8.9 C
Selfoss

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar samþykkt – til varnar samfélaginu

Vinsælast

Í fréttatilkynningu frá Sveitarfélaginu Árborg segir: Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti fjárhagsáætlun 2021-2024 á fundi sínum þann 16. desember síðastliðinn að lokinni síðari umræðu.

Fjárhagsáætlun ársins 2021 sýnir að sveitarfélagið skorast ekki undan þeirri félagslegu áskorun sem núverandi kreppa leiðir af sér og er í áætluninni gert ráð fyrir nauðsynlegum viðbrögðum vegna þessa. Fjárfestingaáætlun Svf. Árborg ber þess glögglega merki að bæjarstjórn mun áfram sækja fram í þágu samfélagsins og hlýða jafnframt ákalli ríkisstjórnar Íslands um að vinna gegn efnahagskreppu með fjárfestingarframkvæmdum..

Það er ljóst að verkefni sveitarfélagsins eru ærin og að róðurinn þyngist mjög vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19. Sveitarfélagið hefur vaxið að íbúafjölda um 25% frá árinu 2017. Uppbygging vegna fræðslumála, félagsmála og íþróttaiðkunar hefur því reynt mjög á, enda eru þetta þættir sem við viljum leggja mikla áherslu á að séu til fyrirmyndar í Árborg. Allir þessir þættir hafa orðið mun kostnaðarsamari vegna Covid-19 auk þess sem tekjutap hefur orðið.

Þrátt fyrir þessi snúnu viðfangsefni er rekstrarhalli af samstæðu sveitarfélagsins minni en á horfði í fyrstu. Með talsverðri vinnu og aðhaldsákvörðunum milli umræðna var halli ársins 2021 í áætlun minnkaður úr 842 milljónum niður í 449 milljónir. Niðurstaðan er því 3,5% halli sem er jafnvel heldur minna en í sambærilegum sveitarfélögum.

Slíkur halli, ef hann raungerist, er engu að síður áhyggjuefni. Það eru góðar líkur á að útsvarstekjur og tekjur úr Jöfnunarsjóði verði mun meiri en áætlun gerir nú ráð fyrir. Vegna mikillar íbúafjölgunar í Árborg og kreppuástands í efnahag landsin hefur reynst erfiðleikum bundið að gera áreiðanlegar spár um þessa lykiltekjuþætti sveitarfélagsins. Horfur eru á að sú mynd skýrist á næstu vikum og er vonast til að leiðrétta megi fjárhagsáætlun ársins 2021 í upphafi árs,  jafnvel þannig að hún verði hallalaus.

Þrátt fyrir niðurstöðu fjárhagsáætlun 2021 þá er það rekstur ársins og uppgjör í ársreikningi sem öllu máli skiptir. Það er því áríðandi verkefni bæjarstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins að vinna vel eftir þeirri aðhaldsáætlun sem samþykkt hefur verið og tryggja sem bestan rekstur um leið og áfram verður lögð áhersla á að byggja enn frekar upp það menningar- og velferðarsamfélag sem við viljum sjá í Árborg.

Nýjar fréttir