12.3 C
Selfoss

Munnur og meðganga

Vinsælast

Það er margt sem breytist í líkamanum þegar kona gengur með barn. Tannlæknar heyra stundum: „Þetta fór bara svona þegar ég var ólétt“. Þá er verið að vísa í tannskemmdir o.fl. vandamál sem komu fram á meðgöngunni. Áður fyrr var stundum talað um að kona missti tönn við hverja meðgöngu. Það á varla við í dag. En hvað er það við meðgöngu sem veldur því og þarf þetta að fara svona?

Tannholdsbólgur almennt
Tannholdsbólgur koma þegar bakteríur fá að vera óáreittar á tönnum og undir tannholdi. Á mannamáli: Þegar ekki er hreinsað nægilega vel. Við miklar bólgur verður tannholdið rautt og þrútið, aumt viðkomu og blæðir gjarnan úr við áreiti. Við langvarandi bólgur tapa tennurnar síðan festunni. Með forvörnum (bursti+tannþráður) má komast hjá tannholdsbólgum. Tannsteinn viðheldur hins vegar bólgunum. Ef hann er til staðar þarf að hreinsa hann í burtu hjá tannlækni, það næst ekki með bursta eða tannþræði.

Tannholdsbólgur á meðgöngu
Hjá flestum barnshafandi konum verður bólgusvarið meira/ýktara vegna hormónabreytinga. Ef vantar upp á hreinsun á meðgöngu verða bólgur því meiri en ella. Forvarnir eru besta meðalið; fyrirmyndar hreinsun og fjarlæging tannsteins. Með auknum bólgum er hætt við að þrif verði verri því tannholdið er aumt viðkomu. Þá eykst hættan á enn frekari bólgum sem og tannskemmdum vegna verri þrifa. Hálfgerður vítahringur. Hætt er við því að konan „sitji uppi“ með bólgurnar, tannholds- og tannfestuvandamál eftir fæðingu ef ástandið nær að verða nægilega slæmt.

Tannskemmdir
Tannskemmdahætta (er vegna baktería, „Karíus og Baktus“) getur aukist á meðgöngu. Vegna þrýstings frá kviðarholi er oft lítið „pláss“ í maga (og lítil lyst), gjarnan svengdartilfinning og fyrir vikið verið að narta yfir daginn. Borðað oft og lítið í senn, jafnvel á nóttunni. Að borða oft á dag stóreykur skemmdahættuna, jafnvel þó svo um holla fæðu sé að ræða. Sumar konur verða sólgnar í ákveðinn mat, stundum sætindi og skemmdahættan eykst þá enn frekar.
Mikilvægt er að halda tönnunum hreinum. Ef matast er oft á dag má auka fjölda skipta sem tennurnar eru burstaðar, eða bæta við flúorskolun. Ef matast er á nóttunni er nauðsynlegt að hreinsa tennurnar á eftir.
Það er ekki bara „matur“ sem eykur skemmdahættuna heldur líka drykkir. Æskilegt er að halda sig við vatn á milli mála.

Sýrueyðing/glerungseyðing
Sýrueyðing er þegar utanaðkomandi sýra eyðir upp tönnum. Ekki hefðbundnar tannskemmdir heldur eru tennurnar hægt og rólega að þynnast/eyðast. Ferli sem getur orðið ansi flókið viðureignar. Ógleði og uppköst á meðgöngu stuðla að sýrueyðingu. Sömuleiðis getur þrýstingur frá kviðarholi ýtt undir bakflæði og þar með sýrueyðingu.
Breytt neyslumynstur getur ýtt undir sýrueyðingu ef mikið er sótt í súra drykki og ávexti. Þetta má hafa áhrif á, ólíkt uppköstum og bakflæði. Hér er best að takmarka neysluna.
Skolið munninn með vatni eftir sýrubað. Ekki bursta tennurnar strax á eftir.

Móðir og barn
Talið er að móðir „smiti“ barnið af eigin örveruflóru á fyrstu dögunum. Þ.e. barnið „erfir“ munnflóru móður. Það er hagur fyrir barnið að móðirin sé með heilbrigða flóru í munninum. Það fæst með góðri hreinsun og umhirðu.

Gefðu þér góðan tíma fyrir fæðingu
Skynsamlegt er að fara í skoðun og hreinsun hjá tannlækni á fyrri hluta meðgöngu. Ef eitthvað þarf að laga er gott að ljúka því. Ekki plana tannlæknaþjónustu á seinni hluta meðgöngu, legan í tannlæknastól getur verið erfið og tíminn fram að fæðingu ófyrirséður. Eftir fæðingu er oft ekki mikill tími aflögu fyrstu mánuðina. Það getur valdið óþarfa álagi og streitu að vita af einhverju óviðgerðu. Best er að hafa lokið því sem þarf að gera svo hægt sé að sinna þarfari verkefnum eftir fæðingu.

Í stuttu máli
Með einföldum forvörnum er hægt að lágmarka líkur á vandamálum tengdum meðgöngunni: Flúorbursta tennur a.m.k. tvisvar á dag og nota tannþráð daglega. Forðast sykraðar og súrar vörur. Skola tennur eftir sýruáreiti. Uppræta tannholdsbólgur og tannstein, ómeðhöndluð tannholdsvandamál fyrir meðgöngu stórauka hættuna á frekari vandamálum.
Láttu ekki tannheilsuna þvælast fyrir þér og komandi barni, njóttu meðgöngunnar eftir fremsta megni.

Sverrir Örn Hlöðversson
tannlæknir

Nýjar fréttir