1.7 C
Selfoss

Gamla píanóið aftur í Húsið komið

Vinsælast

Þegar ég var lítill strákur heimsótti ég Byggðasafn Árnesinga á Selfossi. Þar var flottasti gripurinn stórt og mikið píanó sem var úr Húsinu á Eyrar-bakka. Píanóið var lokað og enginn mátti koma við það, Pétur safnvörður var mjög harður á því.

Árið 1992 tók ég til starfa á Byggðasafni Árnesinga, en sama ár var ákveðið að safnið skyldi flutt í Húsið á Eyrarbakka, og píanóið góða færi aftur til síns upprunalega heima. En áður fór það í viðgerð til Guðmundar Stefánssonar hljóðfærasmiðs í Reykjavík. Hann gerði það upp og komst að því að það væri frá árinu 1871. Eftir að Húsið var tilbúið eftir viðgerðir Þjóðminjasafnsins árið 1995 komst píanóið því aftur heim og er í stássstofunni. Ég hélt alltaf að þetta væri elsta píanóið frá tímum faktoranna.

Um aldamótin síðustu komst ég hins vegar yfir sjálfsævisögu Hans B. Thorgrímsen sem fæddist í Húsinu árið 1853. Í henni greinir Hans frá því að það hafi verið píanó í húsinu þegar hann ólst þar upp. Þegar ég las þennan texta séra Hans B. Thorgrímsen fyrst fyrir 20 árum gerði ég einfaldlega ráð fyrir því að það píanó væri ekki lengur til.

Enn líður tíminn og um miðjan maí á þessu ári fæ ég upphringingu frá Glúmi Gylfasyni, gömlum kennara mínum og organista Selfosskirkju, sem sagði mér gamla sögu frá því þegar hann hitti Skúla Helgason fyrsta safn-vörð Byggðasafnsins á Selfossi árið 1967. Glúmur, þá kornungur, leigði hjá Kristni Vigfússyni húsasmíðameistara og þangað kom Skúli stundum í heimsókn. Hann gisti hjá Kristni sem hafði verið formaður stjórnar Byggðasafns Árnesinga. Skúli fór þá að nefna við Glúm píanó sem hefði verið í Húsinu en væri í eigu ömmu hans og þurfti ekki lengi að spyrja, því að á það hafði Glúmur æft sig vikulega sem barn á leið í spilatíma.

Lang- amma og afi Glúms, Helga Friðrikka Vigfúsdóttir og Siggeir Torfa-son, kynntust í Húsinu árið 1887.  Siggeir hafði komið til Eyrarbakka árið 1883 og var verslunarþjónn. Helga var systurdóttir Sylvíu Thorgrímsen húsfreyjunnar og í Húsið komin til að læra verklag kvenna af standi höndlunarfólks og kallaðist stuepige. Það er í Húsinu á Eyrarbakka því gamla húsi að ástir Helgu og Siggeirs kviknuðu. Þau giftust og fluttu til Þorlákshafnar þar sem Siggeir vann í verslun Jóns Árnasonar. Á þeim tíma var nýrra píanóið komið í Húsið og fengu Helga og Siggeir gamla píanóið. Hvort það var gefið eða þau keypt, það vitum við ekki og í sögunnar glat-kistu komið. Eftir Helgu og Siggeir eignaðist elsta dóttir þeirra Sigríður hljóðfærið og átti það lengi. En aftur að Byggðasafni Árnesinga.

Skúla Helgasyni safnverði Byggðasafns Árnesinga tókst með þrautseigju að útvega safninu píanóið sem er í stássstofunni, píanó númer tvö, fagran grip Hornung&Möller smíðað í janúar 1871. En Skúla fannst það ekki nóg og vildi eignast píanó númer eitt. Skúli talaði við Sigríði Siggeirsdóttur, það hefur verið um 1967, ef til vill fyrr, en píanóið var ekki falt. Skúli Helgason safnvörður nefndi í samtali við Glúm þetta gamla píanó og bað hann að tala við ömmu sína, reyna koma vitinu fyrir hana, en Glúmur eyddi talinu og var næstum búinn að gleyma þessu þar til vorið 2020 að hann rifjar upp þessi samskipti við Skúla og hefur samband við mig safn-stjóra Byggðasafns Árnesinga.

