6.1 C
Selfoss

Skemmtilegar hugmyndir að hreyfingu án þess að stíga fæti inní ræktina

Vinsælast

Ræktin og skipulögð hreyfing, liggur niðri. Engar áhyggjur, það eru ótalmargar skemmtilegar leiðir til að viðhalda hreyfingu inní rútínunni. Hér fyrir neðan sérðu margar hugmyndir sem ég vona að þú getir nýtt þér á þessum skrítnu tímum.

  1. Taktu snögga heimaæfingu!

HiiTFiT æfingar eru frábær leið til þess að halda líkamanum sterkum án þess að fara út úr húsi. Þær eru allar undir 30 mín og taka því ekki of mikinn tíma frá þér. Fáðu hugmyndir inná www.hiitfit.is

  1. Nýttu fallegar gönguleiðir í náttúrunni!

Þú getur tekið fjölskylduna með þér í lengri dagsferð en þú getur líka ákveðið að nota fjallshlíðina sem þitt hlaupabretti þegar þú hefur tíma til og við mælum sérstaklega með því að njóta kvöldsólarinnar og kyrrðarinnar í einhverri fjallshlíðinni.

Þá gæti verið sniðugt að ákveða að taka reglulega sömu leiðina, hafa ákveðinn stað sem viðmið, til dæmis einhvern stein, vörðu eða tré, sem þú gengur upp að hverju sinni og tekur tímann. Þannig geturðu fylgst með bætingu á tímanum eins og þú værir að gera ef þú reglulega myndir hlaupa sömu vegalengdina. Þú getur fundið ótal skemmtilegar gönguleiðir út um allt land á síðunni gonguleidir.is.

  1. Hreyfum okkur með börnunum

Það þarf ekki alltaf að vera annaðhvort eða! Það að hlaupa í skemmtilegan leik með börnunum okkar og gefa þetta litla extra í orkunni getur náð púlsinum vel upp og virkað sem æfing þess dags! Fyrir utan hvað það gefur litlum manneskjum ótrúlega gleði að fá stóran til að leika með! Finnum barnið innra með okkur og gefum því aðeins lausan tauminn!

Hugmyndir að góðri hreyfingu með krökkunum getur verið:

  • Trampólínhopp og skopp
  • Boltaleikir – hvaða boltaleikir sem er – svo lengi sem þú hleypur á eftir boltanum og ert ekki bara í marki!
  • Hjól – farið í hjólareiðatúr! Ákveðið að einhvern hluta leiðarinnar á að hjóla svakalega hratt og ekki stoppa fyrr en á fyrirframákveðnum áningastað!
  • Útileikir – hvaða útileikir sem er! Mannstu eftir einni krónu og skotbolta? Klassískur eltingarleikur ætti heldur ekki að láta púlsinn ósnertan!
  1. Finnum litlu leiðirnar til þess að koma auka hreyfingu inn í daginn

  • Taktu stigann í staðinn fyrir lyftuna
  • Leggðu bílnum viljandi langt frá búðinni og labbaðu
  • Haltu á vörunum þínum í stað þess að nota kerru ef þú getur
  • Stattu upp á klukkutíma fresti eða fáðu þér skrifborð sem þú getur hækkað og staðið við öðru hverju
  • Stilltu vekjaraklukkuna í símanum þínum til þess að minna þig á að standa upp reglulega og ná þér í vatn eða aðeins að teygja úr þér.
  • Notaðu heyrnartól og taktu göngu fundi og símtöl standandi eða gangandi
  • Minnkaðu sjónvarpsgláp á kvöldin og gerðu frekar teygjur eða hreyfðu þig. Ef þú vilt alls ekki missa af uppáhaldsþættinum geturðu jafnvel teygt aðeins á meðan.
  1. Notum skrefamæli eða heilsuúr

Eignastu heilsuúr sem heldur tölu á skrefafjöldanum þínum yfir daginn og settu þér markmið um að ná að minnsta kosti 10.000 skrefum á dag (sem er viðmið WHO) eða að vera ákveðið virk á hverjum degi. Það getur verið ótrúlega hvetjandi að fylgjast með úrinu yfir daginn til þess að átta sig á því hversu virkur maður er á degi hverjum og hef ég heyrt margar sögur um kvöldhreyfingu sem varð að veruleika til þess að uppfylla skrefakvóta dagsins.

  1. Virkjaðu vinkonurnar þínar í hreyfingu eða eignast nýjar heilsuvinkonur

Það er alltaf skemmtilegt að tilheyra hóp eða upplifa hvatningu frá umhverfinu. Þessa daganna er lítið um námskeið, en það er alltaf hægt að finna lausnir. Taktu þátt í lifandi samfélagi á netinu þar sem við hreyfum okkur heima eða virkjaðu vinkonur þínar með í heimaæfingar.

Besti tíminn til þess að byrja að sinna líkama og heilsu er NÚNA, ekki seinna. Þú átt skilið að líða vel í dag, vera orkumikil og finna fyrir líkamlegu hreysti og vellíðan, og það er eitthvað sem þú getur skapað á mjög stuttum tíma.

Settu þér markmið í vetur að halda hreyfingunni inni í þínu daglega lífi – það þarf hvorki að vera flókið eða taka mikinn tíma frá öðrum mikilvægum hlutum.

 

Aðsend grein frá www.hiitfit.is

 

Nýjar fréttir