8.4 C
Selfoss

Leynist rokkamman einhverstaðar í þínum fórum?

Vinsælast

Í bígerð er heimildarmynd um Andreu Jónsdóttur, útvarpskonu og skífuþeyti með meiru. Myndin mun bera nafnið Rokkamman. Yfir stendur leit af efni sem nýta á í myndina. Helst er leitað af ljósmyndum, myndskeiðum og hljóðupptökum frá hinum ýmsu tímabilum. Mögulega gætu leynst slíkar gersemar hjá fólki hér á Selfossi en Andrea ólst upp hér í bæ og því gæti eitthvað leynst í fórum fólks sem ætti heima í heimildarmyndinni. Hún varð meðal annars afrekskona í sundíþróttum fyrir HSK. Í myndinni verður ekki eingöngu fjallað um afrek hennar í tónlistarmiðlun heldur verður fjallað um líf hennar frá barnæsku til dagsins í dag og leitast við að gera persónunni Andreu Jónsdóttur góð skil.

Þeytir skífum upp á hillu á Dillon

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, tónlistarkona með meiru, hefur haft hönd í bagga með aðstoða við verkefnið með heimildaöflun. Hún leit við hjá okkur á Dagskránni og sagði okkur nánar frá því sem í bígerð er. „Ég held að ekki allir átti sig á þeirri staðreynd að hún sé orðin 71 árs gömul. Þrátt fyrir það er hún er ennþá uppi á hillu á Dillon og er að þeyta skífum og heldur uppi stuðinu fyrir fólk sem er svo mörgum, mörgum árum yngri en hún. En það tengja allir við hana óháð aldri, hvaða tónlist það fílar eða hvað því að hún er svo opin fyrir öllu og gerir öllu svo góð skil. Þá er rétt að taka fram að hún hefur hjálpað mörgum í gegn um tíðina að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni með því að spila tónlistina þeirra. Og þá oft yngri tónlistarkonum sem stundum eiga erfiðara með að ná athygli fjölmiðla. Það eiga að mínu viti margir henni eitthvað að þakka fyrir að hafa fengið jafnvel að stíga sín fyrstu spor í fjölmiðlum í hennar þáttum.“

Draumurinn að finna gamlar upptökur frá upphafsárum Andreu á Rás 2

Eins og áður kom fram er verið að safna heimildum um Andreu frá öllum tímabilum í hennar lífi til að gera því sem best og dýpst skil. Ása Berglind hefur verið að fara í gegn um ýmislegt á RÚV teng ferli Andreu. „Það sem að Andrea var framan af lengst af á Rás 2, þar sem ekki var jafn vel haldið utan um efni framan af þó það sé algerlega breytt í dag, þá er ekki mikið til frá upphafsárum Rásar 2 í safni RÚV. Draumurinn er sem sagt að finna gamlar upptökur frá upphafsárum Andreu á Rás 2. Og við erum að vonast eftir því að fólk eigi jafnvel einhverstaðar í fórum sínum upptökur af útvarpsþáttum Andreu á kassettum eða öðru formi. Fólk tók mikið upp á þessum tíma til að geta hlustað á þættina aftur og aftur og þar með lögin. Aðgangurinn að tónlistinni var ekki jafn mikill og er í dag,“ segir Ása Berglind. Hvert á fólk að snúa sér með það að koma upplýsingum um að það eigi heimildir og efni sem nýtist í myndina? „Við erum með netfang sem er rokkamman@gmail.com. Þangað myndum við gjarna vilja fá allt efni.“ Það má geta þess að verkefnið er í fjármögnunarferli og með umsókn hjá Kvikmyndasjóði Íslands. Þeir sem hafa áhuga á því að koma að því að styrkja verkefnið geta sömuleiðis haft samband í veffangið hér að framan.

Nýjar fréttir