Við Glúmur vorum sammála um að nú væri athugandi að kanna hvort nú væri rétti tíminn til að kanna hvort píanóið gæti farið á sinn upprunalega stað. Og það gekk eftir, þökk sé gjafmildi Höllu Helgadóttur og systkina hennar Birnu, Tryggva og Kristbjörns.

Eins og áður segir eignaðist Sigríður Siggeirsdóttir píanóið eftir foreldra sína. Sonur hennar Sigurður Gunnarsson eignast það síðan. Síðan dóttir hans Sigríður Sigurðardóttir. Þá eignast hljóðfærið dóttir Sigríðar, Birna Helgadóttir og notaði það um skeið. Og að lokum Halla Helgadóttir systir Birnu sem ásamt systkinum sínum ákváðu að píanóið skuli aftur í Húsið á Eyrarbakka og fært Byggðasafni Árnesinga að gjöf.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um varðveislugildi þessa píanós. Húsið sem var miðstöð tónlistarmenningar á 19. öld eftir að þangað fluttu hjónin Sylvía og Guðmundur Thorgrímsen árið 1847 og unnu hér í þágu Lefolii kaupmanns í fjóra áratugi. Þar voru tónlist og söngur í hávegum höfð á þeirra tíma og tónlistarmenningin breiddist út um allt héraðið. Í stofu Hússins hefur verið spilað á píanó, og efnilegum héraðsbúum kennt. Þangað kom Bjarni Pálsson frá Syðra-Seli á 9. áratug þarsíðustu aldar, lærði hér á píanó af Sylvíu og einni dóttur hennar sem líka hét Sylvía. Bjarni kenndi svo bræðrum sínum og þeir héldu uppi öflugu tónlistarlífi í Stokkseyrarhreppi hinum forna og var sagt að hvergi á landinu væri tón-listarlíf eins öflugt og í lágsveitum Árnessýslu. Og þetta byrjar allt með Sylvíu Thorgrímsen og þessu merka hljóðfæri. Þegar Glúmur vann að rímuðum annálsvef áranna 1550-1950 (annálsvert.is) og kom að því hörmulega slysi þegar fyrrnefndur Bjarni Pálson og fimm aðrir drukknuðu í lendingu við Þorlákshöfn 1887, varð Bjarni maður þess árs á vefsíðunni. Við þetta rifjaðist píanóið upp og atburðarásin fór af stað.

Þegar ég leit píanóið fyrst augum 28. maí síðastliðinn á heimili Höllu Helgadóttur leitaði ég upp raðnúmer þess. Jú það hefur raðnúmerið 8048. Píanósmiðurinn var Charles Cadby í London. Ég leitaði á netinu og varð fyrstu engu nær um mögulegt smíðaár gripsins. En fann loks síðuna pianohistory.info, þar fann ég undirsíðuna ‚numbers‘ og viti menn, höf-undur síðunnar telur Cadby píanó með númerunum 8000 vera frá árinu 1855 – en setur þó spurningarmerki við. Ég skrifaði umsjónarmanni og höfundi síðunnar fyrirspurn og sendi ljósmyndir með. Hann taldi hljóðfærið vel geta verið frá 1855, honum leist vel á gripinn, búið að skipta um pluss á framhlið og komnir nýir pedalar eflaust betri en þeir sem fyrir voru. Það gæti hafa gerst árið 1930 þegar píanóviðgerðarmaður fer höndum um gripinn samkvæmt litlu skilti sem finna má í því.

Píanóið er í hópi elstu píanóa landsins. Það voru átta slík hljóðfæri í Reykjavík árið 1845 og hefur þótt stofuprýði á heimilum efnaðs fólks. Dr. Bjarki Sveinbjörnsson telur líklegt að þetta píanó sé það fyrsta sem farið hafi á heimili utan Reykjavíkur.

Nú eru píanóin í Húsinu því orðin tvö. Það eldra er reyndar pínu falskt, en það er vel hægt að spila á það hentuga tónlist og við móttöku píanósins 21. júní sl. spiluðu Glúmur Gylfason og barnabarn hans, Íris Dudsjak, Entertainer eftir Scott Joblin.

Lýður Pálsson

safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.

 

Nýjar fréttir