-1.1 C
Selfoss

Konur á öllum aldri ættu að taka Línu langsokk sér til fyrirmyndar

Vinsælast

Jóhanna S. Hannesdóttir býr í Stóru-Sandvík ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Karli Sigurdórssyni og þremur börnum, þeim Dýrleifu Nönnu, Benedikt Hrafni og Sigurdóri Erni. Jóhanna er með BA gráðu í þjóðfræði og starfar sem blaðamaður hjá sunnlenska.is sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum. Hennar helstu áhugamál eru allt sem viðkemur heilsu, náttúru, göldrum, tímaferðalögum, dulspeki, listum og kvikmyndum.

Hvaða bók ertu að lesa?

Ég er alltaf að lesa nokkrar bækur í einu. Ég er annars vegar að lesa Becoming Supernatural eftir Dr. Joe Dispenza sem fjallar í stuttu máli um það hvernig við getum endurforritað okkur með hugleiðslu og öðrum aðferðum til að ná betri heilsu. Algjörlega frábær bók sem ég mæli með fyrir alla sem vilja líða betur. Þegar heilsan er annars vegar finnst mér mataræðið oft fá of mikið vægi og hugsanir okkar of lítið vægi. Það er ekki nóg að borða hollan mat ef hausinn á okkur er í tómu tjóni. Ég er líka að lesa The Oxygen Advantage eftir Patrick McKeown sem kennir fólki Buteyko öndunaraðferðina en sú öndunaraðferð á að hjálpa fólki að ná betri árangri í íþróttum, minnka kvíða, þreytu, svefnleysi og astma. Einstaklega fróðleg bók.

Svo er ég að lesa The Subtle Art of Not Giving a F*ck eftir Roger Wayne í þriðja sinn. Þessi bók er svo mikil snilld og ég held að allir hefðu gott af því að lesa hana – sérstaklega þeir sem hugsa of mikið um það hvað öðrum finnst. Að lokum verð ég að nefna ljóðabókina Eddu eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur, vinkonu mína. Einstaklega falleg bók – rétt eins og höfundurinn.

Fleiri eru á náttborðinu sem ég er mislangt komin með. Sumar bækur les ég helst árlega, eins og You Can Heal your Life eftir Louise Hay og Change Your Thoughts, Change Your Life eftir Dr. Wayne W. Dyer. Tvær bækur sem höfðu mikil áhrif á mig þegar ég las þær fyrst.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Allar bækur sem fjalla um heilsu, hvort sem það er líkamleg eða andleg heilsa. Þegar ég var í þjóðfræðinni í HÍ vandist ég því að lesa á ensku en það er eitthvað sem ég var rög við áður, verandi með lesblindu. Sumar bækurnar í náminu þurfti maður að panta sjálfur af Amazon og þá uppgövtaði ég alveg nýjan heim – allar stórkostlegu bækurnar þar sem innihéldu alls konar fróðleik um alls konar merkilegt. Ég elska að læra og fræðast meira og les um allt sem ég hef áhuga á. Það er samt svo merkilegt að því meira sem ég les því betur sé ég hversu lítið ég veit og á mikið eftir að læra. Síðustu ár hef ég keypt flestar mínar bækur á Amazon en íslensku bækurnar kaupi ég í Bókaffinu á Selfossi. Sumar bækurnar les ég aftur og aftur og vil eiga áfram en langflestar bækurnar gef ég annað hvort til vinkvenna minna eða bókasafnsins á Selfossi.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Pabbi las alltaf fyrir okkur systkinin á kvöldin, alls konar ævintýri og þjóðsögur. Svo sagði hann okkur oft frumsamdar sögur, sérstaklega þegar Jói bróðir minn – sem var einstaklega matvandur krakki – vildi ekki borða matinn sinn. Pabbi sagði þá okkur æsispennandi sögu sem varð til þessi að Jói gleymdi alveg matvendni sinni og borðaði óvart allan matinn sinn.

Lengi vel var Pollýanna uppáhalds bókin mín en í seinni hef ég áttað mig á því að Pollýanna er ekkert svo góð fyrirmynd – sérstaklega ekki fyrir konur. Það er ekkert eðlilegt að vera alltaf jákvæður og glaður. Það er mikilvægt að horfast í augu við erfiðar tilfinningar og það er öllum hollt að leyfa sér að líða illa þegar þeir lenda í mótlæti – leyfa sér að gráta hressilega og fá útrás fyrir tilfinningarnar í staðinn fyrir að bæla þær niður. Talandi um fyrirmyndir þá er Lína Langsokkur sögupersóna sem konur á öllum aldri ættu að taka sér til fyrirmyndar – einhver sem þorir að taka pláss, er sjálfstæð, stendur ávallt með sjálfri sér, er laus við alla meðvirkni og síðast en ekki síst – hefur gaman af lífinu.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les þegar ég get og hef tíma. Les fyrir Sídó minn á kvöldin (Einar Áskell er í miklu uppáhaldi hjá okkur) og svo les ég fyrir sjálfa mig, annað hvort uppi í rúmi, í sófanum eða í saunaklefanum. Ég elska að lesa. Það er helst þá sem það slokknar á ofvirka huganum mínum.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Þegar ég var unglingur hélt ég mikið upp á Þorgrím Þráinsson og Birgittu H. Halldórsdóttur. Ég held að ég hafi lesið allar bækur Birgittu sem ég fann á bókasafninu. Eftir að ég varð fullorðin (ef maður telst einhvern tímann fullorðinn?) þá hef ég lítið lesið af skáldsögum – aðallega bara fræðibækur/sjálfshjálpabækur um alls konar því mig þyrstir stöðugt í meiri fróðleik. Uppáhalds höfundarnir mínir eru Dr. Wayne W. Dyer, Gabrielle Bernstein, Louise Hay og Brené Brown. Hef lesið flestar bækur eftir þessa höfunda. Textinn flæðir ávallt vel hjá þeim og svo er innihaldið iðulega mannbætandi. Ég fíla líka ritstílinn hjá Gunillu Bergström og Andra Snæ Magnasyni. Annars er Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson ein besta bók sem ég hef lesið. Mér finnst svo fallegt hvernig hann fjallar um geðsjúkdóma á einlægan og hreinskilinn hátt og svo skrifar hann bara svo fallega íslensku.

Hefur bók rænt þig svefni?

Úff, ætli það séu ekki helst einhverjar spennusögur sem ég las sem unglingur. Í dag finnst mér bókalestur fyrir svefninn hjálpa mér til að sofna fyrr og sofa betur.

En að lokum Jóhanna, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég skrifaði bókina 100 heilsuráð til langlífis sem kom úr árið 2014. Ég er með nokkrar bækur – skáldsögur, fræðibækur og uppskriftarbækur – í kollinum sem ég get vonandi seinna komið á blað. Það er sérstaklega ein barnabók sem mig langar mikið til að skrifa sem ég mun vonandi hafa tíma til þegar börnin verða eldri og/eða þegar ég læri að skipuleggja tímann minn betur.

___________________________________________

Lestrarhestur númer 97. Umsjón Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir