4.5 C
Selfoss

Jólahugleiðing

Vinsælast

Aðventan er gengin í garð og það líður að jólum.

Jólin tala til okkar með ólíkum hætti og hreyfa við okkur á misjafnan hátt. Aðstæður okkar í lífinu eru ekki heldur þær sömu. Fyrir suma eru jólin kærkomin, fyrir aðra eru þau viðkvæm stund, jafnvel sár. Jólin slá á alla mannlega strengi.

Gleði og sorg, hamingja og vonbrigði, eftirvænting og kvíði, auður og fátækt, sigur og niðurbrot, líf og dauða. Allt eru þetta stef í jólaguðspjallinu sem tala til okkar með ólíkum hætti.

En jólin koma samt alltaf helg og hljóð, til okkar allra, hvers og eins, óháð því hvað okkur finnst um þau, óháð því hvernig stendur á hjá okkur og óháð því hvar við erum stödd í lífinu.

Og þegar allt kemur til alls er erindið alltaf það sama. Von!

Jólin flytja okkur boðskap vonar. Ekkert eitt orð fangar veruleika og boðskap þeirra betur. Vegna þess að sá Guð sem er skapari alls alheimsins, orsök og uppspretta lífsins og tilverunnar, hefur stigið á sviðið. Hann er orðin hluti af sögunni sem er líf okkar allra. Maður þarf virkilega að íhuga það og hugsa um það.

Ef maður gerir sér raunverulega grein fyrir því hvað og hver Guð er þá byrjar maður að átta sig á því hversu stóra frétt og ótrúlegan boðskap jólin fela í sér: Guð, orsök og uppspretta lífsins, er ekki fjarlægur og afskiptalaus. Honum stendur ekki á sama um mig, um okkur, um líf okkar, og þann vanda sem er fólgin í því að vera manneskja. Þvert á móti.

Guð er með öðrum orðum ekki fjarlægur og afskiptalaus, þótt mörgum finnist margt benda til þess. Honum stendur ekki á sama um mig, um okkur, um líf okkar, og þann vanda sem er fólgin í því að vera manneskja. Þvert á móti.

Guð skipar sér svo þétt við hlið okkar að hann gerist hreinlega einn af okkur – í barninu Jesú. En hann kemur ekki með valdi og látum, hvorki í mætti né dýrð, – eins og maður hefði kannski haldið – heldur í varnarleysi, hjálparleysi og umkomuleysi. Hann tekur sér stöðu með okkur í okkar veikustu og viðkvæmustu aðstæðum, ef svo má segja.

Fæðing Jesú er leið Guðs til þess byggja þennan heim, og líf okkar, upp að nýju, til þess að rétta okkur hönd sína og gera kærleika sinn til okkar áþreifanlegan og raunverulegan. Það er veruleikinn á bak við jólin.

Jólin segja okkur að raunverulegur friður er mögulegur og handan við hornið. Fæðing Jesú, koma Guðs inn í þennan brotna heim, er leið Guðs til þess byggja hann upp að nýju, til þess að rétta okkur hönd sína og gera kærleika sinn til okkar áþreifanlegan. Friður við Guð, samfélag við Guð, líf með Guði! Hér og nú. Og ef við finnum frið í Guði og líf með honum, þá getum við líka skapað frið okkar á milli, við annað fólk.

En það er eitt að segja þetta.

Ég veit ekki hvað jólin segja þér, hvernig þau snerta við þér og hvaða hugsanir og tilfinn-ingar þau vekja með þér þar sem þú ert á þinni leið í gegnum lífið.

En hitt veit ég að hið nútímalega vestræna samfélag einkennist í vaxandi mæli af vantrú og efa, einstaklings- og afstæðishyggju. Hugsunarhátturinn sem mótar hinn nútímalega mann er sífellt að verða lokaðri fyrir því að eitthvað geti verið til umfram dautt efnið og hin blindu náttúruöfl. Menningin og umhverfið þjálfar okkur snemma í að sjá ekkert handan þess, að trúa ekki á hið yfirnáttúrulega. Þeir þröskuldar sem þarf að yfirstíga í dag til þess að trúa á veruleika jólanna eru stórir.

En það er hægt.

María og Jósef voru hugsi yfir því sem gerðist. Þau efuðust, þau hugsuðu, spurðu og beittu skynsemi sinni – rétt eins og við verðum að gera í dag. Munum að efi getur líka opnað dyr, opnað á möguleikana.

Ég hef oftar en einu sinni verið spurður að því hvað gerðist í raun og veru í Betlehem.

Það er stóra spurningin!

Frásagnir guðspjallanna af fæðingu Jesú og öllu í kringum hana eru magnaðar og heillandi á svo margvíslegan hátt.

Sem kristinn maður efast ég ekki um að fæðingu Jesú bar að með þeim hætti sem guðspjöllin greina frá. Sjónarhornið breytist frá einu guðspjalli til annars og áhersluatriðin líka. En kjarninn í hinni sögulegu frásögn er í öllum höfuðdráttum býsna skýr, allt frá hinum yfirnáttúrulega getnaði, til ferðalagsins frá Nasaret til Betlehem og fæðingarinnar sjálfrar í fjárhúsinu.

En ég vanmet það ekki að frásögn guðspjallanna er ekki eingöngu sagnfræði. Hún er ekki minna en það, en hún er líka stærri og meira en svo.

En allt sem kemur fyrir í jólaguðspjallinu bendir hins vegar í sömu átt og áréttar það sama, sýnir það sama: Guð sem kemur til okkar, Guð sem er með okkur. Immanúel!

Hún sagði það vel litla stúlkan sem lék gistihúsaeigandann í helgileiknum! Loksins var komið að henni að vera með. Og hún var svo spennt og svo stressuð að hún gleymdi alveg línunum sínum þegar María og Jósef, dauðþreytt og lúin, bönkuðu uppá og báðu um gistingu. Já, já! sagði hún brosandi. Að sjálfsögðu er nóg pláss. Komdu bara inn fyrir. Þú ert meira en velkomin. Finndu þér bara rúm sem hentar.

Þegar allt kemur til alls krefja jólin okkur ekki um annað en þetta. Um opið og viljugt hjarta sem hefur pláss.

Ég vona að þú finnir með þínum hætti þá ró og helgi sem jólin geta fært hverjum og einum.  Ég held að fæst okkar lifum lífinu staðfastlega í því ljósi að ekki sé meira fólgið í sögu lífsins en það sem hægt er að tjá með formúlum vísindanna. Og við vitum öll með okkar hætti að áskoranirnar sem maðurinn mætir í lífinu eru slíkar að við þurfum mótvægi og athvarf og það finnum við hvert og eitt þó með ólíkum hætti sé.

Og á bak við hverja lífsskoðun, af hvaða toga sem hún er, er að finna svör okkar við hinum stóru spurningum um uppruna, gildi, merkingu og tilgang tilverunnar. Í jólunum, í vonarboðskap kristinnar trúar, mætast svörin við öllum þessum spurningum.

Ég óska þér og þínum gleðilegrar aðventu og jólahátíðar í Guðs friði.

Gunnar Jóhannesson, prestur í Selfosskirkju.

Nýjar fréttir