9.5 C
Selfoss

Samstarf til farsældar

Vinsælast

Árið 2020 verður lengi í minnum haft enda hefur COVID-19 haft veruleg áhrif á allt samfélagið. Þrátt fyrir að COVID-reynslan hafi verið krefjandi höfum við lært af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Frá því í mars síðastliðinn hefur starfsfólk skólanna og alls fjölskyldusviðs þurft að setja sig í nýjar og áður óþekktar vinnustellingar. Skóla- og frístundastarf hefur verið skert að hluta, hólfaskipting viðhöfð, fjarfundir og nám að heiman nánast daglegt brauð. Allir hafa lagt sig fram um að halda uppi gæðastarfi við krefjandi aðstæður og í skipulagsstörfum sínum hafa stjórnendur skóla, frístunda- og velferðarþjónustu sett öryggi og heilsu nemenda, starfsfólks og annarra íbúa í forgang. Í þeirri vinnu hefur ætíð verið tekið mið af leiðbeiningum og fyrirmælum Almannamannavarna. Til að svona vel takist til þarf að vera mikið skipulag, þétt samstarf og góð upplýsingagjöf. Ég vil nota þetta tækifæri til að hrósa starfsfólki skóla og annarra stofnana í Árborg fyrir mikla þrautseigju, samheldni og dugnað enda eru margir starfsmenn fjölskyldusviðs svokallað framlínustarfsfólk. Ekki má gleyma að þakka nemendum og foreldrum sem hafa lagt sig fram í afar krefjandi aðstæðum.

Þessi góði árangur sem náðst hefur byggist á samstarfi og miklu trausti. Þegar lögð er rækt við þau gildi er auveldara að takast á við hið óvænta. Við höfum nýtt samstarfshæfni okkar og áherslu á samþættin-gu á fjölskyldusviði þegar við höfum sótt um ýmsa COVID styrki sem hafa verið í boði hjá ríkinu. Ágætt dæmi um vel heppnað verkefni er samstarf fjölskyldusviðs við Félag eldri borgara og Rauða krossinn um símhringiverkefni fyrir eldra fólk sem félagsmiðstöðin hélt utan um. Verkefnið er liður í því að kanna líðan, aðstæður og rjúfa félagslega einangrun eldri borgara og sýna þeim náungakærleik.

Stórfelldar breytingar á aðbúnaði barna

Fjölskyldusvið hefur unnið markvisst að því að efla þverfaglegar áherslur og snemmtækan stuðning við börn og unglinga en til að ná árangri á því sviði þurfa helst allir, sem koma að málefnum barnanna, að vinna þétt saman og brjóta niður fagmúra sem stundum eru til staðar. Við fögnum frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um stórfelldar breytingar á aðbúnaði barna í landinu sem fjallar um það að samþæt-ta kerfi ríkis og sveitarfélaga á marvissan hátt til að auðveldara verði að veita snemmtækan stuðning og stuðla þannig að meiri farsæld barna. Svo hægt sé að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í þarf að vinna saman þvert á allar stofnanir og kerfi. Á þann hátt er verið að stuðla að því að börn og foreldrar þeirra þurfi ekki að þvælast á milli kerfa til að sækja þjónustu og úrræði sem eru í boði. Nýtt frumvarp styður við þær skipulagsbreytingar sem þegar hafa verið gerðar hjá Sveitarfélaginu Árborg með stofnun fjölskyldusviðs. Sú vinna sem þegar hefur verið unnin auðveldar okkur að takast á við hið stóra samstarfsverkefni og vinna enn þéttar saman innan sveitarfélagsins en einnig með félagasamtökum og stofnunum er láta sig málefni barna varða.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður og verkefni á árinu 2020 eru bjartir tímar framundan sem við munum ta-kast á við af áræðni og krafti með samstarfshugsunina að leiðarljósi.

Með góðum jóla- og nýárskveðjum,

Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Nýjar fréttir