12.8 C
Selfoss

Flóamannabók á flugi

Vinsælast

Út er komin Flóamannabók í 2 bindum eftir Jón M. Ívarsson sagnfræðing frá Vorsabæjarhóli.

Þetta er mikið verk, samtals rúmar þúsund blaðsíður. Meira en tvö þúsund myndir eru í bókinni, margar í lit. Þar er umfjöllun um jarðirnar, sögu þeirra, legu  og örnefni.

Í þessum bindum er tekinn fyrir gamli Hraungerðishreppurinn. Öllum býlum eru gerð þau skil að ábúendur á 18. öld eru taldir upp án frekari umfjöllunar. Frá aldamótum 1800 eru öllum heimilum gerð þau skil, að gerð er grein fyrir hverjum og einum húsráðanda, fæðingardegi og dánardegi látins, ætt og uppruna hans og maka hans. Talin eru upp börn ábúenda og gerð grein fyrir afdrifum þeirra. Síðan er umfjöllun um búskaparhætti, viðfangsefni og lífshlaup þeirra sem áttu húsum að ráða. Óhætt er að fullyrða að engin sveit á Íslandi hefur fengið jafn ítarlega sögu og Hraungerðishreppurinn í þessari ágætu bók.

Fjallað er um félög og félagsstarfsemi í sveitinni, Flóaáveituna, kirkjurnar, félagsheimilin og skólann. Taldir upp prestar, organistar, kennarar og aðrir sem að starfseminni hafa komið.

Geysimikinn fróðleik er að finna í bókinni um líf og störf fólksins gegnum þykkt og þunnt, fátæktarbasl og betri tíma og er hún sérlega áhugaverð, ekki síst fyrir þá sem eiga ættir sínar að rekja í Hraungerðishreppinn eða hafa tengst honum á einhvern hátt.

Ógrynni mynda eru í bókinni, gamlar og nýjar, langflestar af fólki, og svo af bæjum og  vettvangi daganna. Kápusíður prýða yfirlitsmyndir yfir Hraungerðishrepp teknar úr lofti af Mats Wibe Lund.

Bókina er  hægt að fá hjá höfundi, sjá vefsíðuna Flóamannabók, ritnefndarmönnum, þeim Guðmundi Stefánssyni, Víðivöllum 9, Selfossi, sími 899 9623,  Þórdísi Kristjánsdóttur, Tjaldhólum 58, Selfossi, sími 898 1913,  Guðrúnu Tryggvadóttur, Grenigrund 42, sími 894 4448. Auk þess fæst bókin hjá Bjarna Harðarsyni í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi og í Reykjavík.

 

Guðmundur Stefánsson

Nýjar fréttir