-0.5 C
Selfoss

Við gerðum okkar besta

Vinsælast

Hefði ég  viljað missa af þessu ári?  Þessa spurningu heyrði ég þjóðkunnan skemmtikraft spyrja sig að  nýlega og vísaði hann þar til þessa sérkennilega árs og þeirra undarlegu tíma sem við nú lifum.

Ég er sannfærð um það að þegar við lítum í baksýnisspegilinn, þegar nokkuð verður um liðið og við rifjum upp árið 2020, þá mun fjölmargt lifa í minningunni.  Við munum minnast ársins þegar við öll lærðum að bíða í röð. Við munum minnast ársins þegar við gengum um með grímur á almannafæri og hættum að heilsa fólki með handabandi og faðmlagi.    Við munum minnast ársins þegar við hættum að aka langar leiðir á fundi og fórum að halda þá í tölvunni í staðinn og við munum minnast þess þegar við vorum eiginlega alltaf heima.   Allt eitthvað sem við fyrir örfáum mánuðum hefðum talið algjörlega óhugsandi.  En við munum einnig muna eftir því þegar við ferðuðumst um landið okkar í yndislegu veðri og gátum notið fallegra staða og afþreyingar innanlands. Við munum líka rifja það upp að ríkisstjórnin gaf okkur öllum pening til að við gætum notið þess besta sem íslensk ferðaþjónusta býður.

Fyrst og síðast munum við rifja upp hvernig við sem þjóð brugðumst við þeirri vá sem yfir heimsbyggðina dundi.  Við stóðum nefnilega saman og við gerðum það sem fyrir okkur var lagt.
Þessi oft á tíðum þvermóðskufulla, þrjóska og sjálfstæða þjóð ákvað í sameiningu að hlýða, möglunarlaust, að mestu.  Það er afrek. Það er ekki afrek eins manns eða örfárra.  Það er afrek allra, allrar þjóðarinnar.  Við sáum nefnilega fljótt að saman gætum við lyft grettistaki. Að saman gætum við verndað þá sem veikastir voru fyrir og viðkvæmastir.  Við ákváðum að vernda heilbrigðiskerfið þannig að það gæti hugsað um þá sem þyrftu á því að halda, þegar þeir þyrftu á því að halda.   Þeim sem veiktust var því hægt að sinna og slegin var skjaldborg umhyggju utan um þá sem misstu ástvini.

Ég er örugglega ekki sú eina sem er stolt af þjóðinni.  Ég er stolt af þeim hópi sem byggir eyjuna okkar fögru.  Það hefur ekkert með þjóðrembu að gera. Margar aðrar þjóðir hafa líka staðið sig vel.  Mér finnst bara nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að við höfum staðið okkur vel.  Því vil ég þakka öllum þeim sem staðið hafa vaktina.  Heilbrigðisstarfsmönnum, þeim sem sinnt hafa þeim yngstu og þeim elstu og öðrum sem þurft hafa á aðstoð að halda af ýmsum ástæðum. Reyndar er listinn langur yfir þá sem ég myndi vilja hrósa því í raun hafa allir lagt hér hönd á plóg.   Ég sit því hér og sendi þakkir út í alheiminn til handa ykkur öllum og vona að með bóluefni og nýju ári munum við sjá fram á betri tíma.

En hefði ég viljað missa af þessu ári?  Jú ég hefði nú reyndar alveg viljað sleppa því svona að mestu leyti.  Þó vona ég að ég muni draga djúpan lærdóm af þessari reynslu. Það hefur óneitanlega hægst verulega á samfélaginu.  Maður getur spurt sig hvort það hafi ekki verið nauðsynlegt.  Vorum við ekki komin aðeins út af sporinu og vorum við kannski ekki aðeins of öflug í kapphlaupinu?  Kannski mun þetta ár kenna okkur að við þurfum ekki að hlaupa eins hratt og við héldum?

Ég hef þá trú að með nýju ári, nýrri vitneskju og reynslu, muni samfélagið taka við sér.  Hratt vonandi og örugglega munum við sjá fyrirtækin, hótelin og veitingastaðina blómstra á ný.  Fólk mun aftur mæta til vinnu og ferðamenn munu koma til landsins.  Við munum sækja tónleika og  leikhús og við munum örugglega aftur komast til útlanda.  En um leið og ég veit að þetta mun allt aftur birtast í okkar lífi þá vona ég líka að við kunnum kannski aðeins betur að njóta þess sem lífið færir.  Að við njótum áfram góðra stunda í rólegheitum með þeim sem okkur eru kærastir.  Að við njótum þess að fara út að ganga, klífa fjöll og horfa á sólarupprásina.

Ég vona að þetta ár hafi kennt okkur gildi eins og samkennd, umhyggju, tillitsemi og gleði yfir hinu smáa.  Gildi sem við getum yfirfært á svo margt annað í okkar samfélagi með það fyrir augum að gera það enn betra.   Þessi gildi getum við nefnilega líka gert að okkar leiðarljósi varðandi umgengni við náttúruna og í öllum samskiptum okkar við annað fólk.

Jú ég hefði alveg örugglega viljað sleppa við þetta ár og margt að því sem gerst hefur en ég held líka að ég hafi lært alveg ótrúlega mikið og er örugglega ekki ein um það.  Þannig vona ég þegar upp er staðið geri atburðir ársins 2020 okkur að betri manneskjum og að samfélagið okkar standi sterkar á eftir.  Ef svo er þá var sá lærdómur sem við getum dregið af atburðum þessa sérkennilega árs vonandi mikils virði.

Ég óska lesendum Dagskrárinnar yndislegrar aðventu og gleðiríkrar jólahátíðar.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri Hveragerðisbæjar

 

Nýjar fréttir