2.8 C
Selfoss

Langar mjög að eignast Prinsessuna sem átti 365 kjóla

Vinsælast

 

Rannveig ANNA Jónsdóttir er stofnandi Konubókastofu á Eyrarbakka. Hún er alin upp í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu en býr núna í gömlu húsi á Eyrarbakka. Lærði og lauk BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu í fagurfræði og menningu frá háskólanum í Árósum í Danaveldi. Anna er gift Þorvaldi Halldóri Gunnarssyni aðstoðarskólastjóra í Vallaskóla á Selfossi og móðir Halldóru Guðlaugar og Hallgerðar Freyju. Aðal áhugamálin hennar eru menningarmál af ýmsu tagi, lestur, matargerð og ferðalög innanlands og erlendis.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa nokkrar bækur með mismunandi aðferðum. Var að klára bókina Sumar í París eftir Söru Morgan. Langaði að lesa eina rómantíska bók sem reyndi lítið á kollinn og hún uppfyllti alveg þær kröfur. Verst hvað mig langar ennþá meira til Parísar eftir lesturinn og væri örugglega búin að kaupa miða ef aðstæður í heiminum væru öðruvísi. Fór þangað árið 1989 og alltaf langað aftur. Svo er ég að hlusta á bókina Dóttirin eftir Anne Birkefeldt Ragde, seinustu bókina um Neshov-fólkið í Noregi. Þar að auki er ég með eina rafbók sem ég les á dönsku en það er Tabíta eftir Iben Mondrup. Dönsk vinkona mín mælti með þeirri bók sem fjallar um Dani sem ættleiða grænlensk systkini í kringum 1960 og hvernig líf þeirra þróast í Danmörku. Átakanleg saga um nýlendutíma Dana í Grænlandi. Bók sem er afskaplega vel skrifuð. Glæpasögur eru hins vegar þær bækur sem ég les mest, svona ef þær eru ekki of ljótar. Aðstæður mínar eru þannig að ég þarf oft að halda kyrru fyrir og snemma fór ég að nota bækur til þess. Ef þær eru nógu spennandi get ég haldið mér á mottunni og einbeint mér að lestri í stað þess að vera að gera eitthvað annað. Þegar ég er þreytt á glæpasögunum fer ég í bækur sem ég hef heyrt um eða lesið um eða einhver hefur mælt með og þær geta verið af ýmsum toga. Mér finnst til dæmis gaman að lesa bækur sem lýsa lífi fólks í öðrum löndum sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég fór í bókmenntafræði. Þar las ég franskar, þýskar, slavneskar, norrænar, suður amerískar og bækur frá Nýja Sjálandi til dæmis. Svo les ég töluvert á dönsku til að halda málinu við eftir að hafa búið þar í níu ár.

Var bóklestur hluti af uppeldinu?

Já, það var lesið fyrir mig en ég fór snemma að lesa sjálf og man varla eftir mér öðruvísi en lesandi. Það var mjög mikið lesið í kringum mig og talað um bækur. Það var mikill gestagangur hjá pabba og mömmu í sveitinni og oft var rætt um bækur. Skólaljóðin voru í miklu uppáhaldi og eru enn og þar fyrir utan var ég alltaf mjög hrifin af Línu Langsokk. Heillaðist af svona ákveðinni stelpu sem lét ekkert stoppa sig. Ég var í heimavistarskóla sem heitir Húnavellir og man mikið eftir mér hlaupandi inn í herbergi í frímínútum þar sem ég las þó svo frímínúturnar væru oft bara í 10 mínútur. Í skólanum var fínt bókasafn sem ég nýtti vel. Seinna las ég svo fyrir stelpurnar mínar og hætti ekki fyrr en þær voru löngu orðnar læsar. Þetta var svo notaleg stund að ég vildi ekki hætta. Uppáhalds bækurnar mínar voru Lína Langsokkur og Prinsessan sem átti 365 kjóla. Ég á Línu ennþá en hef leitað og leitað að seinni bókinni á fornsölum en ekki fundið hana. Langar mikið að eignast þá bók.

Eitthvað sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Yfirleitt les ég áður en ég fer að sofa og eins þegar ég þarf að hvíla mig yfir daginn. Les þá eða horfi á þætti í sjónvarpinu eða tölvunni. Ég þarf að venja mig betur við að hlusta á bækur, er ekki alveg komin upp á lagið með það en er að æfa mig. Öfunda mömmu sem hlustar á hverja bókina á fætur annarri og prjónar eða saumar á meðan.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Ég á nokkra uppáhaldshöfunda og það hljómar kannski fyrirsjánlegt en ég held mikið upp á Gerði Kristnýju, Auði Jónsdóttur, Auði Övu, Jónínu Leósdóttur, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Sólveigu Pálsdóttur. Þær segja svo mikið í sínum bókum og skapa svo flottar persónur. Held líka mikið upp á Sjón. Skugga Baldur er í miklu uppáhaldi. Svo missi ég ekki af neinum bókum eftir Yrsu og Lilju Sigurðardætur. Hvílist vel við að lesa þær þar sem ég get yfirleitt ekki hætt fyrr en sögunum er lokið. Ég er að kynnast verkum Fríðu Ísberg og fleirum af yngri höfundunum og hlakka mikið til. Í háskólanum kynntist ég verkum Shakespeare og held mikið upp á þau. Amma lánaði mér peninga til að kaupa ritsafn hans áður en ég byrjaði í háskólanáminu og mér finnst mjög vænt um það. Kíki öðru hvoru í bækurnar bara til að lesa eina og eina setningu. Hljómurinn er svo fallegur.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Bækur hafa mjög oft rænt mig svefni og hef ég leyft þeim það. Man ekki eftir jólanóttum sem ég hef ekki vakað framundir morgun við lestur. Þegar ég var unglingur kepptumst ég og systir mín um að lesa sem mest yfir jólanóttina og vöknuðum síðan eftir lesturinn þegar langt var liðið á jóladag.

En að lokum Anna, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Barnabækur væri gaman að skrifa. Mig hefur lengi dreymt um að skrifa bók um stelpu sem þarf að lifa við það að vera alltaf með verki. Samt ekki ævisögu. En ég er bara viss um að ég sé ekki nógu góður penni til að skrifa bækur. Kannski þegar ég verð stór.

________________________________________

Lestrarhestur númer 99. Umsjón Jón Özur Snorrason

 

Nýjar fréttir