11.1 C
Selfoss

Fjölbrautaskóli Suðurlands opnar kvöldskóla

Vinsælast

Þær spennandi fréttir bárust úr herbúðum FSu að keyra ætti kvöldskóla í þremur fögum við skólann. Við hittum Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands og spurðum út í málið.
Fyrsta spurning: Hvernig hefur skóla­starfið gengið í haust? „Skóla­starfið í FSu hefur verið í sam­ræmi við annað í samfélagi okkar núna á haustönn 2020, nemendur hafa margir þurft að halda sig að mestu heima og verið í fjarnámi. Aðrir hafa fengið að mæta eitthvað í skólann.“ Nú eruð þið að hefja nýtt kvöld­nám. Getur þú sagt mér aðeins frá því? „Já, námið er nýtt átaks­verkefni sem hefur verið sett á fót í kjölfar vaxandi atvinnu­leysis. Verkefnið er í umsjá mennta- og félags­mála­ráðuneyta, „Nám er tækifæri“, námsúrræði í starfs– og tækninámi fyrir fólk sem hefur misst vinnuna í kjölfar Covid 19 faraldursins,“ segir Olga. Stefnt er að því að setja af stað kvöldnám í FSu fyrir þá sem misst hafa vinnuna og eru á skrá hjá Vinnumálastofnun eða hafa ekki komast að í dagskóla fram til þessa. Umsækjendur þurfa jafnframt að vera orðnir 20 ára eða eldri. Nú miðast þetta við að fólk sé án atvinnu og komi í gegnum Vinnumálastofnun, verður þetta útvíkkað þannig að fleiri geti sótt námið? Við sjáum í hendi okkar að við þurfum að hafa að minnsta kosti 12 ein­stak­linga til að keyra námið. Við sjáum því ekkert til fyrirstöðu að fylla upp í það með fólki sem kemur inn með öðrum hætti, sé pláss fyrir það.
Aðspurð með fyrir­komu­lag námsins segir Olga: „Fyrir­komu­lag námsins er að kennt verður 4 daga í viku í u.þ.b. 3 klst. í senn, frá kl. 16:15-19:30 mán. – fim. og 4 tíma á laugar­dags­morgnum. Nánara fyrirkomulag um kennsluna mun liggja fyrir þegar umsóknir fara að berast. Til að byrja með er ætlunin að bjóða nám í húsasmíði og rafvirkjun sem þegar er kennt í dagskóla. Að auki verður boðið upp á glænýtt nám við skólann, tækniteiknun en það nám er eingöngu hægt að stunda við Tækniskólann eins og er. Verkleg aðstaða fyrir þessar námsgreinar er með því besta sem gerist og munu nemendur því fá full­komna aðstöðu til námsins. Vel menntaðir kennarar eru við skólann í þessum námsgreinum sem eru tilbúnir í verkefnið.“
Á haustdögum voru samþykkt lög frá Alþingi um að fólk á bótum mætti vera í fullu námi á vorönn ´21 án þess að atvinnuleysisbætur væru skertar. Þetta svigrúm gefur verðandi nemendum tækifæri á að vera í fullu námi á sama tíma og á bótum. Áhugasömum er bent á að sækja um en opnað var fyrir umsóknir þann 1. nóvember sl. „Við teljum þessa nýbreytni vera mikla framför fyrir fólk á Suðurlandi og vonum við að vel verði tekið í hana með góðri aðsókn,“ segir Olga Lísa að lokum.

Nýjar fréttir