8.9 C
Selfoss

Jesú, María, Jósep og hauslausi asninn

Vinsælast

Mig langar að segja ykkur söguna af Maríu og Jósep. Ekki beint þessum einu sönnu sem við getum endalaust rifist um hvort eru sönn eða ekki. Heldur styttu af þeim. Nú man ég ekki alveg hvort er ennþá bannað að reisa skurðgoð af fígúrum úr Biblíunni, ef svo er bið ég afsökunar ef þetta kemur illa við. En sagan er svona:

Í eigu fjölskyldu minnar hefur í fjölda ára verið stytta af Maríu og Jósep. Þau hljóta að vera á leiðinni heim úr lambhúsinu því María heldur á barninu en Jósep teymir asnann. En það er fleira við styttuna. Við vitum ekki hvort það er framleiðslugalli, hvort sá sem á sínum tíma keypti hana var sjóndapur eða hvort hún hafi orðið fyrir barðinu á einhverju á háaloftinu hjá okkur. En bæði María og Jesúbarnið eru áberandi krímótt í framan. Hún er eiginlega skeggjuð. Og blessað barnið er eins og það hafi komist í kolakassann.

Nú er ekkert ómögulegt að þau hafi einmitt verið dálítið kámug eftir atganginn þarna í fjárhúsinu. Mér er til efs að þar hafi verið rennandi vatn og svo var óskapar gestagangur þarna alveg í upphafi. Vel má vera að styttan okkar sé raunsannari en margar aðrar og María hafi ekki komist í að strjúka framan úr sér og krakkanum og Jósep auðvitað upptekinn við að taka á móti fólki. Annað eins hefur nú gerst fyrir jólin.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að þessi stytta er frekar óskemmtilegt stáss. Á hverju ári þegar hún kemur uppúr skrautkassanum vonum við að hún hafi brotnað, en tökum henni þó af sönnum jólafögnuði. Því leikurinn snýst auðvitað fyrst og fremst um að finna henni stað. Eins og til dæmis undir sjónvarpsborðinu á bakvið dúkinn. Eða fyrir ofan kompuhurðina þar sem hún liggur í leyni og hrellir fólk ekki fyrr en það er sest á kamarinn og lítur uppúr símanum. Hversu skítug og hvimleið sem þau kunna að vera þá er nefnilega fátt jólaskraut sem færir mér eins mikla gleði, þegar á allt (og framhjá styttunni) er litið.

Ég kann aðra sögu um sanna jólagleði. Fyrir mörgum snýst sólstöðuhátíðin um fæðingu barns og þegar ég var fimm ára var raunin sannarlega sú. Barnið í brennidepli var þó ekki óskilgetinn guðsson heldur litli bróðir minn, sem fæddist þá um sumarið. Sá krókur beygðist snemma að hann væri rólegri fyrir jólahátíðinni en ég, enda seinþreyttur til vandræða. Þessi fyrstu jól lét hann að mestu framhjá sér fara að öðru leyti en því að hann varð undarlega bláleitur í framan eftir að hafa nagað gat á einn pakkann.

Hið sama er ekki hægt að segja um mig. Ég þjáðist – og þjáist enn – af jólabrjálæði. Mér finnst yfirleitt best að hlutir gerist tafarlaust og því desemberafplánunin löng. Líklega hef ég verið húsmæðrunum á bænum til töluverðs trafala þar sem þær börðust við að koma þessu hefðbundna af samhliða sæðingum og hrútayfirsetum. Að minnsta kosti brá amma á það ráð að gefa mér rúllu af jólapappír ásamt einhverju smálegu til að pakka inn handa litla bróður.

Þetta var auðsótt mál, en fljótafgreitt. Pakkinn var tilbúinn en nóg eftir á rúllunni svo mér þótti liggja í augum uppi að útbúa aðeins fleiri pakka. Hver vill ekki fá marga pakka á aðfangadag? Við vorum auðvitað utan alfaraleiðar og heimtur á pöntunum mínum úr Kaupfélaginu höfðu aldrei verið sérstaklega góðar. Brá ég þessvegna á það ráð að pakka inn ýmsu lauslegu, leikföngum sem ég var hætt að nota, pennum, þvottaklemmum, brotnum litum og svona bara því sem hendinni var næst. Gjafahrúgan hækkaði óðfluga og ég taldi mig vera réttu megin við jólaandann þetta árið.

Á aðfangadagskvöld gekk ég minn venjulega berskerksgang, en mamma sat uppi með að opna pakkana fyrir ungbarnið. Fyrst voru klasturslega innpakkaðar gjafirnar dálítið fyndnar, síðan urðu þær þreytandi, og þegar úr einum pakkanum kom hauslaus gúmmíasni sem mátti muna sinn fífil fegurri var þeim nóg boðið.

Og hver er boðskapurinn hér annar en sá að ég sé frekar einkennileg þegar kemur að jólum? Jú ég hugsa stundum um þetta gamla dót þegar ég horfi yfir plastfjöllin og umbúðaflóðið á aðfangadagskvöld. Hvernig skítugar styttur og hauslausir asnar geta orðið að eftirminnilegustu og jafnvel bestu jólagjöfunum.

Ég held það sé löngu ljóst að mannkynið er búið að kaupa nóg. Það er að minnsta kosti á tæru að við kaupum meira en við þurfum. Mér þykir fátt skemmtilegra en að fá og gefa jólagjafir en mér þykir líka fátt skemmtilegra en gamalt dót. Þessvegna velti ég fyrir mér hvort það gæti verið gaman að hafa jól þar sem í pökkunum er ekkert plast, ekkert dýrt og ekkert fínt. Heldur eitthvað gamalt, eitthvað með sál og sögu sem vonandi nær að lifa á milli hátíða. En ég er jú frekar einkennileg þegar kemur að jólum…

Nýjar fréttir