9.5 C
Selfoss

Sýrueyðing, dulinn óvinur

Vinsælast

Tannskemmdatíðni barna hefur aldrei verið jafn lág, en á sama tíma sjáum við mikla fjölgun þeirra sem glíma við sýrueyðingu, jafnt ungmenni sem fullorðna. Hvað veldur og hvernig má sporna gegn eyðingunni?

Hvað er sýrueyðing?
Sýrueyðing/glerungseyðing (erosion) er þegar sýra þynnir upp og eyðir tönninni. Sýrueyðing hefur ekkert með sykur eða hefðbundnar tannskemmdir að gera og er oftast flóknari viðureignar. Eyðingin gerist yfirleitt á löngum tíma og meðhöndlun getur orðið ansi flókin ef mikill tannvefur tapast.

Uppbygging tanna
Ysta lag tanna heitir glerungur, sterkur varnarskjöldur sem tekur langan tíma að eyða. Fyrir innan hann er tannbein, meginuppistaða tanna, mýkra og viðkvæmara. Það tekur styttri tíma að eyða 1mm tannbeins heldur en 1mm glerungs.

Útlit í munni
Efri góms framtennur þynnast innanfrá, verða jafnvel gegnsæjar á bitköntunum. Síðan kvarnast neðan af þeim svo þær styttast.
Á bitflötum jaxla sjást fyrst litlir „gígar“/bollar þar sem glerungurinn þynnist („bollastell“). Þeir dýpka síðan hraðar þegar eyðingin er komin inn í tannbein. Bithæð tapast.

pH skalinn
pH skalinn (frá 0-14) lýsir súrleika. Skalinn er veldisskali; pH5 er ekki tveimur stigum súrara en pH7 heldur 100 stigum. Vatn (pH7) er hlutlaust. Allt undir pH7 er súrt, því lægra pH gildi því súrara. Allt undir pH 5,5 er skaðlegt tönnum, því súrara því verra.

Hvaðan kemur sýran?
Algengast er að sýran komi úr drykkjum. Þar eru stærstu óvinirnir sítrónusýra og fosfórsýra. Kolsýra ein og sér er hins vegar í lagi. Sítrónusýra er í svo til öllu sem okkur þykir gott: Gosdrykkjum, ávaxtasöfum og svölum, orkudrykkjum, íþróttadrykkjum, duftblöndum og frostpinnum.
Hrein sítrónusýra er um pH2,2 (100.000x súrari en vatn) og kóladrykkir eru svipaðir (um pH2,5), jafnt sykurlausir sem sykraðir. Þeir valda því gríðarmikilli sýrueyðingu. Flestir vinsælir íþrótta- og orkudrykkir eru á svipuðum slóðum (pH2-3). Ávaxtasafar, svalar og vín eru oft um pH3+. Semsagt, allt saman mjög sýrueyðandi. Vatn (pH7) og mjólk (pH6,5) valda hins vegar engri sýrueyðingu.

Hvað með sódavatn?
Hreint sóda-/kolsýrt vatn er í lagi (pH5,9). En bragðbætta sódavatnið flækir málið. Tegundir sem innihalda ekki sítrónusýru (t.d. allir litir af venjulegum Kristal, pH4,3) valda lítilli sem engri sýrueyðingu (jafnvel hefðbundinn sítrónu Kristall). Þær tegundir sem hins vegar innihalda sítrónusýru valda sýrueyðingu (t.d. allir litir af Kristal Plús, pH 2,9). Það skiptir því miklu máli að kynna sér hvað maður lætur ofan í sig: Hefðbundinn Kristall er í lagi á meðan Kristall Plús er álíka „eitraður“ og kók (varðandi sýrueyðingu). Kristal línurnar frá Egils eru dæmi um það hversu mikilvægt er að kynna sér innihald og sýrustig. Aðrir framleiðendur bjóða líka upp á drykki bæði með og án sítrónusýru.

Feluleikur framleiðenda og meint „hollusta“
Framleiðendur virðast oft fara í hálfgerðan feluleik með að upplýsa neytendur um hvað raunverulega er í vörunum. Margir drykkir eru að auki markaðssettir sem „heilsudrykkir“ þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert með heilsu/hollustu að gera. Hér eru nokkur dæmi um hvað framleiðendur nota í stað þess að tiltaka orðin „sítrónusýra“ eða „citric acid“ í innihaldslýsingu drykkja:
„Sýrustillir“, „náttúruleg bragðefni“, „E330“, og „inniheldur hreinan ávaxtasafa“.

Ekki bara drykkir
Það eru ekki bara drykkir sem valda sýrueyðingu. Ávextir og grænmeti, sérstaklega sítrusávextir, geta spilað stórt hlutverk. Meira að segja sítrónusneið út í vatnið er sýrueyðandi. Ég ætla ekki að leggja mat á hollustu sítrusávaxta en það er alveg ljóst að þeir eru ekki tannvænir í miklu magni.

Neyslumynstur og lífsstíll
„Tískudrykkir“ o.fl. orku-/íþróttadrykkir hafa undanfarið ýtt verulega undir sýrueyðingu. Augljóslega er verra að drekka eina flösku af súrum drykk á dag heldur en eina flösku á viku. Og sömuleiðis er verra að drekka stóra flösku heldur en litla flösku. En það er ekki nóg að skoða magnið. Það skiptir líka máli hvernig drukkið er. Það er t.d. mun betra að klára flöskuna hratt (á matartíma) heldur en að láta sömu flösku endast tímunum saman með sífelldu sötri (fyrir framan tölvuna, í skóla/vinnunni eða á æfingum). Sogrör hlífa framtönnum við sýrunni að einhverju leyti en eru engin töfralausn.

Magasýrur
Fleiri þættir en matur og drykkur stuðla að sýrueyðingu. Magasýrur (pH1,5-3,5)eru þar algengastar, oftast tengdar bakflæði og brjóstsviða en líka uppköstum/átröskun. Bakflæði getur verið dulið, þ.e. verið til staðar án þess að viðkomandi átti sig á því. Ef grunur er um bakflæði er réttast að ráðfæra sig við meltingarsérfræðing.

Hvað er hægt að gera?
Forvarnir eru mikilvægasti þátturinn, að sporna gegn því að sýrueyðing byrji yfirhöfuð:
* Lágmarka neyslu súrra drykkja (og matar). Engin boð og bönn, daglega rútínan skiptir mestu máli.
* Drekka/borða hratt og klára. Ekki sífellt sötur/nart.
* EKKI bursta tennurnar strax eftir neyslu súrrar vöru!
* Skola munninn alltaf með vatni eftir súra neyslu.
* Nota flúortannkrem. Stundum þarf að bæta við enn meiri flúor.
* Meðhöndla bakflæði.
* Óheppilegt bit og gnístran tanna gera illt verra.

Ef eyðingin er hins vegar byrjuð er réttast að þú ráðfærir þig við þinn tannlækni. Það er mikilvægt að finna út hvað veldur eyðingunni svo hægt sé að taka á vandamálinu. Einnig er gott að meta hvort eyðingin sé virk eða ummerki frá fyrri tíð. Tannlæknar þurfa stundum að grípa inn í með plastuppbyggingum og í svæsnustu eyðingunum þarf að krýna tennur svo þeim verði bjargað. Meðhöndlunin getur verið flókin, tímafrek og kostnaðarsöm, að ekki sé talað um lífsgæðaskerðinguna og viðhaldsvesen á viðgerðunum. Heilbrigðar tennur eru margfalt betri en viðgerðar.

Sverrir Örn Hlöðversson,
tannlæknir

 

 

Nýjar fréttir