og heimsækir Fischersafnið á Selfossi.

Margvísleg, jákvæð áhrif á nemendur
Fjöldi rannsókna er til um jákvæð áhrif skákiðkunar á nemendur. Í þeim kemur fram að skákkennsla hafi góð áhrif á námsgetu, einbeitingu, ímyndunarafl, sjónminni, forsjálni, ákvarðanartöku, greiningu á úrlausnarefnum, óhlutbundna hugsun, áætlunargerð, fjölþættar lausnir, þrautseigju, félagsleg tengsl og samheldni. Þetta kom meðal annars fram í skýrslu nefndar sem menntamálaráðherra skipaði 2013 til að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum. Við skákiðkun þarf að læra og fylgja ákveðnum leikreglum, nota ímyndunaraflið, bera saman mismunandi möguleika, beita rökhugsun og móta áætlanir. Allt eru þetta eiginleikar sem mikilvægt er að nemendur þrói með sér.

Skák leiðir saman börn með ólíkan bakgrunn
Um gildi skákiðkunar til að efla félagsleg tengsl og samheldni innan skóla segir í fyrrnefndri skýrslu: „Það sem vakið hefur hvað mesta eftirtekt í rannsóknum seinni tíma á áhrifum skáklistarinnar í skólastarfi er hversu vel skákin hefur reynst félagslega og þá sem samfélagslegt tæki innan veggja skólans.“ Þá segir að skákiðkun leiði saman ólíka hópa krakka með mismunandi bakgrunn sem að öðrum kosti leiða jafnan ekki saman hesta sína. Þannig stuðli skák í skólum að því að nemendur kynnist og eigi samskipti og þjappi saman ólíkum hópum nemenda sem að öðrum kosti hafa tilhneigingu til að einangrast hver frá öðrum.

Brúar bil
Í sænskum rannsóknum hafa kennarar nefnt hversu gott tæki skák væri til að byggja upp bekkjaranda og efla félagsfærni nemenda þar sem í skák séu allir jafnir óháð kyni, tungumálakunnáttu o.fl. Þá geti skákkennsla nýst nemendum sem eigi í erfiðleikum með að einbeita sér að hefðbundnu námi.

Staðan í Evrópu
Skák hefur verið innleidd í aðalnámskrá nokkurra ríkja og 15. mars 2012 samþykkti Evrópuþingið yfirlýsingu þess efnis að aðildarríki Evrópusambandsins skyldu innleiða skákkennslu í menntakerfi landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að skák sé aðgengilegur leikur fyrir börn óháð félagslegri stöðu sem geti aukið félagsfærni þeirra og dregið úr mismunun. Þá hafi skák góð áhrif á einbeitingu, þolinmæði, þrautseigju, sköpunargleði, innsæi, minni og rökhugsun óháð aldri barna.

Uppgangur á Suðurlandi
Tillagan hefur hlotið jákvæðar undirtektir hjá mörgum umsagnaraðilum og yfirvöld í Árborg tóku henni fagnandi, enda ríkir á Suðurlandi mikil og rík skákhefð. Skemmst er að minnast skákhátíðar haustið 2019 á Selfossi þar sem félagar í Skákfélagi Selfoss og nágrennis sönnuðu stórhug sinn með glæsilegu mótshaldi. Í tengslum við hátíðina stóð Skáksambandið fyrir kennaranámskeiði þar sem kennari var Jesper Hall, formaður kennslunefndar Evrópska skáksambandsins. Mikill uppgangur hefur verið í skáklífinu á Selfossi á undanförnum misserum. Keppir skákfélagið nú á meðal þeirra bestu í deildakeppni Skáksambands Íslands, sem er stærsta og fjölmennasta skákmótið á hverju ári. Mikil tækifæri eru tengd skák á Suðurlandi og upptaka skákkennslu í skólum mun án efa efla og styrkja við skáklíf á Suðurlandi.

Karl Gauti Hjaltason
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is

Nýjar fréttir