0.5 C
Selfoss

470 ár frá aftöku Jóns Arasonar

Vinsælast

Þann 7. nóvember verða liðin 470 ár frá aftöku Jón biskups Arasonar og sona hans Ara og Björns. Þennan dag hefur oft verið efnt til tónleika og oft hafa margir kórar, organistar og annað tónlistarfólk komið að því. Vegna aðgerða okkar allra í miðjum heimsfaraldri verður athöfnin látlaus og aðeins verða tveir til þrír tónlistarmenn viðstaddir auk biskupsins, sr. Kristjáns Björnssonar. Tónleikunum og hugleiðingunni verður streymt opið á fb-heimasíðu Skálholts og verður ókeyis inn á það! Eftir stundina í Skálholtsdómkirkju munu þau fáu sem verða viðstödd ganga með blys að minnisvarðanum og tendra þar minningarkerti. Herra Jón Arason kom tvisvar í Skálholt að freista þess að taka þar völdin í nafni trúar sinnar og ættjarðar á þeim árum sem Ísland var að ganga í gegnum siðbótina. Bæði skiptin, árið 1548 og 1550, var það í tíð Marteins Einarssonar sem var annar lútherski biskupinn í Skálholti. Eru enn þekkt þau kennileiti sem tengjst þessum ferðum og nægir að nefna Fornastuðul við Biskupstraðir þar sem herra Jón sló upp tjöldum, Virkishól þar sem sagt er að heimamenn hafi varist og að lokum minnisvarðinn um herra Jón sem reistur var á ætluðum aftökustað árið 1927. Minnisvarðinn stendur við Þorláksleið um miðja vegu milli Fornastuðuls og Þorlákssætis. Fólk á ferð er velkomið í Skálholt og veitingastaðurinn er opinn innan sóttvarnamarka en hvatt er til allrar varkárni í ljósi veirunnar. Kirkjan, sögusýningin í kjallara hennar og Þorláksbúð eru opin alla daga milli 9 og 18 og minjarnar utandyra eru allar merktar fyrir þau sem vilja ganga um svæðið.

 

Random Image

Nýjar fréttir