2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Minningargrein: Sólin gægist gegnum ský

Minningargrein: Sólin gægist gegnum ský

0
Minningargrein: Sólin gægist gegnum ský
Jóhann P. Guðmundsson (Jói í Stapa)

Skáldið, listamaðurinn og smiðurinn Jóhann P. Guðmundsson (Jói í Stapa) er Sunnlendingum vel kunnur. Jói í Stapa fæddist í Skagafirði 22. janúar 1924 og sat yfir ám 11 ára, sennilega síðasti smalinn í Skagafirði.

Vindur svalar hnjúkum háu,
hlíðin dala birtir sýn.
Hér um bala og lautir lágu
léttu smalasporin mín.

Jói byrjaði ungur að yrkja. Skáldagáfan var það sem hann var einna þekktastur fyrir og var manna fljótastur að setja saman dýra bragi. Í kveðskapnum birtist jafnan ást hans á náttúrunni, fjöllum og hestamennsku.

Eigum leið um auðn og grjót,
öldur, skeið og fláa.
Frjálsan breiðir faðminn mót
fjallaheiðið bláa.

Jói lærði ungur, við tíða búflutninga og fátækt, að gera gott úr hlutunum og var það hans aðalsmerki. þótt drjúgum hafi hann stritað um ævina og oftast búið þar sem smíða átti hverju sinni.

Þó að birgi þokan grá,
þá má fegurð dreyma,
meðan ögn af æskuþrá,
aldin hjörtu geyma.

Eftir vætu og veðragný,
sem varnar sýn til fjalla.
Sólin gægist gegnum ský
og glæðir hugsun alla.

Jói flutti á Suðurland 1986, var eftirsóttur smiður og vinamargur. Hann gaf út tvær bækur með kveðskap sínum, Axarsköft og Ný Axarsköft.

Fölna blómin, fjarri er raust
fugla og þyngist sporið
ef að kæmi aldrei haust
engir þráðu vorið.

Jói var forsprakki ásamt föður mínum, Inga Heiðmari Jónssyni, í því að koma á hagyrðingamótum sem haldin voru árlega í 23 ár vítt um land. Þar naut Jói félagsskapar vina sinna og velunnara stökunnar.

Virkjum anda okkar rétt

allan vanda þrengjum.
Milli stranda ljúft og létt
ljóðabandið tengjum.

Síungur sinnti Jói smíðunum og hestamennsku þar til ellin tók yfir. Hann reið síðast yfir Sprengisand árið 2004 og gerði sér heimili í Varmahlíð þar sem hann bjó síðasta spölinn.

Áfram ríð ég ótrauður
öllu hafna grandi
yndi er að vera áttræður
uppi á Sprengisandi.

Jói í Stapa lést að morgni 20.október sl. í Skagafirðinum sínum kæra. Við fregnirnar af mínum kæra vini og fósturafa var mér litið út um gluggann. Þrátt fyrir frost í jörðu og hrím yfir öllu braust sólin í gegnum skýin til að ylja og gleðja, rétt eins og Jói gerði hvar sem hann kom þrátt fyrir að hafa lifað tímanna tvenna.

Nótt

Landið reifast rökkurböndum,
roða á hafið slær.
Inn til dala og út með ströndum
andar mildur blær.
Hljóðnar ysinn, söngfugl sefur,
sveitin hvílist rótt.
Hug minn sér að hjarta vefur
hljóð og kyrrlát nótt.

Þegar öll er æviganga
andans gróa sár.
Léttur, blíður blær á vanga
beiskust þerrar tár.
Þá er lokið hryggð og harmi
og huga mínum rótt.
Þrýsti ég höfði að þínum barmi
þögla, kyrra nótt.

Megi minning hans lifa í hjörtum okkar og kvæðum hans.

Halla Ósk Heiðmarsdóttir