8.9 C
Selfoss

Andi jólahátíðarinnar

Vinsælast

Jólahátíðin með þeim fagra jólaanda sem henni fylgir er nú að ganga í garð. Undirbúningur hennar hefst í upphafi aðventunnar þegar rifjaður er upp aðdragandinn að fæðingu frelsarans, Jesú Krists. Á aðventunni er minnst spádómana í Gamla testamentinu um komu hans; Betlehem, borgarinnar þar sem hann fæddist; fjárhirðana sem leituðu Jesú eftir að hafa fengið fregnir af komu hans og englunum sem fluttu fregnir af fæðingu hans. Aðventan minnir fólk í kristnum samfélögum á kærleikann, hjálpsemina og gestrisnina þar sem trúin er iðkuð meðvitað eða ómeðvitað. Jóladagur, 25 desember ár hvert er svo sá dagur sem að kristin samfélög minnast fæðingar frelsarans.

Andi jólahátíðarinnar gerir okkur að betri manneskjum, leyfum honum að móta lífsviðhorf okkar allt árið um kring. Njótum þess að vera í faðmi fjölskyldunnar og vina um jólahátíðina, beinum hugsunum okkar og bænum til ástvina okkar, lífs eða liðinna og höfum í huga að þegar við gerum líf okkar upp að leikslokum, að þá er allur sá tími sem varið er með fjölskyldunni og vinum, sá tími sem verðmætastur er hverjum manni.

Ég óska íbúum Sveitarfélagsins Árborgar, sunnlendingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Tómas Ellert Tómasson,

bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.

 

Nýjar fréttir