7.3 C
Selfoss

Ég las jólanóttina út eins og sjálfsagt margir hafa gert

Vinsælast

Valgerður Sævarsdóttir er fædd í Vestmannaeyjum en alin upp á Rauðalæk í Holtum. Hún bjó lengi á Selfossi en í rúm fimmtán ár hefur hún búið ásamt eiginmanni sínum Halldóri Páli Halldórssyni í Garði á Laugarvatni. Börnin eru fjögur og öll farin að heiman, tengdabörnin þrjú og barnabörnin fimm. Valgerður er bókasafns- og upplýsingafræðingur og segist dvelja í draumastarfinu sem forstöðumaður bókasafns Menntaskólans að Laugarvatni en bætir við „að því miður fari lítið fyrir því að nemendur ML séu sýnilegir á safninu þessa dagana út af dottlu og ég sakna þeirra mikið. Nota þetta tækifæri til að senda ML-ingum kærleikskveðjur.” Annars er hún bókaormur með útivistaráráttu, sveitarstjórnarmaður, kvenfélagskona og áreiðanlega eitthvað fleira.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Á náttborðinu mínu eru yfirleitt nokkrar bækur. Sumar les ég í einum rykk en aðrar liggja lengur. Les svolítið eftir skapi, jafnvel veðri og árstíma. Núna eru þar mislangt komnar í lestri – Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noha sem er búin að liggja svolítið lengi, en ég ætla að ljúka við hana. Hvítt haf eftir Roy Jacobsen, Ættarfylgjan eftir Nina Wähä. Draumsverð eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Þessar fá að bíða aðeins núna meðan ég einbeiti mér að nýútkomnum bókum. Les núna Yfir bænum heima eftir Krístínu Steinsdóttur. Þá sem er næst í röðinni hlakka ég ákaflega til að opna. Er svolítið að spara hana, svona líkt og að eiga besta konfektmolann til að njóta. En það er nýja bókin hans Jóns Kalmans, Fjarvera þín er myrkur. Svo er þar bókin Klettaborgin eftir Sólveigu Pálsdóttur sem ég hlakka líka til að lesa.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég les mikið af skáldsögum en lítið af ævisögum. Nýjar íslenskar skáldsögur eru í uppáhaldi og ég hlakka alltaf mikið til jólabókaútgáfunnar þess vegna. En ég les líka mikið af skandinavískum skáldsögum, enskum og alls konar. Stundum dett ég á bólakaf í krimma, stundum les ég Guðrúnu frá Lundi eins og enginn sé morgundagurinn.

Skipta jólin einhverju máli í bóklestri þínum?

Ég les um jólin en kannski ekkert meira en venjulega. En þó eru alltaf einhverjar þessara nýútkomnu á borðinu mínu. Ég náttúrlega bý svo vel að hafa heilt bókasafn undir og skortir því aldrei lesefni árið um kring.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég hef lesið frá því ég man eftir mér. Það var mikið lesið heima hjá mér og fyrir mig og ég varð mjög ung læs og sílesandi. Á tímabili held ég að ég hafi ekki sést nema með bók í hönd. Ég man nú ekki eftir uppáhaldsbók, en man að þegar ég var rétt undir fermingu fór höfundakynslóðin sem stundum er sögð vera fyndin að skrifa bækur og þá voru jólin hjá mér unglingnum. Gleymi aldrei hvað mér fannst þessar bækur æðislega spennandi, forvitnilegar og öðruvísi. Seinna lærði ég að þetta sem heillaði mig alveg upp úr skónum héti nýraunsæi.

Áttu þér minningu um bókajól í bernsku?

Bernskujól og bækur er nokkuð samofin. Ég fékk alltaf nokkrar bækur í jólagjöf og las jólanóttina út eins og sjálfsagt margir sem eru á svipuðum aldri og ég. Vonandi eru ennþá margir sem lauma vasaljósi undir sængina og lesa eftir að ljós eru slökkt og hafa eitthvað jólagotterý til að maula við rúmstokkinn. Hjá mér voru það loftkökur, mömmukökur og mjólkurglas. Og það þarf ekki að segja það, en að sjálfsögðu var lesið alla nóttina helst. Alla vega þangað til bókin var búin – og jafnvel fleiri en ein.

En hvernigyndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég er frekar hraðlæs og les á ólíklegustu stöðum. Stundum finnast bækurnar mínar þar sem engum myndi detta í hug að leggja bók frá sér. Undantekningalítið les ég áður en ég fer að sofa, kvöldin eru mínir helstu lestrartímar. Ég horfi lítið á sjónvarp. Hef aldrei komist upp á lag með Netflix og líklega er mitt heimili eitt það síðasta á landinu sem er tengt sjónvarpi með loftneti. Skortur á sjónvarpsefni plagar mig ekkert því ég kýs svo miklu heldur að að ná í bókina mína og lesa þangað til augnlokin fara að síga – með aldrinum hef ég orðið fáránlega kvöldsvæf.

Manstu eftir einhverri sérstakri bók sem þú fékkst í jólagjöf?

Ég man eftir nokkrum bókum sem ég varð hugfangin af í bernsku. Man eftir þegar ég fékk í jólagjöf Átta börn og amma þeirra í skóginum. Mér fannst hún frábær. SaltkrákubækurnarSnædrottingin, Sagan hans Hjalta litla og fleiri bækur koma upp í hugann á þessum tíma.

En hvað með uppáhaldshöfund?

Það er frekar að ég eigi tímabundnar uppáhaldsbækur og get orðið ákaflega hrifin af höfundi á þeim tíma sem ég er að lesa bækur hans. Jón Kalmann heillaði mig algjörlega á tímabili, toppaði með H-þríleiknum. Auður Ava – Rigning í nóvember og Upphækkuð jörð náðu mér alveg og síðan hef ég lesið bækurnar hennar af áfergju. Ef ég hugsa í fljótheitum um minnisstæðar bækur  þá koma upp í hugann Sextíu kíló af sólskini, Svínshöfuð, Eldum björn, Hin ósýnilegu og fleiri og fleiri. Stundum verð ég afar sorgmædd þegar ég hef lokið við bækur eins og þessar sem ég hef nefnt vegna þess að ég óska að ég væri að byrja að lesa þær. Venjulega les ég ekki bækur oftar en einu sinni, með einni undantekningu. Aðventu Gunnars Gunnarssonar les ég á hverri aðventu.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ójá, svo mörgum sinnum. Ég hef hreinlega gleymt að fara að sofa og svo er allt í einu kominn morgun. Það er ekki gott fyrir daginn sem er framundan. En eftir því sem ég hef orðið eldri og kvöldsvæfari kemur þetta sjaldnar fyrir.

En áttar þú þig á hvernig bækur þú myndir skrifa ef þú væri rithöfundur?

Ég held að mig langi ekkert til að vera rithöfundur. Ég hef prófað að setja orð á blað en ekki fundist það gott. Held að ég sé ágætur lesandi og ætla að halda mig við það.

 

En að lokum Valgerður, eru til jól án bóka?

Nei það eru engin jól án bóka, svo einfalt er það.

 

___________________________________

Lestrarhestur númer 105. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

 

 

Nýjar fréttir