1.1 C
Selfoss

Einingarverksmiðjan flytur í Ölfusið

Vinsælast

Einingaverksmiðjan og Sveitarfélagið Ölfus hafa nú komist að samkomulagi um að starfsemi Einingarverksmiðjunnar flytjist í Ölfus. Til þess að það verði mögulegt verður ráðist í byggingu á allt að 4000 fermetra iðnaðarhúsum, gerð efnissílóa og fleira á Nessandi, nýskipulögðu iðnaðarsvæði í útjaðri Þorlákshafnar.

Einingaverksmiðjan hefur í hátt í 30 ár sérhæft sig í framleiðslu forsteyptra eininga til byggingaframkvæmda. Fyrirtækið er í forystu á sínu sviði og býr yfir mikilli þekkingu á þessu hagkvæma og viðurkennda byggingarformi en hjá fyrirtækinu starfa milli 40 og 50 starfsmenn.

Sveitarfélagið Ölfus hefur markað sér sérstöðu þegar kemur að uppbyggingu tengdri atvinnustarfsemi og skipulagi hagkvæmra og hentugra lóða undir hverskonar fyrirtækjarekstur í útjaðri borgarinnar. Innviðauppbygging svo sem hvað varðar orkuafhendingu, aðgengi að vatni og uppbyggingu hafnar hefur verið markviss og hröð. Það gerir sveitarfélaginu mögulegt að mæta þörfum fyrirtækja á uppbyggjandi og hagkvæman máta.

„Það er afar áægjulegt að finna áhuga stórra sem smárra fyrirtækja á því að velja sér framtíðarstaðsetningu hér í Sveitarfélaginu. Áherslur okkar í skipulagsmálum hafa gert það að verkum að við getum boðið upp á allar stærðir lóða á einstaklega hagkvæmu verði hér í úthverfi borgarinnar. Þá hefur gengið vel að bæta aðgengi að orku, vatni og fl. Við finnum einnig sterkt að vöxtur hafnarinnar styrkir svæðið verulega. Einingarverksmiðjan er rótgróið fyrirtæki sem við þekkjum vel og hjá okkur ríkir tilhlökkun eftir því að fá þau sem liðsmenn í þá sókn sem hér er.“ Segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss í fréttatilkynningu.

Sigurbjörn Óli Ágústson, framkvæmdastjóri Einingaverksmiðjunnar segir að Ölfus sé að þeirra mati ekki eingöngu eitt helsta vaxtarsvæði á landinu með skýra sýn á innviðauppbyggingu heldur sé þar skilningur á hagsmunum fyrirtækja eins og þeirra „Við hjá Einingaverksmiðjunni höfum frá upphafi lagt metnað okkar í að veita húsbyggjendum fjárhagslegt svigrúm til að njóta lífsins. Það gerum við meðal annars með því að bjóða gæðavöru á hagstæðu verði. Til þess að það sé hægt þurfum við ætíð að vera að leita að hagkvæmum og heppilegum leiðum til að þróa rekstur okkar. Sú ákvörðun að staðsetja okkur í Ölfusi er tekin með það að leiðarljósi. Hér hefur okkur verið úthlutað lóð sem gerir okkur mögulegt að taka næstu skref með hagsmuni okkar þjónustuþega í huga. Við höfum fulla trú á komandi samstarfi og stefnum að því að hefja framkvæmdir á næstu dögum.“

 

Nýjar fréttir