-0.5 C
Selfoss

Ég myndi skrifa körfuboltabækur í anda Gunnars Helgasonar

Vinsælast

Hrói Bjarnason Freyjuson er nýorðinn átta ára og býr á Þóroddsstöðum í Grímsnesi með mömmu og pabba og tveggja ára systur sinni Vöku. Hrói er í þriðja bekk í Bláskógaskóla á Laugarvatni og stundar hestamennsku af kappi, spilar körfubolta og aðrar íþróttir með Ungmennafélagi Laugdæla.

 

Hvað bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa Barist í Barcelona eftir Gunnar Helgason. Ég fékk áhugann á henni þegar allir voru að lesa Mamma klikk í skólanum. Þá byrjaði ég að lesa sögurnar hans Gunnars Helgasonar og núna hef ég lesið allar bækurnar sem hann hefur skrifað. Ég byrjaði á Mamma klikk og Pabbi prófessor og svo fór ég að lesa fótboltabækurnar þegar ég sá Víti í Vestmannaeyjum. Svo er ég líka búinn að vera að lesa Handbók fyrir ofurhetjur. Hún vakti áhuga minn þegar ég fékk fyrstu bókina í afmælisgjöf og fannst hún skemmtileg. Ég er búinn að lesa fimmtu bókina og ætla að reyna að finna sjöttu og síðustu bókina.

 

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Bækurnar hans Gunnars Helgasonar því þær eru fyndnar og skemmtilegar. Jón getur verið kjáni. Stella er klikk en ekki mamman í Mamma klikk. Eða svona eiginlega. Harry Potter og Hobbitinn eru skemmtilegar bækur út af því að þær eru spennandi og persónurnar eru skemmtilegar og stundum ógeðslegar. Eins og dríslar og orkar, úlfar í Harry Potter og allskonar skrímsli eins og stór ógeðslegur hundur.

 

Er lesið fyrir þig heima?

Já mamma og pabbi hafa lesið margar bækur fyrir mig alveg síðan ég var lítill. Við lesum alltaf áður en ég fer að sofa. Við vorum að klára Hobbitann og hún er uppáhalds. Þegar ég var pínulítill þá voru það Dýrin í hálsaskógi og Bangsímon. Bangsímon myndin er líka svaka skemmtileg. Og pínu sorgleg. Og fyndin. Núna erum við að lesa Galdrakarlinn í Oz og hún er mjög skemmtileg. Harry Potter eru líka uppáhalds hjá mér.

 

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Það er gott að lesa á klósettinu. (Við mamma hlógum mikið þegar ég sagði þetta.) Ég var oft að lesa í hádeginu með afa í sumar. Þá lásum við Garðar og glóblesi og það er líka gott að lesa þegar manni leiðist. Um daginn fór ég með mömmu í vinnuna og las allan tímann. Það er oft lesið fyrir mig og ég hlusta líka á hljóðbækur í Storytel. Mamma vinnur nefnilega í Menntaskólanum á Laugarvatni og skrifstofan hennar er alveg upp við bókasafnið. Þar er gaman að lesa og gott að vera á róandi stað. Svo get ég líka sagt að ég las fyrstu bókina í Handbók fyrir ofurhetjur tvisvar. Einu sinni las ég bók um Kidda klaufa tvisvar. Annars finn ég mér alltaf nýjar bækur og les þær. Fletti þeim ekki bara.

 

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

K. Rowling af því að ég sá smá úr myndunum heima hjá Arnaldi vini mínum og vildi sjá þær en mamma og pabbi vildu fyrst lesa bókina saman. Ég fékk Harry Potter í afmælisgjöf og fannst hún skemmtileg og núna erum við búin að lesa tvær, hlusta á þær líka og horfa á myndirnar. Svo er Gunnar Helgason og bækurnar hans í miklu uppáhaldi eins og ég sagði áðan. Ég hef lesið nokkrar bækur eftir Roald Dahl. Við lásum BFG (The Big Friendly Giant) í sumar og hún er skemmtileg, fyndin, hræðileg og stundum svolítið ógnvekjandi. Mig langar að lesa Georg og magnaða mixtúran eftir Roald Dahl.

 

Eru einhverjar persónur í meira uppáhaldi en aðrar?

Ég myndi alveg vilja vera Jón í Barist í Barcelóna eftir Gunnar Helgason. Svo eru Skúli og Ívar í sömu sögu dáldið óþolandi.

 

En að lokum Hrói hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Körfuboltabækur. Þær væru svipaðar og bækur Gunnars Helgasonar nema bara um körfubolta. En ég hef reyndar prufað að gera sögur í skólanum. Man samt ekkert sérstaklega eftir þeim.

 

_______________________________________

Lestrarhestur númer 100. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

Random Image

Nýjar fréttir