2.8 C
Selfoss

Pollýönnuleikurinn

Vinsælast

Á dögunum ákvað ég að hlusta á bókina Pollýönnu. Ég man eftir að hafa lesið þessa bók sem barn og hafði virkilega gaman af þá sem nú. Það þekkja margir söguna um Pollýönnu og þá gleði og jákvæðni sem fylgdi henni. Hún var þakklát fyrir það sem lífið gaf henni. Hún sá glasið hálf fullt en ekki hálf tómt. Þetta var henni ekki eðlislægt í fyrstu. Hún þurfti að læra að temja sér þetta hugarfar með hjálp pabba síns.

Það er auðvelt að verða neikvæður og dapur þegar lífið gengur ekki eins og maður vildi. En það er mikilvægt að læra að telja blessanir sína og allt það góða sem lífið bíður upp á þrátt fyrir að við höfum ekki fulla stjórn á öllu því sem gerist. Fríið er búið, sagði Víðir Reynisson á dögunum. Smitum hefur fjölgað og aftur stöndum við sem þjóð frammi fyrir samkomutakmörkunum. Við höfum þó ekki þurft að beita jafn hörðum sóttvarnaraðgerðum og mörg önnur lönd í kringum okkur. Við höfum búið við frelsi. Vinafólk okkar hjóna býr í Indlandi. Með nokkura klukkustunda fyrirvara var þeim tilkynnt að enginn mætti fara úr húsi nema til að kaupa nauðsynjar og þá einungis einn í einu. Vikurnar liðu og þau fögnuðum þeim tíma þegar þau máttu fara út með ruslið. Hreyfingin sem þau fengu var sú að ganga upp og niður stigaganginn í blokkinni sem þau búa í. Það er greinilega betra að búa í blokk á Indlandi hvað þetta varðar, það gera ekki allir.

Við getum komist í gegnum þetta ef við erum tilbúin að hlýða Víði og gera það sem þríeykið segir okkur. En við ættum ekki bara að komast í gegnum þetta. Við skulum líta á þetta sem tækifæri til að fara í Pollýönnu leikinn og reyna að finna eitthvað jákvætt við þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni. Við upplifum okkur ef til vill ekki eins frjáls eins og fyrir Covid -19 en við búum samt við frelsi. Við getum verið úti í náttúrunni. Við getum virt sóttvarnir en samt sinnt félagslegum tengslum. Við getum gert góðverk t.d með því að færa einhverjum sem er í sóttkví eitthvað gott úr bakaríinu. Við getum lesið meira, prjónað meira, spilað meira og jafnvel fundið ný áhugamál. Það góða við þessar aðstæður er að við getum lært að meta það sem við höfum.

Á dögunum fékk maðurinn minn hálsbólgu og varð slappur. Hann fékk fljótlega að komast að í Covid sýnatöku. Mér fannst skrítið að sofa ekki í sama herbergi og hann á meðan beðið var eftir niðustöðum. Mér fannst líka skrítið að “mega” ekki koma við hann. Þegar niðurstaðan kom og það kom í ljós að hann var ekki með Covid þá fögnuðum við. Við þurftum ekki að vera “aðskilin” lengi en það að mega ekki koma við maka sinn sem maður elskar heitt kenndi mér að vera þakklát fyrir það sem maður tekur flesta daga sem sjálfsögðum hlut. Ég tek ofan af fyrir þeim einstaklingum sem hafa verið eða eru í sóttkví og einangrun dögum og vikum saman. Þið eigið hrós skilið.

Ég hef mikla trú á því að við fáum styrkinn og kraftinn til að takast á við þær aðstæður sem við lendum í hverju sinni ef við viðurkennum tilfinningar okkar, hreyfum okkur reglulega og tökum okkur tíma til hugleiðslu og bænar. Eftirfarandi bæn hefur hjálpað mér mikið. Þessa bæn (fyrsta hluta hennar) þekkja margir en hún er eftir bandaríska guðfræðinginn Reinhold Niebuhr.

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann

og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.
Amen

Gangi þér vel að takast á við þær aðstæður sem þú stendur frammi fyrir núna í þínu persónulega lífi. Ekki takast á við þær á hörkunni eða hnefanum. Það er betra að takast á við þær einn dag í einu og jafnvel eitt andartak í einu.

Ég deili reglulega jákvæðum skilaboðum inn á Instagram og Facebook. Ef þú vilt fylgja mér þar þá er nafnið einfalt: Gunna Stella.

Kærleikskveðja til þín,

Gunna Stella

Nýjar fréttir