1.1 C
Selfoss

Félagsstarf á Covid-tímum

Vinsælast

Mikilvægt er að halda lífi í félagsstarfi hverskonar, hvort sem það eru líknarfélög, sjálfseflandi félög, íþróttafélög eða önnur hagsmunafélög. Það sem öll þessi félög eiga sameiginlegt er félagsvitund og er hún grunnur að öllu félagsstarfi. Félagsvitund virkjast með þátttöku og samsömun við viðkomandi félag. Það að félagsmenn hafi verkefni og/eða hlutverk í félögum eykur þátttöku í félagsstarfi og styrkir hvert félag.

Það ástand sem nú er í samfélaginu þar sem fjöldatakmarkanir og fjarlægðareglur er við líði getur haft mikil áhrif á skipulagt félagsstarf. Stór þáttur í öllu félagsstarfi er að njóta félagsskapsins, vinna saman að verkefnum og koma fólki saman. Við sem stöndum fyrir félagsskap ýmiskonar höfum fengið nýjar áskoranir í hendurnar, við þurfum að hugsa skipulagið upp á nýtt, vonandi bara tímabundið, og leita nýrra leiða til að halda lífi í félagsstarfinu. Þetta snýst ekki bara um félögin sjálf og félagana sem mynda félagsskapinn heldur hefur starf félaganna oft virk áhrif inn í samfélagið, sem dæmi um það eru þeir sjóðir, stofnanir og félög sem oft treysta á styrktarframlag þessara félaga til að geta aðstoðað og hlúið enn betur að þeim sem þurfa stuðning eða lækningu vegna sjúkdóma eða stutt við þá sem ekki hafa nægt fjármagn á milli handanna til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu.

Að þessu sögðu þá er alltaf hægt að finna nýjar útfærslur og nálganir á þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur. Þó svo að covid ástandið hafi sett á okkur ákveðnar hömlur þá er einmitt mikilvægt að hugsa út fyrir kassann og halda lífi í öllu félagsstarfi þar sem það er hægt. Ég vonast til að þau félög sem ég starfa í verði virk eins og hægt er innan þess ramma sem okkur er gefið og við nýtum það tækifæri til að leita nýrra leiða í félagsstarfi. Einnig skora ég á önnur félög að hugsa nýjar leiðir til að viðhalda starfsemi í félögum og verkefnum.

Laufey Guðmundsdóttir,

Formaður Kvenfélags Grímsneshrepps

 

 

Nýjar fréttir